fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Hafsteinn Snær fór óhefðbundna leið í námi: „Ef maður hefur áhuga á því sem mann langar að gera þá er allt hægt til að láta þann draum verða að veruleika“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 6. maí 2023 16:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafsteinn Snær Þorsteinsson útskrifast í lok maí úr grafískri miðlun í Tækniháskólanum, tveimur árum eftir að hann útskrifaðist úr ljósmyndun í sama skóla. Hafsteinn Snær fór óhefðbundna leið í gegnum menntakerfið, en er á góðri leið að komast þangað sem hugur hans og áhugi liggur, að vinna að auglýsingagerð, ljósmyndun og koma listamönnum á framfæri.

Hafsteinn Snær Þorsteinsson

„Ég var dálítið mikill listakall og byrjaði í leiklist þegar ég var lítill. Ég byrjaði líka í íþróttum en fann aldrei minn sess þar þannig að ég fór meira út í listalífið. Ég prófaði alveg fótbolta, borðtennis og fleira, en entist lengst í sundinu,“ segir Hafsteinn Snær, sem er 25 ára, fæddur árið 1998 uppalinn í Breiðholti.

„Mamma kom okkur bræðrunum á óvart og bauð okkur til Akureyrar í leikhús, þar kviknaði draumurinn minn um að starfa í leikhúsi. Þegar ég var síðan um tíu ára þá fann mamma sumarnámskeið fyrir krakka sem heitir Leynileikhúsið, ég fór á nokkur námskeið þar og gat ekki hætt. Svo var ég orðinn of gamall fyrir þessi námskeið þannig að ég fór yfir í Sönglist og eftir það fór ég í framhaldsnám, þá var ég byrjaður að ljósmynda og fór að ljósmynda leiksýningar í staðinn.“ 

Áhuginn á ljósmyndun hófst um fermingaraldurinn. „Ég fékk vasamyndavél í fermingargjöf og var eitthvað búið að fikta áður við að taka myndir með símanum. Ég fékk meiri áhuga á ljósmyndun með fermingargjöfinni og keypti mér stóra myndavél fyrir fermingarpeninginn og byrjaði að mynda íshokkí. Síðan vatt það upp á sig og ég fór að vinna fyrir fyrirtæki og fleiri og menntaði mig í ljósmyndun,“ segir Hafsteinn Snær, sem útskrifaðist úr ljósmyndun frá Tækniskólanum 26. maí 2021.

Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson
Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson
Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson
Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

„Ég er með væga þroskahömlun sem gerir það að verkum að ég á erfitt með að læra bóklegt nám, en ég hlustaði mjög mikið á tónlist þegar ég var yngri og tónlist og leikhús eru dálítið sameiginlegt áhugamál, þó ég hafi ekkert gert sjálfur í tónlist. Í byrjun lá áhuginn mest hjá mér í að leika, en eftir að ég hætti því hefur þetta verið mest tæknivinna sem ég er að vinna þannig að ég er kominn meira bak við tjöldin.“ 

Eftir framhaldsskóla fór Hafsteinn Snær að vinna í tæknivinnu hjá Hljóðx sem verktaki. „Ég er búinn að vera þar dálítið lengi af og til í ýmsum verkefnum, fyrir ári síðan vantaði eltiljósamann í Þjóðleikhúsið og ég starfaði þar í rúmt ár þar til í desember í fyrra.  Þannig að þetta fór frá að vilja vera á sviði í að vera baksviðs, og vera í tæknimálum og markaðssetningu sem er það sem mig langar að gera í dag,“  segir Hafsteinn Snær.

Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Áhugi á auglýsingageiranum kviknaði í starfsnámi í 10. bekk

Í fyrra ákvað hann því að bæta við sig námi í grafískri miðlun. „Í 10. bekk fór ég í starfsnám á auglýsingastofu sem hét Expó og er hætt starfsemi, þar sem bóklega námið var ekki að henta mér. Ég fékk síðan starf á stofunni einn dag í viku og þar kviknaði áhuginn á auglýsingageiranum. Mig langar að gera meira af auglýsingaefni og vinna á auglýsingastofu.“ 

Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Hvernig er að koma sér á framfæri sem ljósmyndari og fá verkefni er það ekki hark?

