fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Fyrrum stjúpfaðir Ingu Hrannar var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn sextán stúlkubörnum – „Alltaf afsakaður með að hann sé svo veikur maður“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 18. júní 2023 09:00

Inga Hrönn Jónsdóttir Mynd: Valgarður Gíslason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Svo birtist Hörður í DV og ég verð aftur þessi litla tíu ára stelpa sem sit hrædd inni á baði. Ég upplifi oft þetta varnarleysi. Það hefur líka verið stór biti að kyngja að einn maður geti komið inn í líf mitt og haft þessi áhrif. Og ég þurfi að sætta mig við að hann eigi svona stóran hluta af mér og lífi mínu. Hann á það ekki skilið. Þetta getur verið mjög böggandi. Þegar ég hef gengið í gegnum erfiðleika þá hefur Hörður og þetta erfiða tímabil komið aftur upp í hugann,“ segir Inga Hrönn Jónsdóttir um fyrrum stjúpföður sinn, Hörð Éljagrím Sigurjónsson.

Þann 8. júní síðastliðinn féll dómur í Landsrétti þar sem dómur héraðsdóms var staðfestur og Hörður dæmdur í þriggja ára fangelsi vegna ótal stafrænna kynferðisbrota gegn sextán stúlkubörnum á aldrinum 11 – 15 ára. Landsréttur dæmdi Hörð jafnframt til þess að greiða þeim miskabætur, ellefu þeirra 400 þúsund krónur í bætur hver og fimm þeirra 500 þúsund krónur hver.

Hörður, sem DV gaf viðurnefnið Snapchatperrinn, ritaði klámfengin skilaboð til stúlknanna og sendi þeim klámmyndir, einni sendi hann meðal annars mynd af getnaðarlim og mynd af endaþarmsmökum. Til frádráttar dóminum kemur gæsluvarðhald frá 9. desember 2021, sem þýðir að Hörður losnar úr fangelsi í síðasta lagi í desember árið 2024. Þar sem sjaldgæft er að menn sitji af sér fulla fangelsisdóma, yfirleitt kemur til reynslulausnar eftir að um tveir þriðju af refsingu hafa verið afplánaðir, má þó búast við að Hörður verði frjáls maður fyrr.

Inga Hrönn Jónsdóttir
Mynd: Valgarður Gíslason

Sýndi innri mann um leið og mæðgurnar fluttu inn

Hörður kom inn í líf Ingu Hrannar þegar hún var átta ára gömul þegar móðir hennar og Hörður kynntust. Móðir Ingu var einstæð, með tvær ungar dætur og vann á leikskóla. Þetta var örugglega erfitt fyrir hana, eina, leikskólakennari, að halda okkur uppi. Þarna kemur fínn maður sem á fullt af peningum og einbýlishús og starfar í lögreglunni. Það gerðist mjög hratt að við fluttum inn til hans, sem ég sé og hef lært eftir á að er dæmi um mjög eitrað samband. Enda sýndi hann sitt rétta eðli liggur við daginn sem við fluttum inn, þá urðu alveg skipti. Hann var að drekka á hverju kvöldi og það var bara mikið vesen og læti á heimilinu sem bara jókst eftir því sem leið á samband þeirra. Við systurnar vorum alltaf hræddar. Húsið var á tveimur hæðum og ég man sem dæmi vel eftir atviki þar sem ég var með plastbolta og var að kasta honum niður stigann. Boltinn lenti á einhverjum blómavasa sem brotnaði ekki en hjartað í mér stoppaði samt af því ég vissi að ef þessi vasi brotnaði þá væri mér allri lokið. Þetta er týpískt dæmi um ástandið á heimilinu. Hörður var alltaf blindfullur gangandi á veggi, þetta var bara hræðilegt,“ segir Inga Hrönn.

