fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Gummi tók vel í neyðarkall miðaldra um leiðsögn um völundarhús samfélagsmiðla – „Allt í einu þurftu allir að eiga múmínbolla eða Ittala kertastjaka“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 21. janúar 2023 09:34

Guðmundur Jóhansson Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það má færa rök fyrir því að þjóðfélagið snúist að stórum hluta um samfélagsmiðla. Þar slær hjarta samfélagsins. En þessi heimur verður sífellt snúnari og sem dama á óræðum aldri skal ég kvenna fyrst viðurkenna vanþekkingu mína á samfélagsmiðlum. 

Fyrir mér eru samfélagsmiðlar flókið völundarhús og mig sárvantar kortið.

Samfélagsmiðlar er fremur nýtt hugtak sem stór hópur þjóðarinnar ólst ekki upp við. Sjálf á ég tvö börn, 16 og 20 ára, og símarnir eru sem límdir við lófana á þeim.

Í orðsins fyllstu merkingu.

Þau gætu nefnilega misst af einhverri snilld á samfélagsmiðlum. Ný rannsókn sýnir að ungmenni eyða 6 klukkustundum á dag í snjallsímanum en persónulega er ég efins um þá tölu. Hún er hærri.

Hjálp?

Hver er munurinn á samfélagsmiðlunum? Hvar er best að pósta því sem liggur mér á hjarta? Hver er besti samfélagsmiðillinn til að leita uppi skoðanir annarra á máli sem mér er hugleikið? Hvað fer á Twitter og hvað fer á Instagram? Hver notar Snapchat og til hvers? Hvaða samskiptaforrit er vænlegast að nota til að ná sambandi við tiltekna manneskju?

Það eru skrilljón öpp á símanum mínum sem ég nota aldrei og oft er valkvíðinn að fara með mig.

Það er enginn hjálp í afkvæmunum sem rúlla bara augunum þegar gamla spyr.

Þau horfa á mig sem geimveru þegar ég reyni að útskýra að á mínum sokkabandsárum hefðum við bara leitað frétta með að hringja í vini úr landlínuninni.

Síminn var við útidyrahurðina, ofan á símaskránni.

Guðmundur Jóhansson

Byrjunin

Þetta byrjaði svo sem ósköp þægilega með Myspace, sem með sanni má kalla fyrsta alvöru samfélagsmiðilinn. Myspace var ætlað krökkum á aldrinum 13 til 15 ára og sló rækilega í gegn.

Sjálf var ég vel yfir aldursmörkum markhópsins en man þó eftir að hafa búið mér til síðu sem ég aldrei fór inn á.

En meðan að stjórnendur Myspace veltu vöngum á fundum um hvað mætti betrumbæta kom fram eitthvað alveg nýtt og spennandi.

Árið var 2006 og fyrirbærið hét Facebook.

Það var sprengja sem jarðaði Myspace og skapaði glænýjan heim.

Öld samfélagsmiðla var gengin í garð og það með látum.

Lífið var ljúft á Facebook og allir fundu hjá sér djúpstæða hvöt til að tjá sig um allt milli himins og jarðar.

Aulahrollur

Svona eftir á séð er aulahrollurinn ævintýralegur þegar að „memories“ poppa upp á Facebook. Af hverju var ég að tjá mig um þetta???

En mér og flestöllum af minni kynslóð til varnar má benda á að við höfðum aldrei haft þann möguleika áður að ná sambandi við fjölda fólks í gegnum eina síðu.

Þetta var okkur glænýr og sturlað spennandi veruleiki.

Mér fannst ég býsna kúl þegar ég byrjaði á Facebook árið 2007 en sá svali er löngu horfin. Nú er ég bara miðaldra kella sem er pínu týnd í þessum heimi.

Og hvað gerir maður þá? Maður leitar til sérfræðings.

Kommentakerfin breyttu öllu

Guðmundur Jóhannsson, tæknisérfræðingur, er með alfróðustu mönnum þegar kemur að samfélagsmiðlum.

Mér til mikillar gleði er Gummi til í að kenna mér grunninn í samfélagsmiðlafræðum.

„Það má segja að röðin sé Myspace, Facebook, Twitter, Instagram, Pintrest, Google+ og Snapchat. Og svo auðvitað TikTok.“

Gummi bendir á að landslagið hafi síðan breyst hratt árið 2011 þegar að Facebook leyfði þriðju aðilum, til dæmis heimasíðum fjölmiðla, að nota kerfi sitt fyrir athugasemdir.