„Það er hræðilega erfitt, en maður bítur bara á jaxlinn og harkar af sér og heldur áfram. Núna er ég aðallega að mynda fyrir UMFÍ (Ungmennafélag Íslands) og ÍBR (Íþróttabandalag Reykjavíkur, svo hef ég tekið að mér verkefni fyrir ÍHÍ (Íshokkísamband Íslands).“

Byrjaði sjálfur að æfa íshokkí

Hafsteinn Snær myndar þó ekki bara íshokkí því hann byrjaði að æfa íþróttina fyrir rúmu ári. „Ég var að mynda íshokkí fyrir A-liðin 2021 eða 2022 og góður félagi minn var að þjálfa þennan hóp þá. Ég var að mynda síðasta leikinn og hann segir mér að það sé ein æfing eftir og ég ætti að mæta. Sem ég gerði og hef ég mætt á allar æfingar síðan fyrir utan eina,“ segir Hafsteinn Snær sem segir æfingarnar ekki rekast á við annað sem hann er að gera. „Ég er bara þreyttur í skólanum á miðvikudögum, annars breytir þetta ekki neinu. Ég stýri verkefnum í kringum íshokkíið. Ég byrjaði í byrjenda- og foreldrahópi sem heitir Hrægammarnir. Þetta er voða gaman, að vera á ísnum í staðinn fyrir aftan myndavélina.“

Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson
Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Í vor, þann 26. maí, er Hafsteinn Snær að útskrifast úr grafískri miðlun frá Tækniskólanum.  Aðspurður um hvort hann ætli í frekara nám segist hann kominn með nóg af námi. „Ég ætla að fá mér vinnu á einhverri auglýsingaskrifstofu.  Mig langar að halda áfram að rækta þessi áhugamál mín og vinnu. Allt sem er leikhús- og tónlistartengt. Ég er ekki að gefa út tónlist sjálfur, en er í að gefa út markaðsefni og fleira fyrir fólk sem er í kringum mig sem er í tónlist. Ég hef komið að mörgum útskriftarverkefnun hjá LHÍ eins og til dæmis lokaverkefni hjá Elínu Hall leik- og söngkonu fyrir ári síðan.“

Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson
Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Föstudaginn 12. maí heldur Hafsteinn Snær ásamt sjö samnemendum sínum í grafískri miðlun útskriftarsýningu í Tækniskólanum á 3. hæð, bókband og ljósmyndun verða einnig með á sýningunni. „Vá hvað er stutt í þetta. Við vorum 12 sem byrjuðum. Við vorum aðeins fleiri þegar ég var í ljósmynduninni, um 20 manns.“

Þessir nemendur halda sýninguna.

Hætti í grunnskóla án þess að klára námið

Hafsteinn segist hafa farið aðra leið í gegnum nám en flestir. „Ég hef farið öðruvísi leið í gegnum nám. Ég byrjaði í grunnskóla og hætti í honum án þess að klára 100 áfangana, fór svo í Borgarholtsskólann af því Tækniskólinn er bara með vél- og trésmíði fyrir grunnnámsbrautina. Það hentaði mér ekki alveg, en í Borgarholtsskóla eru tónlistartímar, leiklist og fleira slíkt. Eftir Borgó þá ákvað ég að fara í Tækniskólann og kýla á alla 100 áfangana og taka grunninn í leiðinni og fór svo í ljósmyndunina og grafísku miðlunina.

Þannig að ef maður hefur áhuga á því sem mann langar að gera þá er allt hægt til að láta þann draum verða að veruleika,“ segir Hafsteinn Snær og hvetur sem flesta til að koma og skoða útskriftarsýninguna í Tækniskólanum.

Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson
Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“