Hún segir að Hörður hafi ítrekað fleygt mæðgunum út af heimilinu. „Eins og er oft í ofbeldissamböndum, eftir stutta stund vorum við síðan aftur fluttar inn. Síðan fleygði hann okkur aftur út. Hann hótaði að drepa sig ef við kæmum ekki tilbaka. Ég var höfð inni í öllum málum og ég hef rætt þetta við mömmu eftir á af hverju þau gerðu það. Ég var bara tíu ára og gekk um heima eftir sjálfsvígstilraun hans, allt í pillum og blóði. Svo er ég bara send með í heimsókn til hans upp á spítala. Ég var látin fullorðnast ansi fljótt.“

Hörður átti tvo syni frá fyrra hjónabandi, mun eldri en Inga Hrönn og systir hennar. „Annar þeirra lést fyrir einhverjum mánuðum. Það var vesen á þeim báðum á sínum tíma, en þeir lokuðu á föður sinn fyrir mörgum árum síðan og þeir komu aldrei inn á heimili okkar.“

Húsbrot og skemmdarverk á aðventu

Að þeim tímapunkti kom að Hörður henti mæðgunum út í síðasta sinn og fluttu þær þá í íbúð sem móðir Ingu Hrannar átti og hafði leigt út á meðan sambúð þeirra Harðar stóð. Inga Hrönn segir að þá hafi versta tímabilið hins vegar tekið við. „Þá fór Hörður að vera eltihrellir og alls staðar þar sem við vorum þar var hann líka. Þetta var rosalegt og það vissu allir, mömmur vinkvenna minna, skólinn og aðrir, að þegar hann birtist þá ætti að hringja á neyðarlínuna. Þannig var ástandið heillengi. Hann mætti heim til okkar, í vinnuna til mömmu, ef við vorum í Kringlunni þá var hann mættur þar. Við vorum ekki öruggar neins staðar og ég þorði ekki að fara út nema í fylgd með einhverjum,“ segir Inga Hrönn.

Aðspurð segir Inga Hrönn að móðir hennar hafi reynt að fá nálgunarbann á Hörð, en ástandið var ekki metið nógu alvarlegt. „Það sem fengum í gegn var að lögreglan keyrði framhjá húsinu okkar á klukkustundarfresti.Við bjuggum á þriðju hæð í blokk þannig að þeir gátu ekkert vitað hvað var að gerast þar uppi og á klukkutíma getur margt gerst. Þetta var mjög falskt öryggi.“

Þegar þarna var komið sótti Inga Hrönn mikið í að vera hjá ömmu sinni. Nokkrum dögum fyrir jólin árið 2004 fóru þær heim til móður Ingu Hrannar sem hafði ekki staðið til, en Inga Hrönn segist þakklát fyrir að þær hafi gert þar sem systir hennar var ein og veik heima.

„Fjórum dögum fyrir jól gerist alvarlegasta atvikið tengt Herði. Við amma erum búnar að vera heima hjá mömmu í svona hálftíma þegar hann kemur með haka, brýst inn í íbúðina og rústar öllu þar inni. Ég hleyp inn á baðherbergi þar sem systir mín er í sturtu og hrópa: „Hörður er kominn, Hörður er kominn,“ þetta var bara versta stund lífs míns. Ég hélt að hann hefði bókstaflega drepið ömmu mína, við heyrum lætin og í ömmu okkar 75 ára; „Hörður hættu, Hörður hættu.“ Við systurnar leituðum í hræðslukasti að lyklunum inni á baði til að geta læst að okkur og við sitjum þarna bara skíthræddar. Eina sem ég gat gert var að biðja til guðs.“

Inga Hrönn Jónsdóttir
Mynd: Valgarður Gíslason

Hvar var fullorðna fólkið?

