Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason gagnrýnir áform útgáfufélagsins Óðinsauga um að gefa út söguna um Dimmalimm eftir Guðmund Thorsteinsson, Mugg, í nýrri útgáfu. Huginn Þór Grétarsson, eigandi bókaútgáfunnar, greindi frá því að til stæði að gefa út söguna með nýjum myndum.
Margir hafa gagnrýnt útgáfuna og halda því fram að myndskreytingar Muggs séu órjúfanlegur hluti af sögunni og með þessu sé verið að brjóta gegn sæmdarrétti Muggs. Ættingjar listamannsins hafa einnig harðlega mótmælt áformum Óðinsauga og segja það ósiðlegt að gefa bókina út í nafni Muggs þar sem útgáfan hafi skipt myndum hans út. Rithöfundasamband Íslands hefur biðlað til Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptamálaráðherra, að beita sér gegn útgáfunni.
Sjá einnig: Skora á Lilju að verja sæmd Muggs með því að stöðva Hugin Þór
Huginn tjáði sig um málið í Facebook-hópnum Menningarátökin fyrir rúmlega viku síðan.
„Frekur meirihlutinn á ekki endilega að ráða hvernig aðrir vinna að sínum verkum. Þó búið sé að setja Dimmalimm á stall þýðir það ekki að um verkið eigi að gilda annað en um öll önnur sígild verk um víða veröld (og einnig fordæmi hér heima).
Hagsmunasamtök ganga erinda stöðnunar og að verja það sem fyrir er, og vilja oft útiloka nýliðun. Sjáum bara listamannalaunin! Nýliðun er nánast engin. Nýjir höfundar verða að keppa við ríkisstyrkta höfunda sem eru búnir að koma sér inn í mjúkinn. Þetta kerfi er svo varið með kjafti og klóm til hagsbóta fyrir þá sem fyrir eru, ekki þá sem eru að reyna að byrja – og jafnvel þá sem í áratugi vinna sína vinnu en fá aldrei neitt. Þetta á við um allar stéttir listamanna, kjarninn og svo hinir! Enda velja stjórnir nefnd, sem velur nefnd, sem úthlutar launum. Þessir sömu hópar vilja stjórna hvað má gera og hvað ekki. En einhver verður að taka slaginn gegn þessum yfirgangi.“
Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason svaraði Hugin:
„Þetta er algjör skelfing. Myndirnar eru ósmekklegar, eins og þær séu teiknaðar af gervigreind. Ljóst að myndhöfundarnir finna enga tengingu við söguna. Hefði þetta verið vel gert, þá er kannski sök sér. En það er reyndar svo með Dimmalimm að sagan er svosem ekki neitt neitt – það eru textinn og myndirnar sem saman gera þetta að frekar hugþekku ævintýri sem Íslendingar hafa haft mætur á.“
Huginn svaraði:
„Það mega allir hafa skoðun á myndunum. Þær eru ekki gerðar af gervigreind. En gleðin við listina er einmitt að hún einskorðast ekki við „hæfileikafólk“ heldur að allir megi gera. Þú segir að þetta hefði verið „í lagi“ ef gott væri. En bannað annars?
Textinn ekki neitt neitt? Ævintýrið er vel skrifað. Ég er ósammála öllu tali um að textinn sé ekki neins virði án myndanna. Muggur hefði kannski átt að skrifa meira …
En frumverkið verður áfram til og allir geta notið þess. Þetta er bara viðbót.“
Fleiri gagnrýndu bók Hugins. „Mér finnst þetta hræðilegt. Disneydrasl og aldrei gæfi ég barni bókina með þessum myndum.“
„Stundum þegar allir eru á móti manni og manni líður eins og það sé samsæri gegn manni í gangi sem margir hópar taki þátt í, þá er fínt að staldra við, líta í eigin barm og velta því fyrir sér af fullri alvöru og heiðarleika hvort vandamálið gæti mögulega verið sín megin.“
Umræðan um Dimmalimm undanfarna viku hefur aukið sölu á bókinni, upphaflegu verki Guðmundar Thorsteinssonar. Hún er nú í þriðja sæti metsölulista Forlagsins.