Sigríður Guðnadóttir, fasteignasali hjá Remax og söngkona, er í miklum tiltektarham þessa dagana og hefur hún leyft vinum sínum á Facebook að fylgjast með árangrinum.
Siggu til mikillar gleði fann hún hollráð sem vinnan hennar hafði einhvern tíma látið útbúa, en þeir sem vita vita að manni fallast oft hendur þegar kemur að því að fara yfir dótið sem safnast hefur í skúffum, skápum og geymslum á heimilinu. Dótið sem alls ekki má henda, af því það gæti jú komið einhverjum að góðum notum einhvern tíma.
„Mæli með, er í þessum ham þessa dagana og það er góð tilfinning að hafa heimilið skipulagt og draslfrítt,“ segir Sigga.
Mini hollráðin átta – Afdröslum heimilið:
1.Úthlutaðu ákveðnum tíma í tiltekt á hverjum degi
Það þarf ekki að vera meira en 10-30 mínútur. Það er gott að setja tímann inn í símann sinn og leggja hann svo frá sér, til að lágmarka truflun. Gott er að setja sér lítið markmið í hverri tiltekt, svo sem taka til í einni skúffu eða kommóðu.
2.Forgangsraðaðu svæðunum sem þarf að afdrasla
Þú gætir til dæmis byrjað á baðherbergisskúffunum, farið síðan í svefnherbergisskúffurnar, áður en þú ræðst í fataskápana. Best er að einbeita sér að því að klára eitt svæði í einu, og ganga síðan í næsta verk á listanum.
3.Taktu „fyrir – eftir“ myndir
Það er mjög hvetjandi að skjalsetja muninn sem verður þegar búið að að taka til á ákveðnu svæði. Ef þú ert við það að gefast upp geturðu skoðað myndirnar og séð árangurinn svart á hvítu, og það blæs þér eldmóð í brjóst í frekari afdröslun.
4.Hringdu í vin
Það getur verið erfitt fyrir þig að meta hvort hlutir geri gagn eða ekki, því þú tengist þeim einhverjum tilfinningalegum böndum. Þá er gott að fá utanaðkomandi augu til að leggja mat á draslgildið og vera andlegur stuðningur í hreinsuninni.
5.Flokka, skilið!
Finndu til mismunandi poka fyrir drasl sem þú vilt losna við, og flokkaðu eftir því hvort það á að henda, gefa, selja eða endurvinna. Farðu síðan með pokana sem fyrst út í bíl, bílskúr eða settu þá við útidyrahurðina, til að tryggja að þeir fari af heimilinu sem fyrst.
6.Að gefa er oft betra en að selja
Það er kannski mikið af dóti sem þú gætir alveg selt, en vertu meðvitaður um að það fer bæði vinna og orka í söluferlið, auk þess sem það getur tekið langan tíma að selja. Þannig að oft er það varla þess virði, og þú situr uppi með poka fulla af dóti mörgum mánuðum seinna.
7.Finndu réttu tónlistina
Fátt kemur manni í tiltektargír eins og góð tónlist. En þá eru ástarballöður eða sorglegir kántríslagar ekki málið heldur eitthvað pumpandi og drífandi í hröðu tempói; hresst pönk eða dúndrandi teknó til dæmis. Við tókum saman nokkur lög sem geta auðveldað tiltektina.
8.Keyptu góðar hirslur
Þrátt fyrir hversu mikið þig langar að vera harður í afdrösluninni þá er ekki hægt að henda öllu. Sumir hlutir eru einfaldlega þess eðlis að þú færð ekki af þér að henda þeim vegna mikils tilfinningalegs gildis, og aðra þarftu að hafa tiltæka á heimilinu þó þú notir þá afar sjaldan, eins og til dæmis hjólapumpan þín. En það er ekki þar með sagt að þú þurfir að hafa þá uppi við, og þar koma góðar hirslur til skjalanna. Kommóða með djúpum skúffum er til dæmis gulls ígildi og mikilvægt tól þegar ráðist er í afdröslun.