Ég áttaði mig á því næstsíðasta daginn í fríinu mínu á Tenerife að ekki gæti ég farið frá eyjunni án þess að heilsa upp á og ræða við frægasta og skemmtilegasta Íslendinginn á staðnum, Önnu Kristjánsdóttur, sem búið hefur þar í nokkur ár. Anna tók erindi mínu ljúflega og klukkan fjögur í eftirmiðdaginn, eftir gott sólbað, var ég mættur heim til hennar þar sem hún býr í Los Cristianos, í skemmtilegri götu spölkorn frá ströndinni.
Við byrjum á að koma okkur fyrir úti á rúmgóðum svölunum, hún býður mér bjór sem ég þigg en hún fær sér Sprite. Ég byrja á að spyrja hana hvað verði til þess að kona ákveði að flytja af eyjunni bláu og fara í sumar og sól hér í suðurhöfum?
„Ég var búin að ganga með þetta í maganum í mörg ár og þegar ég fór að huga að starfslokum þá fór ég vorið og sumarið 2018 á nokkra staði bara til að kynna mér stöðuna, hvar væri gott að vera. Ég fór til Spánar í fyrsta skipti á ævinni í apríl 2018. Þar var bara rigning og rok úti í Torrevieja fyrstu dagana. Svo kom ég hingað um haustið og var hér í viku og það var sól og blíða alla daga. Þá hugsaði ég með mér: Það er best að byrja á Tenerife!
Ég hætti svo að vinna þarna sumarið 2019 og flutti beint hingað og er ekki enn þá farin héðan. Það var gott að flytja hingað. Fyrst var ég á öðrum stað, í stóru skrítnu Achacay blokkinni hérna niður frá, með skrítnu stigagöngunum. Þar var þetta mjög blandaður hópur. Þarna voru Ítalir, Belgar og Svíar. Hérna eru þetta aðallega Bretar.“
Anna segir að þótt misjafnt orð fari af Bretum í sólarlöndum sé fólkið þarna alveg ljómandi gott. Margir hafi búið þarna í mörg ár.
En þú ert ekki hérna til þess að liggja í sólbaði allan daginn?
„Nei. Það kemur samt fyrir að ég lít í bók eða eitthvað.“
Þú ert með þessar dásamlegu svalir. Hér getur þú legið í sólbaði meira og minna allan daginn.
Svalirnar hjá Önnu eru sem fyrr segir mjög rúmgóðar og njóta vel sólar meira og minna allan daginn og fram á kvöld. Hún er með sófasett og góða sólbaðsbekki. Svo er stór og góður ísskápur þar úti í horni, varinn fyrir mestu sólargeislunum. Svalaísskápurinn er miklum mun stærri en ísskápurinn inni í íbúðinni.
„Ég er bara með dýnur hérna inni sem ég get sett út á bekkinn þegar ég vil sóla mig,“ segir Anna og brosir kankvís, „þannig að þetta er alveg ljómandi gott.“
Svo er stutt fyrir þig að labba niður á strönd, ef þú vilt fara á ströndina.
„Já, ætli ég sé nema svona 10 mínútur að labba niður á strönd, stystu leið. En ef ég vil fara á barina hérna, ef ég vil horfa á fótbolta ,þá er það bara hérna úti á horni, en það er eins gott þá að vera í rauðu. Hér er það Liverpool en þeir taka vel á móti öllum, þetta er samt aðallega Liverpool bar. Svo, ef maður fer aðeins lengra þá er þar spænskur bar sem heitir Babylon. Ég fer oft þangað. Það er meira svona Spánverjabar.
Anna segir að sér finnist besta veðrið hérna vera á haustin. „Það er búið að vera hryllilegt að undanförnu. Venjulega er þetta orðið þannig í mars að maður getur verið bara á stuttermabolnum allt kvöldið en núna er það enn þá þannig að maður tekur með sér peysu út á bar þannig að þetta er óvenju kalt á sama tíma og það eru hlýindi á Íslandi,“ segir Anna.
Þess má geta að viðtalið var tekið þegar hitabylgjan gekk yfir á Íslandi um miðjan maí.
„Núna er búið að vera eitthvert hæðarsvæði yfir Atlantshafinu sem beinir öllum kuldanum hingað suður eftir. Það er hitapottur yfir Íslandi og svo situr maður hérna og skelfur úr kulda. O, jæja, þetta er nú ágætt hérna. Maður kvartar ekki. Ég kvarta reyndar miklu meira en efni standa til,“ segir Anna og brosir.
Ég tek undir þetta og segi af heilum hug að mér finnist hún hafa verið full ósanngjörn við Tenerife veðrið þá daga sé ég hef verið á hér á eyjunni.
