fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Jeannie vissi lítið um Ísland þegar brúðkaupsferðin var valin – „Það var á sjötta deginum sem maðurinn minn spurði hvort ég væri til í flytja hingað“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 15. janúar 2023 09:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar að bandaríska parið Jeannie og Bobby Riley var að undirbúa brúðkaup sitt vildu þau að brúðkaupsferðin yrði einstök, framandi og sjónræn.

„Við höfðum ferðast víða um heiminn og byrjuðum á að skoða staði eins og Hawaii og Suður-Afríku. En þegar að maðurinn minn stakk upp á Íslandi, og við sáum fleiri myndir og kynntum okkur landið betur, kom ekkert annað til greina,“ segir Jeannie.

Sneru við lífi sínu á níu mánuðum

Það var á sjötta degi brúðkaupsferðarinnar að fyrst kom til tals að flytja til Íslands og tæpum níu mánuðum, og mikilli skriffinsku, síðar voru þau hjón flutt til landsins og búa nú í Hafnarfirði.

Jeannie, sem er frá Wisconsin fylki og því þrælvön kulda, segist ekki hafa vitað mikið um Ísland þegar ferðin kom til tals en landið hafi hljómað spennandi og framandi. „Af hverju höfðum við aldrei farið til Íslands? Við skildum það ekki.“

Jeannie og Bobby hafa alltaf notið þess að ferðast, hoppa upp í bíl og fara út í óvissuna.

„Við komum til Íslands í september 2014 og vildum gera það sama og við höfum alltaf elskað. Skoða náttúruna, fara í göngur og borða góðan mat. Við ferðuðumst um landið í átta daga og Íslandsdvölin hafði mikil áhrif á okkur, svo vægt sé til orða tekið,“ segir Jeannie.

Ferðamannabransinn var ekki komin á flug aftur af ráði eftir hrun og það kom oft fyrir að þau voru jafnvel ein á helstu ferðamannastöðunum.

„Við vorum því heppin að því leyti að ná Íslandi áður en allt fór á fullt. En við héldum okkur ekki bara á þessum hefðbundnu ferðamannastöðum, við leituðum uppi alls kyns fáfarnari staði til þess að fá virkilega að njóta þess sem landið hefur uppá að bjóða.“

Var heilluð

Jeannie og Bobby bjuggu á þessum tíma í borginni Houston í Texas þar sem Bobby vann.

„Það er ekkert að Houston en borgin hentaði mér aldrei. Ég ólst upp í miðvesturríkjunum og ég veit að þetta hljómar galið, enda erfitt að útskýra það, en við fundum strax tengsl við Ísland. Það var alltaf hugmyndin hjá okkur að flytja frá Bandaríkjunum og með hverjum deginum áttuðum við okkur betur á að Ísland var það sem við höfðum verið að leita að.

Náttúrufegurðin og ferska loftið voru dásamleg og það beið okkar eitthvað nýtt á hverjum degi. Nýr foss, nýr jökull, nýtt landslag.“

Jeannie var heilluð.

„Ég vildi vita allt, hvernig væri að búa á Íslandi? Hvernig væri að vakna við þessa fegurð á hverjum degi? Okkur langaði að upplifa það sjálfum.“

Það er vægast sagt róttæk ákvörðun að skilja við fjölskyldu og vini og flytja í annað land. Hvað þá eyju norður í Atlantshafi eftir tæplega viku heimsókn.

„Við vorum að fagna eins árs brúðkaupsafmælinu okkar, stödd á góðum veitingastað á Húsavík á sjötta degi ferðarinnar,þegar að maðurinn minn spurði mig hvernig mér litist á að búa hérna.“

Jeannie segist í fyrstu hafa haldið um grín væri að ræða en samt sem sem áður tekið heilshugar undir.

„En þegar við vorum í fluginu á leiðinni heim fór ég að hágráta því ég vildi ekki yfirgefa landið. Og eftir að við komum heim gátum við ekki hætt að hugsa um hvernig væri að búa á Íslandi og hvort við gætum látið drauminn í alvöru rætast. “

Innan við níu mánuðum síðar voru Jeannie og Bobby flutt til Íslands.

Nett fjölskyldusjokk

Hvernig tóku fjölskyldur þeirra tíðindunum?

„Þau voru eðlilega leið og í uppnámi. Það er óhætt að segja að það var ekki almenn ánægja með þessa ákvörðun okkar.  Við vorum nýgift og langaði að eignast börn og fjölskyldur okkar voru ekki sátt við að sjá að baki okkur og hugsanlegra barna. En þau skilja þetta í dag.“

Jeannie segir að það sé mun flóknara fyrir Bandaríkjamenn en til að mynda Þjóðverja að flytja til Íslands. ,,Það er ítarleg bakgrunnsskoðun, fjöldi leyfa á við atvinnu- og landsvistarleyfis auk þess sem við þurftum að færa mjög góð rök fyrir af hverju við værum að flytja til landsins.“

Það er heljar mikil vinna fyrir Bandaríkjamenn að flytja til Íslands.

Bæði Jeannie og Bobby eru kírópraktorar og þeirra biðu störf við komuna til landsins. Fyrst bjuggu þau í Kópavogi en nú í Hafnarfirði.

Aðspurð um hvort það hafi verið erfitt að aðlagast íslensku samfélagi segir Jeannie að vissulega hafi komið erfiðar stundir.

„Við eignuðumst son okkar fyrir tveimur árum og það var helst þá sem ég fann hvað mest fyrir hvað kúltúrinn er að mörgu leiti ólíkur því sem ég ólst upp.

Bandaríkjamenn eru opnari en Íslendingar, ég er vön að fólk banki upp á hjá grönnunum og allir spjalli saman. Það var eitthvað sem ég stundum saknaði því ég er svo týpískur Bandaríkjamaður frá miðvestrinu sem byrjar að tala við bláókunnugt fólk í lyftu. Sem er ekki alltaf vinsælt skal ég segja þér,“ segir Jeannie og hlær.

„En við eigum þéttan og góðan vinahóp á Íslandi svo ég er nú er ég alveg búin að jafna mig á því.“

Alltaf upplifað mig velkomna

En Jeannie vill ekki meina að Íslendingar séu almennt kaldir og lokaðir, langt því frá.

„Þegar ég vann sem kírópraktor tók ég á móti sjúklingum frá morgni til kvölds og fann aldrei fyrir einangrun, ég hef alltaf upplifað að vera afar velkomin á Íslandi.“

Jeannie og Bobby fannst mikilvægast að læra tungumálið og einbeittu sér að því fyrstu tvö árin.

„Við fórum í íslenskunám og reyndum að læra eins og við gátum í vinnunni. En það var erfitt og jú, oft pirrandi, en þetta er spurning um að gefast ekki upp.“

Og hvernig er íslenska Jeannie í dag?

„Við skulum orða það svo að ég skil íslenskuna miklu betur en ég tala hana,“ segir Jeannie og brosir.

„Ég á fremur auðvelt með að fylgjast með samtölum en verð enn þá stressuð við að tala íslenskuna því ég vil orða hlutina rétt og ekki segja einhverja vitleysu.“

Kuldi, verð og vöruúrval

Þegar Jeannie er spurð að hvað annað sé ólíkt með að búa á Íslandi og í Bandaríkjunum er hún fljót til svars.

„Ég var vön að panta á síðum eins og Amazon og sendingin var komin daginn eftir. Það tók mig tíma að venjast því að það var ekki í boði hér.

Reyndar var það flest tengt verslun sem tók mig tíma að venjast, til dæmis er allt annað vöruúrval hér en ég var vön frá Bandaríkjunum og ég þurfti að læra að komast af án hráefna sem ég var vön og læra að nota önnur í staðin.“

„Og verðin,“ bætir Jeannie við. „Ísland er dýrt land og það var eitt af því sem ég þurfti að venjast.“


Jeannie
elskar að búa á íslandi og það er erfitt að draga upp úr henni hvort það séu fleiri hlutir sem hún sakni frá Bandaríkjunum.

„Það er kalt á Íslandi og jafnvel á sumrin er nauðsynlegt að vera vel klæddur. Það eru ekki margir íslensku sumardagarnir sem hægt er að vera í stuttbuxum og berfættur,“ segir Jeannie.

Bandaríkjamenn búsettir á Íslandi standa þétt við bakið hvert á öðru, eru til að mynda með Facebook síðu þar sem hægt er að leita ráða og skipst er á upplýsingum.

Ísland er heima

„Eins og það er erfitt að flytja á milli landa, og eins Ísland getur á stundum verið erfitt, er það mitt heimili í dag. Ég er Íslendingur í hjarta mínu og það eykst með hverju árinu. Það er því oft skrítin tilfinning að fara til Bandaríkjanna, í heimsókn til fjölskyldunnar, því mér finnst ég vera að fara að heiman.“

Ástarsamband Jeannie og Bobby við Ísland átti eftir að vinda upp á sig því í dag rekur Jeannie fyrirtækið Iceland with a View.

