Buscemi, sem er 66 ára, var kýldur í andlitið og virðist sem um algjörlega tilefnislausa og handahófskennda árás hafi verið að ræða.
Vitni að atvikinu segir að Buscemi hafi verið á gangi á Manhattan ásamt ónefndri konu þegar maðurinn kýldi hann og hljóp svo í burtu. Þeir höfðu ekki átt í neinum samskiptum þegar árásin var framin.
Buscemi féll til jarðar en stóð fljótt upp aftur. Árásarmaðurinn hefur enn ekki verið handtekinn.
Talsmaður leikarans segir að hann hafi farið á sjúkrahús eftir árásina þar sem gert var að sárum í andliti. „Það er í lagi með hann og hann þakkar allar góðar kveðjur,“ segir talsmaðurinn.
Í umfjöllun New York Post kemur fram að handahófskenndar og tilefnislausar líkamsárásir hafi færst í vöxt í borginni að undanförnu.