Inga Hrönn segir að eftir þetta atvik hafi kerfið algjörlega klikkað þegar kom að þeim systrum. „Sérsveitin mætti og handtók Hörð, þeir eru með tilkynningaskyldu og enginn tilkynnti neitt til barnaverndarnefndar, síðan kom prestur sem er líka með tilkynningarskyldu, en hann tilkynnti ekki neitt heldur. Þar á undan allir kennararnir mínir og það er enginn sem tilkynnti neitt. Það er þarna sem mesta reiðin mín liggur. Ég veit að Hörður var og er veikur maður og mamma var föst í ofbeldissambandi og ómögulegum aðstæðum með börnin sín. En hvar var hitt fullorðna fólkið? Af hverju var enginn að bjarga okkur systrunum úr þessum aðstæðum? Ég hef unnið úr mörgum áföllum, en það er þessi reiði sem kemur alltaf upp aftur og aftur. Það átti að bjarga okkur úr aðstæðunum miklu fyrr. Ég hef rætt þetta við fjölskylduna mína, prestinn sem kom á heimilið á sínum tíma og aðra, og fæ alltaf það svar að barnavernd á þessum tíma hafi ekki verið á sama stað og hún er í dag. En það þarf enginn að segja mér að barnavernd hafi ekki verið til árið 2004.“

Á þeim tíma sem sambúð móður Ingu Hrannar og Harðar hófst starfaði hann sem rannsóknarlögreglumaður á lögreglustöðinni á Hverfisgötu í Reykjavík. Þegar húsbrotið og skemmdarverkið á heimili þeirra mæðgna átti sér stað var hann hættur störfum, en Inga Hrönn segist ekki alveg gera sér grein fyrir hversu löngu áður hann hætti. „Sem barn lærði ég að Hörður var í lögreglunni og þegar ég átti mér enga undankomuleið þá var ég ekki að fara að hringja í lögregluna. Hann var búinn að slá þau vopn úr hendi mér.“

Aðspurð um hvort það hafi skipt máli að hann væri lögreglumaður og hann jafnvel getað haft áhrif á framgang mála þegar kom að þeim mæðgum segist Inga Hrönn ekki vita það, en það kæmi henni ekki á óvart ef svo reyndist vera. „Við vorum búnar að hringja stanslaust í marga mánuði á lögreglu þegar hann sat um okkur og aldrei gerðist neitt. Þegar hann braust inn til okkar um jólin þá var okkur hins vegar lofað því að honum yrði ekki sleppt út. Hann var í fangaklefa í sólarhring, svo var hann yfirheyrður og síðan farið með hann á geðdeild Landspítalans. Þar var hann skilinn einn eftir og sagt að bíða eftir lækni, en hann stóð auðvitað bara upp og gekk út þegar löggan var farin,“ segir Inga Hrönn.

Nokkrum árum seinna las hún lögregluskýrsluna frá þessum degi. „Nafnið hans var rangt í skýrslunni, allt annað eftirnafn skrifað, og atvikið er skráð sem minniháttar skemmdarverk. Ég varð reið við lesturinn, enda hafði maðurinn rústað íbúðinni okkar,“ segir Inga Hrönn.

„Eftir þetta breyttust þó aðstæður, hann hætti að hringja stanslaust, hætti að koma á heimilið og í vinnuna til mömmu. Í raun heyrðum við ekkert af honum meira fyrr en hann birtist í Kompásþætti þar sem barnaníðingar voru lokkaðir. Svo var hann seinna tekinn í fangelsi í Argentínu með fíkniefni.“

Fjallað var um bæði málin í öllum fjölmiðlum. Hörður var einn af þeim sem reyndu að hitta 13 ára gamla tálbeitu í fréttaskýringaþættinum Kompás árið 2006. Í nóvember árið 2009 var hann handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Buenos Aires með rúmlega fimm kíló af kókaíni.