Það hófst allt með bloggi sem Jeannie byrjaði á við komuna til Íslands og þá helst í þeim tilgangi að segja vinum og ættingjum hvernig aðlögunin gengi.

„Þetta voru svona skondnir litlir hlutir eins og hvað tungumálið væri erfitt og ísskáparnir litlir,“ segir Jeannie og hlær.

„En þegar að fleiri Bandaríkjamenn fóru að koma til Íslands í meira mæli, fundu þeir bloggið mitt og byrjuðu að senda mér alls kyns spurningnar á við hvert væri best að fara út að borða eða hvaða fossar væru fallegastir. Ég fór að fá gríðarlegan fjölda spurninga um allt milli himins og jarðar frá ferðalöngum á leið hingað og fann sífellt sterkar hvað mig langaði til að hjálpa öðrum við að upplifa Ísland á sama hátt og ég hafði gert.“

Þessa séríslensku töfra,“ bætir Jeannie við.

Ferðamenn afar fróðleiksfúsir

Jeannie byrjaði því að skrifa ráðleggingar til ferðamanna.

„Ég hef alltaf verið frumkvöðull í eðli mínu og sá fljótlega að það væri langbest að stofna YouTube rás. Á þeim tíma var enginn slík rás með upplýsingar fyrir ferðamenn á leið til Íslands og eftirspurnin var gríðarleg auk þess hve þetta hefur alltaf verið skemmtilegt.“

Allt vatt þetta upp á sig.

„Ég var líka með nýfætt barn og það kom snemma ljóst að ég gæti ekki verið í þessu með kírópraktor starfinu svo ég sneri mér alfarið að ferðamennskunni. Það var líka afar hentugt að geta unnið heima þegar sonur minn var þetta lítill.“

Í dag er Jeannie í fullu starfi við að skipuleggja ferða fyrir einstaklinga og hópa á Íslandi og elskar að hjálpa fólki að njóta landsins sem hún sjálf féll fyrir. Hún leggur því megináherslur á ferðir sem gera íslenskru náttúru sem mest undir höfði, og á staði sem almennt er ekki boðið upp á í heðfbundnum hópaferðum.

Stærsti hópur hennar viðskiptavina er frá Bandaríkjunum en hún þeir koma alls staðar frá.

Íslenski kuldafatnaðurinn er fullorðins!

Jeannie segir algengustu spurningarnar vera um veðrið og hvaða fatnaði skuli pakka.

„Ég ólst upp i vetrarkulda og átti því snjófatnað. En sá var ekkert líkur þeim kuldafatnaði sem þarf í íslenska kuldanum.  Það má heldur ekki gleyma að á Íslandi þarf ekki bara hlýjan, heldur líka vatnsheldan fatnað og það er erfitt fyrir þá sem ekki þekkja til að koma með rétta fatnaðinn.“

„Íslenska veðrið getur verið svo klikkað,“ bætir Jeannie við.

Hún segir að fólk hafi líka áhuga á hvað er langt á milli staða, hvað sé áhugaverðast, hvað sé hægt að ná að sjá mikið á einum degi og annað slíkt.

„Ísland er einnig miklu nútímalegra en margir gera ráð fyrir. Það kemur mörgum á óvart að hér er alls staðar tekið á móti kreditkortum og það er næstum sama hverju þú leitar að, þá er unnt að nálgast það.

Eitt af vinsælustu myndböndunum mínum er reyndar labb mitt í gegnum Kringluna og ég fékk gríðarlegan fjölda ummæla frá fólki sem hélt að það væri ekki verslunarmiðstöðvar á Íslandi.

En fólk er sífellt að verða upplýstara, ekki síst vegna samfélagsmiðla, og maður heyrir nánast ekki lengur þessar sögur um snjóhús og víkingahjálma.“

Framtíðin er björt

Jeannie segir fólk einna helst forvitið um daglega lífið, litlu hlutina eins og hvað sé í boði í íslenskum bakaríum.

Hún er afar bjartsýn á framtíð ferðamennsku á Íslandi.

„Áhrifavaldar er mjög hrifnir af Íslandi og það hefur sitt að segja. Innviðirnir á Íslandi verða sífellt betri hvert sem litið er, góð hótel og frábærir veitingastaðir.

Enda er maturinn hér á landi æðislega góður,“ segir Jeannie Riley, eigandi Iceland with a View.

 

Hér má sjá vefsíðu Iceland With a View

Instagramsíða Jeannie skartar gullfallegum myndum

Það er fróðlegt fyrir ferðamenn og stórskemmtilegt fyrir landann að sjá Jeannie útskýra Ísland á YouTube rás sinni

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram