Út er komið lagið Logi með Latínudeildinni (Latin Faculty) og Unu Stef. Lagið er annar singull eða stak af væntanlegri breiðskífu Latínudeildarinnar sem bera mun heitið Í hangsinu og mun innihalda djass (handa þeim sem alla jafna hlusta ekki á djass), blús, bossnóva og fönk. Útgáfa verður að líkindum síðar á árinu eða snemma 2026.
Þetta lag, Logi, var samið fyrir um 30 árum og textinn líka sem er eftir Jón Hall Stefánsson, skáld, þýðanda og trúbador (að minnsta kosti stundum). Af einhverjum ástæðum fann lagið sér ekki farveg til útgáfu fyrr en nú, gleymdist kannski líka en fannst sem betur fer aftur.
Hljómsveitina skipa Eðvarð Lárusson gítarleikari sem einnig annast upptökustjórn, bassaleikarinn Valdimar Olgeirsson, Jóhannes Guðjónsson á hljómborð, Karl PéturvSmith trommuleikari og Jakob Grétar Sigurðsson á slagverk. Hljóðmenn voru Úlfur Hansson, Jakob Sig, Georg Bjarnason og Birgir Jóhann Birgisson sem einnig sá um hljóðblöndun og frágang.
Lagið er þegar komið á topp 50 listann á Spáni (nr. 18) þrátt fyrir að vera sungið á íslensku.
Þess má geta að Svo til (e. So Nice)hlaut tilnefningu til Hollywood Independent Music Awards í flokknum Jazz (Smooth/Cool).
Sjá einnig: Latínudeildin með nýtt lag í þremur útfærslum