Eftir sjálfsvígstilraun á mánudagskvöld var maðurinn færður á bráðamóttöku og var í kjölfarið sendur á fíknigeðdeild. Hann segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við einn lækninn og segir að læknirinn hafi tilkynnt honum að þó DV hefði fjallað um mál hans breytti það engu, hann fengi samt ekki að fara inn á Vog.
Gunnar Ingi, maðurinn á bak við átakið Lífið á biðlista, vakti athygli á málinu á Facebook í gær.
„Hann var sendur heim af fíknigeðdeild [síðustu helgi] með ekkert plan, ekki neitt. Fór aftur að sprauta sig og drekka landa. Ég fór og tók viðtal við hann. Stuttu eftir það sprautaði hann sig með Ajax hreinsivökva í æð til að reyna að drepa sig. Ég kom að honum, meðvitundarlausum, hringdi á sjúkrabíl. Hann fór með sjúkrabíl upp á bráðamóttöku, þaðan var hann sendur upp á geðdeild og þaðan var hann aftur sendur á fíknigeðdeild. Hann er búinn að vera þar núna í sólarhring og einhver læknir sem sagði við hann þar í [gær]: „Þó það hafi komið einhver grein um þig á DV þá er þetta bara stutt innlögn og þú ert ekki að fara inn á Vog.“ Hvaða fokking kjaftæði er í gangi?
Er skrýtið að maður sé reiður? Það er búið að brjóta á þessum manni einu sinni, hann er búinn að reyna að drepa sjálfan sig, hann er kominn aftur inni á geðdeild, brjótum hann aðeins meira! Ertu ekki að djóka.“
Frænka mannsins staðfesti frásögn mannsins í samtali við Gunanr Inga. „Ástandið er samt ekkert breytt. Hann er ennþá ekkert að fara á Vog, svo ég viti, og þetta er bara stutt innlögn á fíknigeðdeild. Hann fer örugglega heim eftir helgi,“ segir hann.
Eftir að Gunnar vakti athygli á málinu á Facebook í gær hefur fólk sent honum skilaboð og hvatt hann til að nafngreina lækninn og tilkynna hann til landlæknis. „Það hafa einnig nokkrir haft samband við mig eftir þetta með svipaða sögu að segja af geðdeild sem ég ætla að kanna betur,“ segir Gunnar.
„Að segja svona við mann sem er nýbúinn að reyna sjálfsvíg er algjör skortur á fagmennsku og nærgætni.“