„Já, ég sé nú enga ástæðu til að draga úr þessu. Stundum skemmti ég mér alveg ágætlega við skrifin. Það er ákveðin list að ljúga.“
Já, og svo getur það verið svo asskoti skemmtilegt.
„Já, og ég nýti mér það óspart.“
En að öðru. Þú varst í áratugi vélstjóri, var það hjá Eimskip?
„Ég var á togara, ég var víða til sjós, en ég var mikið hjá Eimskip. Í fimm ár var ég á togara frá Vestmannaeyjum. Svo árið 1987 þá tókst mér að brjóta á mér öxlina og hætti til sjós og var eiginlega í heilt ár að ná mér á eftir. Þá fór ég bara að vinna í landi, fyrst hjá Eimskip, en svo fór ég til Svíþjóðar. Þar var ég fyrst hjá Scania og svo í orkuveri. Það var ekki vel borgað hjá Scania, ekki miðað við það sem ég vildi fá. Það var betra í orkuverinu.“
En þú komst svo aftur heim til Íslands.
„Já, það var eftir aðgerðina mína. Þá kem ég heim ´96 og fer í nokkra mánuði á sjó og fékk svo vinnu hjá Hitaveitunni. Ég var svo hjá Hitaveitunni og Orkuveitunni frá árslokum ´96 alveg þar til ég hætti að vinna. Reyndar fór ég stundum í afleysingar á sjó bæði með Eimskip og austur á firði.“
Var þér vel tekið? Ekkert vandamál þó að þú hefðir farið í þessa aðgerð og breytt þínu lífi svona?
„Þetta voru allt gamlir félagar þarna hjá Eimskip. Þeir þekktu mig. Og þeir tóku vel á móti mér fyrir austan þegar ég kom þangað. Það komu alveg upp smávegis vandamál til að byrja með á Íslandi en svo lagaðist það bara. En svo er líka þegar maður er að þvælast hérna, eins og eftir að ég hætti að vinna. Ég kem hingað suður eftir og þá rek ég mig á eitt, að hér er öllum alveg sama. Það er enginn að gera athugasemd við eitt eða neitt. Það er öllum alveg sama hvernig náunginn er.“
Já, bara svona: Live and let live.
„Já, eins og hálfgerðir Danir, allt saman, bara ligeglad. Manni finnst það einhvern veginn. Nú er það þessi afturför sem hefur orðið á Íslandi, ég hef ekki orðið vör við hana hér.“
Talið berst að því bakslagi sem orðið hefur í umburðarlyndi gagnvart fjölbreytileika á Íslandi en þó mun alvarlegar sums staðar í Evrópu og þó sérstaklega í Bandaríkjum Donalds Trump. Anna segir að þó að hún finni ekki fyrir þessu bakslagi á Tenerife en henni sé kunnugt um að í Bretlandi finni fólk mikið fyrir þessu.
„Ég var að skoða lista frá ILGA-Europe (International Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex Association) yfir öll ríki Evrópu. Það þurfti reyndar ekki að koma á óvart að Rússland var þarna neðst en Bretland hefur dottið mikið niður. Þeir voru í fyrsta sæti fyrir áratug en eru núna komnir í 26. sæti að mig minnir. Spánn er t.d. í fimmta sæti og Ísland í þriðja. Noregur er þar á milli. Fyrir ofan okkur eru Malta og eitthvert annað smáríki.“
Anna segir að þarna birtist þetta einfaldlega svart á hvítu hvernig þessi þróun er gagnvart fólki.
„Svo er maður bara að horfa bara nánast eins og á fasismann á fullu núna, eins og þetta er í Bandaríkjunum. Maður lifir í þeirri von að þetta sé bara tímabil sem gangi yfir. Ég er eiginlega hissa á því hvað Demókratarnir standa sig illa. Þó að þeir séu í minnihluta skyldi maður ætla að þeir væru háværari en þeir eru. Sjáðu bara hvernig þetta er heima. Þeir eru í minnihluta, stjórnarandstaðan, en hún gólar alveg út í eitt.“
Já, en það er nú ekki vitið sem kemur upp úr þeim.
„Það er svo önnur saga, ég ætla ekkert að fara út í það,“ segir Anna og brosir með öllu andlitinu.
En áfram með smjörið. Hvert liggja ættir Önnu Kristjáns?
„Afi minn og amma bjuggu í Stykkishólmi en þau dóu bæði mjög ung. Afi minn fæddist í Hörðudal í Dölunum …“
Ég hef oft veitt í Hörðudalnum.
„Já. Hann er sem sagt fæddur þar en svo dóu foreldrar hans þegar hann var bara lítill og þá var hann sendur til ömmu sinnar sem bjó úti í Brokey. Þannig að þetta eru eiginlega Breiðfirðingar frekar en Hólmarar.“
Anna vindur kvæði sínu í kross. Hún hefur greinilega ekki mikinn áhuga á að tala um sig eða ætt sína heldur rifjar hún upp nýlegt og skemmtilegt atvik frá Tenerife. Ekki bara frá eyjunni heldur nánast á svölunum hennar. „Það er ekki langt síðan ég sat hérna í rólegheitum þegar það kemur turnfálki og sest hérna á hornið.“ Hún dregur upp símann og finnur til myndina sem hún tók af fálkanum þar sem hann var nánast í seilingarfjarlægð frá þeim stað þar sem við sitjum.
Svo finnur hún mynd af sér við að gera nokkuð sem ekki gerist á hverjum degi. „Sjáðu, hérna er ég að kasta snjóbolta á Tenerife. Reyndar þurfti að fara upp í tvö þúsund metra hæð til þess.“
En hvernig er dagurinn á Tene hjá Önnu Kristjáns?
„Ég vakna alltaf snemma en fer ekki á fætur fyrr en korter í átta. Eftir sturtuna fer ég svo að kíkja á hvaða rugl ég skrifaði kvöldið áður og breyti því stundum og stundum ekki. Ég birti alltaf á morgnana,“ segir Anna og vísar þar til dagbókarfærslna sinna sem hún hefur birt á Facebook um árabil.
„Upp úr því fer ég svo og knúsa hana Knúsu, köttinn hennar Ingu vinkonu minnar sem er á Íslandi í læknismeðferð. Ég reyni að fara einu sinni til tvisvar á dag til hennar. Knúsa er inniköttur og ég er hjá henni í svona klukkutíma, er aðeins með henni og þríf undan kassanum. Hún er viðkvæm greyið, með sykursýki, blessaður kötturinn, þannig að maður þarf að mæta og gefa henni lyfin sín á hverjum morgni. En hún er ekki sátt við þessi lyf, finnst þau ógeðsleg. Það gengur nú samt yfirleitt að koma þessu ofan í hana.“
Anna segir Knúsu hafa gengið í gegnum eitt og annað á sinni ævi og m.a. lifað af svæsna hundaárás þar sem henni var í raun alls ekki hugað líf, lífin hennar séu sannarlega fleiri en níu.
Þegar Anna bregður sér af bæ, eitthvað lengra en milli húsa í Los Cristianos, væsir ekki um hana. Benz er hennar bíll, eða Mjallhvít, og hún hefur átt þá tvo frá því að hún flutti til Tene. Sá fyrri var C-Class með tuskutopp og kallaður Mercý. „Hann var bara svo lágur, ekki nema 14 sentimetrar undir lægsta punkt og maður var alltaf að reka þetta niður ef maður fór eitthvað um þannig að ég gafst upp á honum. Hinn, sem er jeppi, hefur reynst mér ágætlega. Ég er dálítið hrifin af Benzunum þótt ég hafi nú oftast verið á Subaru á Íslandi, en það var bara út af peningaleysi.“
Anna segir náttúruna á Tenerife minna um margt á Ísland. Þetta er eldfjallaeyja, fjöllótt og hraun og grjót víða, rétt eins og á Íslandi. Meira að segja sömu litirnir í berginu. En veðrið er betra. „En það er eitt sem vantar hérna,“ segir hún, „það eru engir goshverir.“
En áfram að daglegu rútínunni. „Ég drekk ekki fyrr en eftir klukkan sjö á kvöldin, helst ekki,“ segir hún og bætir Sprite í glasið sitt um leið og hún færir mér annan bjór úr svalaísskápnum. „Það er þannig að þegar maður er með þetta við höndina alla daga, allan daginn, þá verður maður að setja sér mörk. Ég set mér mörk í þessu. Það getur auðvitað komið fyrir að ég fái mér í glas fyrir klukkan sjö, kannski þegar einhver spennandi íþróttaútsending er í sjónvarpinu.
En hvernig er það, verður ekkert leiðigjarnt að vera hérna á Tene?
„Það verður það, jú, það get ég alveg sagt þér. Þess vegna er ég alltaf að spá í það hvenær er rétti tíminn til að fara heim, þar er ég með fjölskyldu og ég á talsvert mikið af áhugamálum sem ég get ekki tekið með hingað nema að mjög takmörkuðu leyti.“
Hver eru helstu áhugamálin?
„Það er allt mögulegt. Skip. Ég er bara með hluta af frímerkjasafninu mínu hérna en þau spjalla ekkert við mig á kvöldin, það er ekki mikill félagsskapur af þeim. Það er hins vegar mikill félagsskapur niðri í félagi frímerkjasafnara heima. Það er skemmtilegur félagsskapur. Sömuleiðis var ég í stjórn Félags skipa- og bátaáhugamanna alveg þangað til ég fór hingað út. Þar eru haldnir fundir einu sinni í mánuði allan veturinn. Eins líka Hollvinafélag Óðins, varðskipsins, ég er líka þar og þar er hittingur reglulega.“
Anna segir úr svo mörgu að velja á Íslandi, Þar geti hún t.d. mætt í vélstjórakaffið einu sinni í mánuði í Stórhöfða en bætir því við að það hafi hún reyndar aldrei gert, en gott sé að vita af því.
„Það er alltaf spurningin, hvenær rétti tíminn sé til að fara heim aftur því að heilsan, hún kemur ekki til með að verða betri.“
En, heilsan, hún er góð?
„Já, hún er í topplagi eins og er en maður veit aldrei. En hvað sem því líður þá er mjög líklegt að ég fari aftur heim á næstu einu til tveimur árum, mesta lagi þremur.“
Ertu þá að hugsa um að breyta þér í farfugl, vera hér hluta úr ári?
„Það gæti alveg komið til greina … ég er orðin dálítið einmana núna, það vantar eitthvað inn í daglega lífið hjá mér. Eins og ég segi, maður fer og hugsar um köttinn og svo eldar maður sér eitthvað í hádeginu. Svo fer maður í duolingo í svona hálftíma til klukkutíma og svo er ég bara mikið að hlusta á útvarp eða lesa eitthvað.“
Hvernig ertu í spænskunni?
„Alveg hrikaleg, en samt er ég komin nokkuð hátt upp, 435 þúsund stig. En það er ekki nóg því að vandamálið er að ég heyri illa og á erfitt með að aðskilja orðin, ég er með heyrnartæki.“
Nú spyr ég spurningarinnar sem aldrei má spyrja dömu og biðst forláts á því. Hvað ertu gömul?
Anna kippir sér ekki upp við þetta. „Sjötíu og þriggja, sjötíu og fjögurra á árinu. Þegar maður er komin á þennan aldur getur ýmislegt gerst og þess vegna er ég að hugsa um að næstu tvö til þrjú árin verði ég komin á einhvern öruggan stað, þegar að því kemur. Þó að það sé yndislegt að vera hérna þá finnst mér samt eins og það vanti eitthvað öryggi.“
Dagbókarskrif Önnu á Facebook eru ekki bara skemmtun, þau eru ákveðinn öryggisventill. „Ég prófaði einu sinni að sleppa því að birta pistil einn morguninn og fór upp á fjall. Um tíma stundaði ég það dálítið á morgnana. Það leið ekki hálftími þegar ein sem var með lykla var komin til að athuga með mig. Með því að birta pistil á hverjum degi er ég líka að senda merki um að það sé í lagi með mig. Það eru nokkrir aðilar með lykla að íbúðinni ef eitthvað skyldi koma upp á. Þá geta þeir alltaf kíkt til mín ef ég svara ekki símanum eða eitthvað.“
Þannig að það er svona ákveðið öryggisnet í gangi hérna, fólk hugsar hvert um annað.
„Já, aðeins.“
Heima á Íslandi á Anna þrjú börn og sjö barnabörn og þó að fólkið á Tenerife sé gott fólk, kurteist og fordómalaust, vill hún hafa sitt fólk hjá sér. Sonur hennar og fjölskylda eru væntanleg í heimsókn núna í lok mánaðarins og um daginn var dóttir hennar hjá henni. „Hún ætlar að koma aftur í ágúst og þá höldum við upp á sameiginlegt afmæli. Hún verður fimmtug og ég á 25 ára reykleysisafmæli. Ég hætti að reykja á 25 ára afmælinu hennar. Ef ég hefði ekki gert það væri ég ekkert hérna.“
Nú er kominn tími til að slá botninn í samtalið en við blasir að einnar spurningar verður einfaldlega að spyrja: Hvað eiga Íslendingar að gera ef Anna Kristjáns flytur heim og Íslendingar hætta að fá þessa dásamlegu dagbókarpistla frá Tene á Facebook?
„Ja, maður veit aldrei. Maður getur haldið áfram að skrifa fyrir því. Ég var nú dugleg á Facebook áður þannig að það getur alveg haldið áfram en ég kem örugglega til með að hægja á mér þegar ég þarf ekki að setja saman pistil á hverjum degi til að fólk sé ekki að koma til að tékka á mér.“
Við endum þetta á því að Anna fylgir mér í gegnum húsið að útidyrum þess, m.a. í gegnum húsbarinn sem nú er orðinn iðandi af lífi, enda klukkan langt gengin í sex. Við kveðjumst á tröppunum og ég hverf út í Los Cristianos. Anna fer aftur í íbúðina sína að elda sér ýsu í raspi, sem kom frá Íslandi og var tekin út úr frysti fyrr um daginn