DV 4. nóvember 2009

Sjá einnig: Snapchat-perrinn er Kompásperrinn Hörður – Fyrrverandi lögreglumaður á sjötugsaldri handtekinn

„Neyslan jókst bara hjá honum og ég veit að á tímabili var hann kominn í gistiskýlið á Lindargötu, alltaf að verða veikari og veikari af alkóhólisma.Við mæðgurnar heyrðum ekkert í honum sjálfum fyrr en hann hringdi mörgum árum seinna og vildi biðja okkur afsökunar á öllu: „Ég er orðinn breyttur maður, kominn í 12 spora samtök.“ Sem við tókum ekki til mála að gera, að fyrirgefa honum. Við fórum síðan að fá sendar gjafir heim, eins og einu sinni var bankað upp á með risapakka frá Elko, þá gaf hann systur minni sjónvarp og sendi með kort með einhverri handskrifaðri þvælu sem enginn skildi nema hann sjálfur.  Síðan hefur hann líka sent okkur vinabeiðnir á Facebook. Við skiptum um öll símanúmer, sem við höfðum reyndar gert oft áður, en það var sama hvað við skiptum oft um númer, hann gróf það alltaf upp. Við skiptum um skóla en hann fann alltaf út úr því,“ segir Inga Hrönn, en síðustu samskipti hennar við Hörð sjálfan voru kvöldið örlagaríka jólin 2004.

Inga Hrönn segir að þeim hafi verið boðið að kæra húsbrotið og skemmdarverkið á íbúð þeirra og eigum, en móðir hennar hafi ekki þorað því þá. „Eðlilega, maðurinn hafði setið endalaust um okkur í langan tíma. Okkur var þá sagt að við gætum kært seinna og einhverjum árum seinna fórum við, búnar að fara í sálfræðimeðferðir og mamma búin að vinna upp kjark, og vildum leggja fram kæru. Löggan sem tók á móti okkur á lögreglustöðinni á Hverfisgötu fletti málinu upp og sagði síðan: „Já er þetta hann Hörður,“ tók svo upp símann og hringdi í einhvern annan: „Þetta er hann Hörður félagi okkar,“ og sagði okkur síðan að málið væri fyrnt, en við þyrftum nú ekkert að óttast Hörð, okkur var bara vísað frá. Ég hef oft hugsað þetta, mamma er bara venjulegur borgari og áttaði sig ekkert á að það er einhver fyrningarrammi til að kæra málið.“

Aðspurð segist Inga Hrönn ekki eiga neinar minningar um að Hörður hafi brotið á henni likamlega og samkvæmt dóminum sem féll nú í júní mun Hörður ekki hafa hitt neinn af þeim þolendum, þó hann hafi gert tilraun til að hitta minnst tvær stúlkur. Eins og kom fram í Kompásþættinum árið 2006 gerði hann þó tilraun til að hitta 13 ára stúlku. Inga Hrönn segist hins vegar muna atvik sem voru óþægileg. 

„Ég man eftir að hafa séð barnaníðsefni í tölvunni hans, vaknað með hann standandi yfir rúminu mínu, ég og vinkona mín komum heim úr skólanum og hann fór að baða okkur, það eru svona hlutir sem ég man. Alla barnæskuna fékk ég að heyra að hann hefði ekkert verið svo slæmur. Hann er alltaf afsakaður með að hann sé svo veikur maður, sem er bara ekki mitt vandamál. Þegar hann var stöðugt í fréttum og ég byrjaði daginn á að opna samfélagsmiðla og það fyrsta sem ég sá var „Snapchatperrinn Hörður“ og andlitið á honum, þá rifjaði það upp þetta tímabil þegar ég var barn.

Af þeim fréttum sem ég hef lesið þá hitti Hörður ekki börn og braut á þeim. Það þarf samt enginn að segja mér að hann hafi ekki brotið á börnum áður en hann byrjaði á Snapchat. Það er enginn vafi á því í mínum huga að hann hafi brotið á einhverjum stelpum.“

Sjá einnig: Íslensk móðir veiddi Snapchat-perra í gildru – Reyndi að tæla ólögráða barn – „Svo Gradur i thig unga saeta pjollustelpa“

Inga Hrönn Jónsdóttir
Mynd: Valgarður Gíslason

Áfallið fylgdi Ingu Hrönn úr barnæskunni

Inga Hrönn hefur lent í ýmsum áföllum um ævina og eru samskiptin og sambúðin með Herði það fyrsta af mörgum. „Þetta áfall fylgdi mér sem barn og hafði mjög mikil áhrif á mig út í lífið, í allt, ástarsambönd, karlmenn, traust til fólks, traust til lögreglunnar. Þetta hafði mjög mikil áhrif og tók mig mikla vinnu að vinna úr, og geta sem dæmi bara gengið niður Laugaveginn án þess að vera að leita eftir honum.“

Eftir húsbrotið um jólin 2004 mætti Inga Hrönn nær vikulega í heilt ár til sálfræðings á BUGL, barna- og unglingageðdeild. „Þar var farið yfir allt sem gengið hafði á og klárlega mikil hjálp í því. En þetta var stuttu eftir áfallið, og síðan gerðist það þegar ég varð eldri að ég þurfti að vinna aftur í þessu áfalli, og ég hef farið í EMDR meðferð, Bjarkarhlíð og fleira. Þessi sambúð með Herði er klárlega stór hluti af því að ég verð vandræðaunglingur og leiðist í óreglu. Þetta er grunnurinn að mikilli vanlíðan og kvíða hjá mér sem barn, ég fer á kvíðalyf, þori ekki út úr húsi og fleira, sem jókst frekar en hitt.“

Inga Hrönn rifjar upp að þegar hún lá seinna inni á fíknigeðdeild hafi móðir hennar og bróðir komið í heimsókn til hennar. „Þá hittu þau Hörð þar, þá lá hann inni á annarri deild á sama tíma. Mamma sagði mér frá þessu löngu seinna og sagðist ekki hafa viljað segja mér þetta á sínum tíma þar sem hún vissi að ég myndi fara og fronta hann. Ég hef oft hugsað hvað myndi gerast ef ég myndi mæta honum og er búin að spila þær kringumstæður í hausnum á mér, hvað ég myndi segja og hvað ég myndi gera. En svo getur vel verið að ég myndi bara frjósa ef ég hitti hann,“ segir Inga Hrönn.

„Ég hef fylgst með umræðunni og fréttaflutningi um Hörð, líklega meira en flestir. Ég sökkti mér ofan í allar fréttir um hann á tímabili, kunni þær nánast utan að og fékk þráhyggju fyrir málinu. Var búin að adda mér í alla þolendahópa á Facebook og þegar komu færslur um hann þá las ég öll kommentin og svaraði öllu. Svo þurfti ég að taka mig taki, þetta var ekki að hjálpa neinum og alls ekki sjálfri mér. Ég fékk skilaboð frá foreldrum þolenda hans, stelpum sem hann hafði áreitt á Snapchat. Mjög margir foreldrana vildu að ég kæmi með lausnina sem ég hafði því miður ekki. Ég átti samtal við þessa foreldra og upplifði vanmátt þeirra og angist, þeir voru búnir að tilkynna hann til lögreglunnar og ekkert gerðist. Foreldrarnir upplifðu að þeir væru búnir að gera það sem þeir gátu gert, en það var enginn að hlusta á þá.“

Inga Hrönn Jónsdóttir
Mynd: Valgarður Gíslason

Þakklát fyrir dóminn en telur Hörð ekki eiga heima í fangelsi

Daginn eftir að dómurinn féll yfir Herði, þann 9. júní, deildi Inga Hrönn frétt þar um á Facebook-vegg sinn og skrifaði með eftirfarandi færslu:

Yfirleitt er ég ekki hlynnt fangelsum en ég er þakklát fyrir þennan dóm, þó það sé alveg rétt að velta því upp líka hvort veikir menn eins og Hörður séu best geymdir inn í fangelsum. Ég tengist börnunum sem Hörður braut á ekki neitt en ég þurfti að óttast þennan mann alla mína barnæsku.

Fyrir tuttugu árum síðan tilkynntum við hann fyrst til lögreglunnar, í dag er hann að fá dóm. Hvaða rugl er það?

Hörður breytti mér í litla hrædda stelpu sem þorði ekki út nema í fylgd með fullorðnum, út af honum þurfti ég að vera í sálfræðimeðferð alla mína barnæsku og glími ennþá í dag við afleiðingar af hans gjörðum. Hann braut gegn mér og fjölskyldunni minni ítrekað með hrottalegu ofbeldi en þrátt fyrir allt sem gekk á þá þurfti hann aldrei að taka neinum afleiðingum.

Núna er hann að fá dóm, þrjú ár fyrir að brjóta gegn sextán börnum, það yngsta er TÍU ára gamalt.

Það er búið að tilkynna þennan mann margoft til Lögreglunnar í gegnum árin en alltaf þurfum við að bíða eftir því að menn geri hræðilega hluti áður en hægt er að stíga inn í, þessu þarf að breyta. Hversu mörgum litlum stelpum hefði verið hægt að bjarga ef hann hefði ekki fengið að ganga laus?

Það verður að gera úrbætur í kerfinu, við getum ekki verið að fórna litlum börnum vegna þess að það er ekki búið að nauðga þeimeða búið að brjóta nógu mikið á þeim.

Það ætti að vera hægt að grípa inn í þegar öllum er orðið ljóst að veikir einstaklingar sem eru ógn við samfélagið ganga lausir. Við þurfum betri úrræði og við þurfum að krefjast úrbóta, strax.

Ég tek þessu samt fagnandi, jafnvel þó að það hafi tekið tuttugu ár.

Aðspurð um ofangreinda færslu hennar, og hvort og þá hvernig hefði verið hægt að stoppa Hörð fyrr og þá eftir atvikum setja hann í fangelsi, segist Inga Hrönn oft hafa hugsað það. 

„Ég er lítið hlynnt fangelsum, ég þekki fólk sem hefur setið inni og hef aldrei séð að fangelsi hjálpi einhverjum. Hvað þá jafn ótrúlega veiku fólk eins og Hörður er, hann áttar sig engan veginn á að það sem hann gerir sé rangt. Ég tel að þurfi að byggja upp nýtt kerfi, mér finnst vanta eitthvað fyrir þennan veikasta hóp sem er að brjóta af sér, að eitthvað grípi þá. Við sjáum dæmi af og til með mjög veika einstaklinga og kerfið er algjörlega úrræðalaust í þeirra málum. Þeir eru sagðir ekki hafa brotið nógu mikið af sér, en á sama tíma erum við að fórna 100 stelpum af því við höfum ekki úrræði. Það virðist sama hvað, sorrí við höfum bara ekki betri úrræði. Mér finnst sama lógík vera með refsistefnuna. Það er bara horft í peningana sem eru til í dag og enginn að spá í framtíðinni.

Við erum ekki að reyna að betra fólk eins og fangelsiskerfið er í dag, neyslan og allt sem gengur á í fangelsum, sem ég hef heyrt frá fólki sem ég þekki og hefur setið inni. Fangar koma skemmdir eða skemmdari út eftir 2-3 ára vist inni, það er búið að skemma eitthvað í hausnum á þeim. Fangi þarf að fara í ákveðinn gír til að falla í hópinn í fangelsinu, ef hann gerir það ekki þá er hann lagður í einelti, þetta er engin betrun fyrir fólk.“

Inga Hrönn Jónsdóttir
Mynd: Valgarður Gíslason

Breytingar gerast, en þó hægt

Inga Hrönn er í skipulagsteymi Druslugöngunnar, árlegri mótmælagöngu sem hefur það markmið að uppræta fordóma varðandi klæðaburð og ástand þeirra sem beittir eru kynferðisofbeldi og vekja athygli á því að það eru gerendur sem bera ábyrgð á kynferðisofbeldi, ekki þolendur. Við ræðum meðferð kynferðisbrotamála í kerfinu og fyrir dómstólum og segir Inga Hrönn sorglegt hvernig staðan er og hrikalegt að fylgjast með hvaða áhrif kerfið hefur. 

