Denzel var ekki skemmt þegar hann mætti á frumsýningu nýjustu myndar sinnar, Highest 2 Lowest, á kvikmyndinahátíðinni í Cannes á mánudagskvöld.
Denzel, sem er orðinn sjötugur, lenti þá í orðaskiptum við ljósmyndara sem virtist sýna aðeins of mikla ákefð í störfum sínum að mati leikarans.
Leikarinn sást meðal annars benda fingri að ljósmyndaranum og segja nokkur vel valin orð við hann. Samkvæmt varalesaranum Jeremy Freeman var Denzel óánægður með að ljósmyndarinn hafi gripið í handlegg hans. „Leyfðu mér að segja þér eitt – hættu, hættu – ekki snerta mig,“ sagði hann. Ljósmyndarinn greip aftur í Denzel sem þá öskraði á hann: „Hættu þessu, hættu þessu, hættu þessu. Ég meina það. Hættu þessu.“
Myndir af atvikinu fóru eins og eldur í sinu um netheima.
Talsmaður leikarans segir að þrátt fyrir leiðinlegt atvik hafi það ekki haft áhrif á kvöld Denzel sem skemmti sér konunglega á frumsýningunni.
„Þettta var frábært kvöld,“ sagði talsmaður hans við E! News.