Með öðrum orðum hafði kommentakerfið hafið innreið sína.

Lífið var dásamlega þægilegt á þessum árum. Allt sem þú vildir vita, allt sem þú vildir segja var á Facebook sem bókstaflega átti markaðinn.

Málin hafa aftur á móti flækst verulega undanfarin ár, eins og öll öppin á símanum mínum sanna, og fjöldi samfélagsmiðla margfaldast.

Gummi segir samfélagsmiðlasprengjuna hafa hafist þegar þeir sem á ensku kallast „early adapters“ eða „trendsetterar“ – frumkvöðlarnir sem leiða, hófu að skrá sig og nota Facebook.

„Stóra sprengjan varð þegar að fólk sem ekki hafði alist upp við netið hóf að nota Facebook. Landslagið gjörbreyttist.“

Sjálf fell ég undir þá skilgreiningu en í dag fer ég svo að segja í tilvistarkreppu, í það minnsta fæ ég  valkvíða, við að ákveða hvar skulið pósta og hvað skuli skoða.

Kynslóðabilið

Gummi útskýrir að unga fólkið noti samfélagsmiðla á allt annan hátt en við sem erum eldri.

„Síðustu ár hefur þróunin verið sú að ungt fólk hefur yfirgefið Facebook en notar þó Messenger. Unga fólkið er kannski einna helst í hópum sem fylgja tómstundum þeirra, stórfjölskyldunni eða álíka en þau eru ekki virk og hafa oft ekki einu sinni mynd af sér á miðlinum.

Þau eru á Facebook af brýnni nauðsyn og skyldurækni. Blessun Facebook var fyrst sú að þó að þau væru kannski að tapa notendum á Facebook voru þeir flestir að fara yfir á Instagram, sem er í eigu Facebook.

 Í dag er brottfallið þó meira yfir til TikTok.“

Guðmundur Jóhansson
Mynd/Valli

Gummi segir Twitter til dæmis vera þveröfugt við Facebook.

„Þar eltir þú fólk sem hefur sömu áhugamál eða af því að þú elskar þennan íþrótta- og tónlistarmann eða samfélagsrýni, hvort sem er á Íslandi eða úti í heimi. Þá ertu að fylgjast með fólki út frá eigin áhugamálum þótt að þú þekkir þetta fólk ekki neitt en maður hefur áhuga á því sem að þau eru að segja.

Þú ert að búa til þín eigin persónulega fréttaveitu frá fólki sem er að setja inn efni sem þú hefur áhuga á. Fólk býr í raun til sinn eigin bergmálshelli inni á Twitter, sérhannað að sínum áhugamálum með öllum þeim kostum og göllum.“

Smart, töff og lekkert

Talið berst að Instagram. Allir áhrifavaldarnir eru jú á Insta, ekki satt?

„Instagram byggist fyrst og fremst á myndum sem oft er stfíbónuð útgáfa af lífi þeirra sem eru að pósta þó auðvitað sé það misjafnt. Þar sýnir fólk oft glansmyndina af lífi sínu, ekki kaldan raunveruleikann eða soðninguna á mánudögum.“

Gummi segir allt smart, töff eða lekkert á Instagram.

„Á Instgram er myndir fagurfræðilega réttar og óskapleg yndislegar. En það er líka vinsælt að setja myndir í „story“ en mér finnst eins og það sé meira notað til að sýna meira frá úr daglega lífinu en að sýna fallega og stílhreina lífið þó auðvitað er því handstýrt mjög svo það sé nú samt smá flott.

Skilaboðakerfið er svo mikið notað af helst yngra fólki bara til að eiga samskipti eins og við sem eldri erum notum Facebook Messenger.

Á Instagram eltir þú vini þína en líka alls kyns ókunnugt fólk t.d. Frægt fólk ýmisskonar og áhrifavalda, auk þess sem Instagram er lunkið að mæla með efni til að halda uppi áhuga þínum þó þau hafi farið aðeins af leið og verið full grimm í birtingu auglýsinga og þannig skemmt upplifun margra.“

TikTok sleppir ekki

Þá komum við að TikTok, sem má kalla nýliða ársins og hefur vaxið á ótrúlegum hraða.

„Þau eru ótrúlega klár að halda þér við skjáinn, ýta að þér efni svo að þú notir TikTok sem mest með hjálp algrímis sem að virkar eins og einhver svartigaldur.. Maður ætlar að kannski að kíkja á TikTok í fimm mínútur en áður en þú veist er liðinn hálftími. Það hreinlega læsir klónum í notendur sína og sleppir helst ekki takinu.“

Gummi segir TikTok notendur ekki vera mjög upptekna af því að taka upp og setja inn sitt efni.

„Fólk er að neyta efnis, þetta er öflug streymisveita og samfélagsmiðill.“

Einn af þeim samfélagsmiðlum sem ég hef átt hvað verst með að skilja er Snapchat. Ég hef því sniðgengið það að mestu leyti en er ég að missa af einhverju?

„Eins og á Facebook ertu vinur ættingja og vina og kannski fylgist með einhverju áhugaverðu eins og Íslendingar í útlöndum eða skemmtikröftum. Svo og auðvitað áhrifavöldum sem í raun urðu fyrst til eins og við þekkjum þau í dag a Snapchat, sama fólki og í dag er hresst að reyna að selja okkur vörur og lífsstíl á Instagram.“

Gummi bendir á að Snapchat sé einnig með eiginleika sem að yngri notendur mikið sem kallast Snapmap.

„Þar getur maður deilt með vinum sínum staðsetningu sinni og séð hvar þau eru, í rauntíma. En hvert og eitt okkar verður að meta hversu sniðugt það sé.“

Tískustraumar

Gummi segir samfélagsmiðla afar háða tískusveiflum.

„Snapchat gekk mjög vel í lengri tíma hér á Íslandi en ég skynja að notkunin hafi minnkað, eða að minnsta kosti breyst mjög mikið þó Snapchat sé vissulega en mjög vinsælt á heimsvísu. Yngri markhópurinn notar Snapchat mikið sem sitt forrit til að senda skilaboð sín á milli, miklu frekar en Messenger eða SMS. “

Þegar við Gummi fórum að bera okkur saman kom í ljós að börnin okkar nota Snapchat nær eingöngu til að senda skilaboð til vina sinna.

Hvað með efnið á miðlunum? Hvaða efni er á hvaða miðli? Eða eru kannski engar slíkar reglur? Sjálfri hefur mér fundist Facebook vera fyrir samskipti við vini og ættingja, en meira hópa í dag en áður var. Twitter sé eigin fréttaveita og Instagram flakki þarna á milli?

Gummi tekur undir þá afar óvísindalegur greiningu og talið berst að tískufyrirbærum á Instagram.

„Það spretta regluleg upp tískustraumar á Instagram. Þar sjáum við klassíska hjarðhegðun sem er svo mannleg og býr í okkur öllum. Þetta kemur og fer og allt í einu þurfa allir að múmínbolla eða Ittala kertastjaka.

Instagram er fremst hvað þetta varðar. Svo er Instgram í eigu sömu aðila og Facebook svo það er unnt að láta efnið flæðir yfir og fá mun fleiri áhorf en væri það eingöngu á Instagram því fólk er oft með fleiri fylgjendur á Facebook en Instagram.“

Elska Twitter 

Aðspurðu um sinn uppáhaldsmiðil sengir Gummir það tvímælalaust vera Twitter.

„Óháð núverandi eiganda og skoðunum mínum á honum er Twitter það fyrsta sem ég opna á daginn og það síðasta sem ég loka á kvöldin.

Ég er búinn að eyða tíma í skapa minn fullkomna bergmálshelli af efni sem ég hef raunverulegan áhuga á og sé því bara alltaf að mér finnst mjög fróðlegt og skemmtilegt efni. Það finnst mér vera snilldin við Twitter sem samfélagsmiðil.

Mörg gera allt sem þau geta til að plata algrímið, það geta verið miklir peningar í húfi og mikil vinna sem fer í það að búa til starfsferil í því að skapa efni fyrir samfélagsmiðla.“

Mynd/Getty

Þaðan leiðist spjallið yfir að hinni óljósu lýsingu áhrifavaldur.

Gummi segir tískustraumana breytast hratt.

„Þú getur verið inni þessa vikuna en úti þá næstu. Það er erfitt að meta hversu langan starfsferil einhver getur átt í þessu eða einhverja framtíð.

Það er nær ómögulegt á Íslandi, þetta er lítið land og því eina mögulega leiðin svo ég viti til að skapa efni á ensku sem nær til fleiri notenda en bara okkar Íslendinga.“

Hvað næst?

Aðspurður segir Gummi erfitt að spá fyrir framtíðina.