„Eftir að ég fór að vera með í Druslugöngunni, ræða við þolendur og annað, þá sé ég að dómskerfið er í rúst. Sönnunarbyrðin er mjög þung fyrir þolendur, dómar eru ekki langir á meðan þolendur þurfa að líða fyrir ofbeldið það sem eftir er ævinnar. Viðmiðin okkar þegar kemur að dómalengd eru orðin mjög lág, eins og þegar ég las dóminn yfir Herði þá hugsaði ég að hann væri að fá langan dóm, en svo er alls ekki, 16 þolendur og þriggja ára dómur. Til samanburðar erum við að sjá unga stráka sem fá dóm fyrir uppsöfnuð brot, nokkur innbrot eða sölu fíkniefna, og þeir fá lengri dóm en Hörður fékk. Ég upplifi þetta svolítið þannig að þurfi að hreinsa út starfsmenn í lögreglunni og dómskerfinu, það sé mikil spilling þar og það skipti máli hvort gerandi er Jón eða séra Jón. 

Það fer í taugarnar á mér hvað þetta ástand fær að ganga endalaust, það koma einhverjar bylgjur og mótmæli og allir verða reiðir, en svo breytist ekkert. Ég hef þó trú á að með minni kynslóð fari breytingar í gang, síðan taki næsta kynslóð við. Við erum að verða meira vakandi og upplýstari, en með hverri bylgju, færslu á Facebook og fleira, þá hugsa ég af hverju við getum ekki bara breytt hlutunum strax. 

Við sjáum þó að það hafa orðið miklar breytingar frá fyrstu Druslugöngunni sem var haldin árið 2011 og til dagsins í dag. Hugsun og viðmót fólks hefur breyst, skemmtistaðir og löggjöf tengd þeim hefur breyst. En það eru aðeins 23% kynferðisbrotamála sem enda með dómi, og þá erum við aðeins að horfa á málin sem eru kærð. Ég skil mjög vel þolendur sem vilja ekki kæra, fara í gegnum allar yfirheyrslunnar og skýrslutökur, svo er biðin, löng bið, áður en dómsmálið tekur við og þá er sagt við þolanda að hann sé að ljúga. Það triggerar þolanda að upplifa þetta allt aftur og ítrekað, jafnvel að mæta síðan gerandanum í dómssal.“

Mikilvægt að vera opin með eigin reynslu

Inga Hrönn hefur verið opinská með eigið líf, áföllin og fíknina, og rætt í viðtölum í blöðum, sjónvarpi og hlaðvörpum. Aðspurð um hvort henni finnist mikilvægt að vera jafn opinská og hún er segir Inga Hrönn:

