fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Maðurinn sem vissi ekki að hann var stjarna er látinn

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 9. ágúst 2023 18:00

Sixto Rodriguez á tónleikum í Sviss árið 2014/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breski miðilinn Mirror greinir frá því að bandaríski tónlistarmaðurinn Sixto Rodriguez, oft kallaður Sugar Man, hafi látist í gær 81 árs að aldri.

Rodriguez, sem notaði eftirnafnið sem sitt listamannsnafn, söng, samdi lög og lék á gítar. Tónlist hans hefur verið lýst þannig að hún sameini þjóðlagatónlist, rokk, jazz, sálartónlist og blús.

Hann hafði átt við vanheilsu að stríða síðustu mánuði í kjölfar slags.

Afmæli Rodriguez var fagnað í síðasta mánuði með stórtónleikum margra tónlistarmanna í heimaborg hans Detroit. Rodriguez hóf tónlistarferilinn 1967 með því að spila í klúbbum og á börum í Detroit og nágrenni. Hann gaf út tvær plötur, Cold Fact(1970) og Coming From Reality (1971).

Þær vöktu hins vegar litla athygli í Bandaríkjunum. Rodriguez græddi þar af leiðandi ekki mikið fjárhagslega á tónlistinni þar en hann naut þó nokkurrar velgengni í Ástralíu um tíma þar sem plöturnar hans voru gefnar út og vöktu meiri athygli en í heimalandinu. Í Ástralíu fór hann í tónleikaferðir undir lok áttunda áratugar síðustu aldar.

Eftir það spilaði hann einkum á klúbbum og börum í Detroit og virtist að öðru leyti ekki vekja mikla athygli sem tónlistarmaður.

Það sem Rodriguez vissi hins vegar ekki var að plötur hans bárust til Suður-Afríku, á áttunda áratugnum, og þar naut hann gríðarlegra vinsælda. Talið er fullvíst að þar í landi hafi plötur hans selst betur en plötur Elvis Presley.

Lög og textar Rodriguez einkennast mjög af áherslu á mikilvægi þess að berjast fyrir réttlátara samfélagi og það passaði vel við þá miklu mótmælaöldu sem reið á þessum árum reglulega yfir Suður-Afríku. Þar ríkti strangur aðskilnaður milli kynþátta, apartheid-stefnan, og misrétti var gríðarlega umfangsmikið.

Rodriguez var af mexíkósku bergi brotinn og var alinn upp við fátækt og kynþáttamisrétti og hafði því góða innsýn í það sem hann söng um.

Fólk í Suður-Afríku vissi hins vegar ekki mikið um þennan dáða tónlistarmann. Hávær orðrómur var uppi um að hann væri látinn.

Tveir suður-afrískir aðdáendur hans ákváðu að komast yrði að skýrri niðurstöðu um hvort að Rodriguez væri enn í lifanda lífi.

Heimsfrægð á áttræðisaldri

Þeir héldu til Bandaríkjanna undir lok tíunda áratugar síðustu aldar til að leita að honum. Fjallað er um leitina í heimildamyndinni Searching For Sugar Man sem kom út árið 2012 og hlaut Óskarsverðlaunin sem besta heimildamyndin.

Skemmst er frá því að segja að þeir fundu hann. Í kjölfarið fylgdi Rodriguez þeim til Suður-Afríku og spilaði á sex tónleikum en uppselt var á þá alla.

Um svipað leyti höfðu dætur Rodriguez reyndar uppgötvað suður-afrískar vefsíður honum til heiðurs.

Eftir að heimildamyndin kom út varð hann þekktur út um allan heim og þá fyrst vakti hann verulega athygli í Bandaríkjunum. Meðal annars voru plöturnar hans tvær frá 1970 og 1971 endurútgefnar.

Hann var gestur í þekktustu spjallþáttum landins og fór síðan í tónleikaferð um Bandaríkin og Kanada. Rodriguez fór einnig meðal annars í tónleikaferðir um Evrópu. Síðasta tónleikaferð hans var farin um Bandaríkin og Kanada árið 2018.

Rodriguez lætur eftir sig þrjár uppkomnar dætur en hann var alla tíð náinn þeim. Eftir að hann öðlaðist heimsfrægð voru dætur hans alltaf með honum þegar kom að öllu umstanginu sem óneitanlega fylgdi slíkri vegferð.

Hann þótti alla tíð auðmjúkur, lifði meinlætalífi og var sannarlega laus við alla stjörnustæla. Rodriguez naut lengst af meiri velgengni og frægðar utan heimalands síns, Bandaríkjanna, en það má sannarlega segja, sérstaklega hvað varðar Suður-Afríku, að hann var í mörg ár tónlistarstjarna án þess að hafa hugmynd um það.

Hér fyrir neðan er tengill á opinbera Youtube-síðu Rodriguez þar sem hlýða má meðal annars á plöturnar hans.

SugarMan.org – YouTube

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

Peter Andre gæti fengið sekt vegna þess að hann nefnir ekki dóttur sína – Íslendingar hafa rýmri rétt til að trassa að nefna börn

Peter Andre gæti fengið sekt vegna þess að hann nefnir ekki dóttur sína – Íslendingar hafa rýmri rétt til að trassa að nefna börn
Fókus
Í gær

Lítt þekkt ættartengsl: Sjónvarpskonan sem gustar af og foringi lögfræðinga

Lítt þekkt ættartengsl: Sjónvarpskonan sem gustar af og foringi lögfræðinga
Fókus
Fyrir 2 dögum

Lét sig hverfa ein og berfætt á Ítalíu – „Þegar ég skoða myndir af mér á þessum tíma þá sést alveg greinilega að ég er mjög veik“

Lét sig hverfa ein og berfætt á Ítalíu – „Þegar ég skoða myndir af mér á þessum tíma þá sést alveg greinilega að ég er mjög veik“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nýr veruleiki blasir við Láru eftir aflimanir – „Stundum getur útlitið orðið of svart, stundum er ekki hægt að snúa til baka“

Nýr veruleiki blasir við Láru eftir aflimanir – „Stundum getur útlitið orðið of svart, stundum er ekki hægt að snúa til baka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður