Leikkonan Priyanka Chopra, sem helst er þekkt fyrir leik sinn í þáttunum Quantico og Citadel, greindi frá því í þættinum hjá Howard Stern í vikunni að hún hafi glímt við erfitt þunglyndi í kjölfar þess að hún undirgekkst fegrunaraðgerð sem ekki gekk sem skildi.
„Þetta var myrkur tími,“ sagði leikkonan. Henni hafi verið ráðlagt að láta fjarlægja sepa sem hún hafi verið með í annarri nös sinni. Hins vegar leið henni eftir aðgerðina eins og andlit hennar hefði tekið miklum breytingum og lagðist það þungt á sál hennar. Nefaðgerðin hafi líka haft áhrif á feril hennar, en hún var rekin úr hlutverki í þremur kvikmyndum eftir aðgerðina og taldi að dagar hennar sem leikkona væru taldir.
Hún hafi jafnvel ekki viljað yfirgefa heimili sitt um hríð. Það var ekki fyrr en faðir hennar, sem er læknir, hvatti hana til að fara í aðra aðgerð til að leiðrétta hina fyrri, sem hún fór að líta lífið björtum augum á ný.
„Ég var dauðhrædd við þetta, en hann sagði – Ég verð þarna inni með þér. Hann héld í hönd mína í gegnum þetta og hjálpaði mér að byggja aftur upp sjálfstraustið.“
Síðan hafi henni aftur farið að bjóðast hlutverk og ljóst að ferillinn var enn bjartur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem leikkonan opnar sig um aðgerðina en í ævisögu hennar Unfinished, skrifaði hún um það hvernig hún var miður sín eftir aðgerðina og upplifði sig bjargarlausa.
„Alltaf þegar ég horfði í spegil sá ég ókunnuga manneskju horfa til baka, og ég taldi að sjálfsmynd mín og sjálfstraust myndu aldrei bíða þess bætur,“ skrifaði hún í bókinni. Hún tók þó fram að hún sé í dag orðin sátt við breytt útlit. Nú sé hún sátt þegar hún lítur í spegil. „Ég hef kannski galla, en ég er ég sjálf.“