„Já klárlega, samt misjafnlega mikilvægt. Ég hef alveg látið plata mig í viðtöl, sem ég hef hugsað eftir á að væri betra að hafa sleppt. En þegar kemur að vímuefnavanda, og öllu sem tengist því málefni, þá liggur það svo nálægt hjarta mínu að berjast fyrir hópinn sem er þarna úti. Ég hef sjálf upplifað þetta, bjó á götunni í tvö ár, og veit hvernig það er þegar löggan hatar þig, vera veik af því þú átt ekki efni, hvernig er að vera úti í rigningunni í 17 klukkutíma, ég þekki þetta allt af eigin reynslu. Ég vil berjast fyrir bættum lífskjörum fyrir þennan hóp sem er fyrir utan samfélagið og fáir eru að spá í. Það er lítil vitneskja um heimilislausa, og ég hélt það sjálf áður en ég varð ein af þeim, að þetta væru bara skeggjuðu karlarnir í kuldagöllunum sem sitja á Austurvelli. Það er mikilvægt að fræða og sýna að þessi hópur er bara fólk, við erum ekki hættuleg. Það hefur margt breyst þegar kemur að þessum málefnum og þegar þeir sem hafa reynsluna geta notað sína rödd til að hafa áhrif á breytingar, þá finnst mér að þeir eigi að gera það. Margir spyrja mig hvort ég sé ekki hrædd um fordóma gegn mér, ertu ekki hrædd um að fá ekki vinnu af því þú sagðir í DV að þú værir dópisti?“ segir Inga Hrönn og hlær. „Það hefur örugglega alveg gerst að einhver vildi ekki leigja mér íbúð þess vegna, og ég skil að fólk upplifi hlutina svona, en þetta er það sem við viljum breyta. Þú ert ekkert öðruvísi manneskja ef þú kemur heim og velur að reykja gras í stað þess að fá þér hvítvín. Við viljum breyta þessari sýn að fólk sem notar ólögleg vímuefni sé neðar í fæðukeðjunni en aðrir. 

Það er svolítið horft á það að einstaklingar sem eru með flókinn vímuefnavanda um langan tíma eigi sér ekki viðreisnar von. Ég þekki marga sem voru í þessari stöðu en eru að gera góða hluti í dag. Frá upphafi er það stimplað inn í okkur með forvarnarfræðslu í skólum og hræðsluáróðri, fréttum, bíómyndum og öðru að fólk sem á í fíkniefnavanda sé hættulegt. Ég er alin upp við það að þegar við keyrðum um miðbæinn þá var öllum hurðum læst út af rónunum. Í langflestum tilvikum eru þessir einstaklingar hættulausir. Síðan koma fréttir um að einhver hafi verið stunginn niður í miðbæ, sem er auðvitað hræðilegt, en svo kemur hræðsluáróðurinn um að þú megir ekki fara þangað af því þá verðir þú líka stunginn. Umræðan um smáhýsin sem enginn vill fá í sitt nærumhverfi, en það er enginn þessara einstaklinga að fara á næsta leikskóla og ræna barni þar. Það þarf að draga úr þessum hræðsluáróðri sem fjölmiðlar kynda oft undir. Ég kem og ræði þessi málefni einhvers staðar og fæ góð viðbrögð, svo daginn eftir kemur frétt um að þrír menn hafi verið handteknir þannig að það kemur strax bakslag á móti í umræðunni,“ segir Inga Hrönn sem brennur heitt fyrir málefnum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. 

Inga Hrönn Jónsdóttir
Mynd: Valgarður Gíslason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Í gær

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jay-Z neitar að hafa nauðgað 13 ára barni – „Ég mun ekki gefa þér krónu með gati“

Jay-Z neitar að hafa nauðgað 13 ára barni – „Ég mun ekki gefa þér krónu með gati“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fitness áhrifavaldur tók æfingu í miðju flugi – „Hún ber enga virðingu fyrir öðrum“

Fitness áhrifavaldur tók æfingu í miðju flugi – „Hún ber enga virðingu fyrir öðrum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hildur Líf fann sig aftur eftir erfiðan skilnað og blómstraði – „Ég tók áhættu að segja skilið við fyrra líf mitt fyrir frelsi og öryggi“

Hildur Líf fann sig aftur eftir erfiðan skilnað og blómstraði – „Ég tók áhættu að segja skilið við fyrra líf mitt fyrir frelsi og öryggi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslendingar nefna jólakvikmyndirnar sínar – „Árið 2010 horfði ég á hana og var þá að bíða eftir því að dóttir mín fæddist, sem hún svo gerði á aðfangadag“

Íslendingar nefna jólakvikmyndirnar sínar – „Árið 2010 horfði ég á hana og var þá að bíða eftir því að dóttir mín fæddist, sem hún svo gerði á aðfangadag“