„Facebook er í vandræðum því þau eru að missa notendur og fjármunum. Mark Zuckerberg hefur svolítið misst áhugann á Facebook og hugsar nær eingöngu um sýndarveruleika og framtíð internetsins eins og hann sér hana.

Fyrirtækið hefur margoft reynt að svara samkeppninni, fyrst gegn Snapchat og nú Tiktok með því að kynna nýjungar t.d. á Instagram en það hefur ekki gengið sérlega vel“

Mér finnst notkunina á TikTok vera svo að segja alfarið bundið við yngri kynslóðina, er það rétt?

„Já, það er ákveðið keppikefli í því að ná notendum inn ungum og reyna að halda þeim. Það getur verið einfaldara og ódýrara en að ná eldri notendum inn sem nú þegar eru kannski á mörgum samfélagsmiðlum.

Það veit enginn hvernig algrími Tiktok nákvæmlega virkar en það hefur verið gagnrýnt í gegnum tíðina fyrir að vera ekki rétt stillt samfélagslega og í takti við þann siðferðisáttavita sem við kannski hér á Íslandi stillum okkur almennt eftir.“

Guðmundur Jóhansson
Mynd/Valli

Endalaus afþreying

„Það er endalaus afþreying í boði fyrir okkur öll, samfélagsmiðlar eru líka að keppa við Netflix, Disney+, YouTube, Spotify og allt hitt sem í boði er bara almennt í lífinu.

Ég held að Facebook muni alveg lifa, það er enn með hundruði milljóna notendur og skilar enn hagnaði. Við munum nota miðilinn á allt annan hátt, loka okkur kannski meira af í lokuðum hópum í stað þess að vera gasandi  fyrir öll  að sjá. Við deilum þannig efni með okkar fólki, fólki sem að við treystum og þekkjum í stað þess að deila næstum öllu með hverjum sem er eins og hefur svolítið verið. “

Hvað Twitter varðar segir Gummi framtíð þess óljósa eftir að Elon Musk keypti fyrirtækið.

„Mörg stór fyrirtæki á við Coka Cola, Nike og Apple hafa hætt að auglýsa á Twitter, því þau vilja ekki láta tengja sig við kvenfyrirlitningu, rasisma og annað slík. Notendur hafa flúið og mikill fjöldi hætti þegar að Musk keypti Twitter því það er ósammála því sem hann segir, gerir og gerir ekki.

Hann rak einnig stóra hóp af kláru fólki sem vissi ágætlega hvar línan liggur um hvað sé rétt og rangt.“

Öryggi er allt

Gummi segir ekki hægt að tala um samfélagsmiðla nema að minnast á netöryggi.

„Það er mikið af svikahröppum sem eru hluti af skipulagðri glæpastarfsemi og þau  munu  reyna  hvað sem er til að ná fé eða persónuupplýsingum sem má misnota eða selja af grunlausum netnotendum, líka á litla Íslandi.

Maður á ekki að  treysta öllu sem að við sjáum eða fáum sent til okkar, ef það er skrýtið eða of gott til að vera satt er það líklegast svindl. Númer eitt er  að nota smá gagnrýna hugsun og aðeins velta fyrir sér hlutunum áður en við svörum eða ýtum á tengla eða opnum skjöl sem að við  fáum, það þarf í raun ekki meira til.

Allir samfélagsmiðlar eru varhugaverðir og þar er að finna fólk sem er að leita uppi lykilorð eða kreditkortanúmer. Fólk þarf að vera gagnrýnið, sértaklega þegar berast skilaboð frá fólki sem þú þekkir ekki. “

Blaðamaður er öllu fróðari eftir að Gummi kom til hjálpar.

Kúl eða ekki? 

Svona í blálokin. Af hverju flissa afkvæmin yfir emoji notkun minni? Er „out“ að nota emoji?

„Nei en notkun þeirra getur verið misjöfn milli kynslóða. Eldra fólk notar emoji bókstaflega til að lýsa einhverju. Yngri kynslóðin notar emoj í tvöfaldri merkingu.“

Það eru aftur á móti flókin fræði fyrir innvígða (þ.e. yngra fólk en mig).

Persónulega er ég aftur á móti mun betur með á nótunum eftir spjallið við Guðmund Jóhannsson tæknisérfræðing.

Ég verð ekki lítið svöl um helgina þegar ég fer að spúa út nýlærðri speki minni um helgina við afkvæmin.

Vona ég.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram