fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Lét sig hverfa ein og berfætt á Ítalíu – „Þegar ég skoða myndir af mér á þessum tíma þá sést alveg greinilega að ég er mjög veik“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 27. apríl 2024 10:29

Myndin til hægri var tekin þegar Aníta var í maníu á Ítalíu. Hún segir eftir á litið, þegar hún skoðar myndirnar af sér frá þessum tíma, sjái hún svo vel hversu veik hún var orðin.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aníta Ósk Georgsdóttir er að læra að lifa upp á nýtt eftir að hafa verið greind með geðhvörf. Hún fékk greininguna eftir að hafa farið í fyrsta sinn í maníu í október 2022. Hún var þá stödd á Ítalíu með samstarfsfélögum sínum og endaði örmagna á sjúkrahúsi.

Aníta er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Brot úr þættinum má horfa á hér að neðan en smelltu hér til lesa aðra grein upp úr þættinum eða að horfa á hann í heild sinni. 

video
play-sharp-fill

Þú getur líka hlustað á Spotify, Apple Podcasts og hlaðvarpsþjónustu Google.

Allt hrundi hjá Anítu árið 2022. Hún fór langt niður og lífsviljinn varð enginn. Hún lagðist í fjórða skipti inn á geðdeild í ágúst en síðan fór að birta til. Í október var henni farið að líða mun betur og fannst hún verða sjálfsöruggari með hverjum deginum. Hún starfaði þá sem leiðbeinandi í grunnskóla og var starfsfólkið á leið í vinnuferð til Ítalíu.

„Ég finn svolítið að ég er að trekkjast upp. Ég er að verða öruggari, glaðari, svolítið cocky og til í allt,“ segir Aníta og lýsir hegðun sinni í upphafi ferðarinnar. Hún segir að hún hafi verið mjög hress, hló hátt og mikið, var með læti og út um allt. Mikið sprell, eins og hún segir. Samstarfsfélagar hennar byrjuðu að taka eftir því að eitthvað væri kannski ekki alveg í lagi.

„Ég sá að aðrir voru að hafa áhyggjur af mér og, að mér fannst, skipta sér af mér,“ segir Aníta.

Aníta Ósk Georgsdóttir.

Á þessum tíma hafði Aníta nýverið opnað síðuna Hennar heimur á samfélagsmiðlum. „Ég hafði átt miðilinn í ár en hafði aldrei sett neitt inn á hann. Og ég fór að  setja alls konar þangað inn. Furðulegar færslur,“ segir hún og bætir við að vinir hennar og vandamenn hafi klórað sér í höfðinu yfir því sem hún var að deila en henni var alveg sama.

„Ég sem betur fer sagði ekkert ljótt um einhvern þarna inni eða drullaði ekki yfir neinn. Ég var bara með eitthvað sprell,“ segir hún og hlær.

Fólk byrjaði að hafa áhyggjur af Anítu. Bæði samstarfsfólk og fjölskyldan heima, því Aníta er venjulega mjög ábyrg og setur ekki hvað sem er á netið.

Í dag er Hennar heimur hluti af bataferli Anítu. Hún leyfir fólki að fylgjast með daglegu lífi hennar í veikindaleyfi, kemur til dyranna eins og hún er klædd, opnar sig um þann veruleika að vera með geðhvörf, tjáir sig um bataferlið og birtir hvetjandi skilaboð.

Aníta fer yfir alla söguna í þættinum sem má horfa á hér eða hlusta á í gegnum Spotify. Í spilaranum hér að ofan ræðir hún um seinni hluta Ítalíu ferðarinnar.

Byrjaði að fá ranghugmyndir

Aníta byrjaði að fá ranghugmyndir um að kærasti hennar og fjölskylda væru að koma til Ítalíu til að koma henni á óvart.

„Þá fór ég að hugsa að fjölskylda mín væri að koma. Ég var í gegnum ferðina búin að vera að eyða pening, kaupa mér skó. Það var október og ég sagðist vera að fara að gifta mig, ári seinna í apríl,“ segir Aníta og bætir við að það hafi ekki verið rétt.

„Ég hélt að fjölskylda mín væri að koma út, maðurinn minn og dætur mínar og ég væri að fara að gifta mig á Ítalíu. Ég var svo viss um að þau væru að fara að koma mér á óvart og að allir samstarfsfélagar mínir vissu af þessu nema ég. Ég var svolítið að bægja þessu frá mér því ég vissi að þetta væri ekki alveg rétt.“

Samstarfsfólk Anítu hélt að hún væri að drekka aðeins of mikið en hún snerti varla áfengi í ferðinni, hún hvorki borðaði af viti né drakk alla ferðina.

„Ég gleymdi að borða, ég gleymdi að drekka og þegar ég skoða myndir af mér á þessum tíma þá sést alveg greinilega að ég er mjög veik.“

„Hér sést mjög greinilega hvað ég var orðin veik,“ segir hún.

Ranghugmyndirnar héldu áfram

Á einum tímapunkti hringdi samstarfskona í fjölskyldu Anítu og lýsti yfir áhyggjum af henni. Eftir á að hyggja segist Aníta vita að þetta hafi verið gert af væntumþykju en á þeim tíma hafi hún tekið þessu mjög illa og litið á sem afskiptasemi.

„Svo halda þessar ranghugmyndir áfram og ég var alltaf að líta í kringum mig og að spá hvenær fjölskyldan mín kæmi út. En ég var ekkert að pæla í þessu beint, þetta var bara þarna. Ég var ekki að heyra raddir eða neitt svoleiðis, ég bara held þetta,“ segir hún.

„Svo fórum við á geggjaðan stað, uppi í fjöllunum og ég var alltaf að líta í kringum mig: „Ætli þau komi núna? Ætli þau séu að koma núna?“ Ég sá eina sem keypti sér kjól og ég hugsaði: „Ætli hún sé að kaupa sér kjól fyrir brúðkaupið mitt?““

Aðspurð hvort hún hafi viðrað þessar hugmyndir við einhvern í hópnum svarar Aníta neitandi. „Ég ætlaði ekki að láta þau kjafta í mig, ég ætlaði að vera hissa ef þau skyldu koma,“ segir hún.

Aníta Ósk Georgsdóttir.

Lét sig hverfa ein og berfætt

„Svo man ég ekki hvort það sé daginn eftir eða sama dag, en við fórum út að borða öll saman minnir mig. Og það voru allir að hafa áhyggjur af mér og mér fannst þau vera að skipta sér af mér […] Í fyrsta lagi var ég klædd eins og ég veit ekki hvað. Ég var eins og ég væri að fara á galakvöld. Ég var í gulllituðum síðkjól með gullhálsmen,“ segir Aníta og bætir við að hún hafi klætt sig svona því í hennar huga var hún hugsanlega að fara að gifta sig umrætt kvöld.

„Ég ætlaði nú að vera tilbúin, ekki vera í hverju sem er. Svo fékk ég bara nóg. Ég stóð upp og ég fór úr skónum. Þegar ég verð stressuð og kvíðin get ég ekki verið í skóm eða sokkum. Ég gekk bara út af hótelherberginu á tásunum og fór. Ég man ekki hvort ég hafi verið með veski en ég týndi aldrei símanum,“ segir hún.

„Ég byrjaði að labba á tásunum í Bergamo. Í bæ sem ég þekki ekkert, ég vissi ekkert hvert ég væri að fara. Ég labba og labba […] Fólk var byrjað að leita að mér og spá hvar ég væri, ég var allt í einu horfin. Þarna var ég í rauninni komin í maníu, bara full blown maníu.“

Hitti ábyrga unglinga

Þetta var í fyrsta skipti sem Aníta fór í maníu og þekkti hvorki hún né ástvinir hennar merkin um hvað væri í vændum. En þarna var hún í sinni fyrstu maníu, ein og berfætt í ítölskum bæ.

„Ég labba og hleyp út um allt. Svo hitti ég hóp af unglingum, eða ungu fólki, um átján ára til tvítugs,“ segir Aníta.

Hún slóst í för með þeim. „Við vorum að gera dyraat og vorum að hlaupa út um allt,“ segir Aníta og hlær. „Þetta er hálfpartinn fyndið þegar maður hugsar út í þetta.“

Ungmennin fór að gruna að það væri ekki allt með felldu og byrjuðu þau að spyrja Anítu alls konar spurninga um hana og hvaðan hún væri að koma.

Á þessum tímapunkti var Aníta enn viss um að fjölskylda hennar væri að koma. „Ég man það voru svona rauð ljós út um allt og ég hugsaði: „Vá, ég á að fylgja þessum rauðu ljósum, þarna verða þau.“ Fjölskyldan mín, maðurinn minn og kannski vinkonur mínar… Ég trúði þessu mjög mikið,“ segir Aníta.

Aníta Ósk Georgsdóttir. Mynd/DV

Hringt á sjúkrabíl

Ungmennin fóru með Anítu á lítinn bar í eigu eldra fólks sem sá að eitthvað væri að og hringdi á sjúkrabíl.

„Þau sáu að ég var mjög lasin. Það var eins og ég væri á einhverjum fíkniefnum. Hún gaf mér að drekka og þau fóru að spyrja mig alls konar spurninga um hvaðan ég væri að koma. En ég vissi ekkert á hvaða hóteli ég var á eða hvað ég hafði labbað lengi og hvert ég væri komin. Ég var ekkert búin að drekka eða borða. Það var hringt á sjúkrabíl og það fyrsta sem ég hugsaði var: „Þetta er nú langt gengið að láta sækja mig á sjúkrabíl og hitta mig svo á einhverjum stað.“ Ég trúði ennþá því að fjölskyldan mín væri að koma að sækja mig. Af því að ég tengdi, því ég hef farið í sjúkraflutningaskólann og hef tekið eina vakt á sjúkrabíl, og þá kom ég með einhverja tengingu,“ segir hún.

Aníta var færð upp á spítala og þá fóru að renna á hana tvær grímur. „Þá fór ég að hugsa að það væri kannski eitthvað í gangi,“ segir hún.

Örmagna og vildi komast heim

Aníta var örmagna á spítalanum, enda búin að ganga í marga klukkutíma og hvorki búin að borða né drekka í langan tíma. Tvær vinkonur hennar í ferðinni komu á sjúkrahúsið og segist Aníta mjög þakklát ungmennunum fyrir það. Þau náðu símanum af Anítu og svöruðu skilaboðum vinkvenna hennar og létu þær vita af stöðu mála og á hvaða sjúkrahús hún væri að fara.

„Ég hugsa stundum, pældu í því ef þau hefðu tekið mig upp og ég væri einhvers staðar á YouTube. En þau ekkert smá ábyrg og flott,“ segir hún.

Aníta segist einnig mjög þakklát starfsfólkinu á spítalanum sem hugsaði vel um hana. Hún fékk ekki að útskrifast fyrr en það væri staðfest að hún færi örugg heim, en pabbi hennar kom til Ítalíu til að fylgja henni heim.

Í kjölfarið var Aníta greind með geðhvarfasýki 1. Hún ræðir nánar um lífið, bæði fyrir og eftir greiningu, bataferlið og fleira í Fókus. Horfðu á þáttinn í heild sinni hér eða hlustaðu á Spotify.

Fylgstu með Anítu á Hennar heimur, bæði á Instagram og Facebook.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gullni piparsveinninn með ólæknandi krabbamein

Gullni piparsveinninn með ólæknandi krabbamein
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Smári eldaði hamborgarhrygg úr glöðum grís

Gunnar Smári eldaði hamborgarhrygg úr glöðum grís
Fókus
Fyrir 3 dögum

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum
Hide picture