Bandaríski útvarpsmaðurinn Billy Costa lætur raunveruleikastjörnuna Teresa Giudice heyra það. Hann kallar hana „hálfvita“ og „skrímsli“ og segir að hún hafi „ráðist“ á hann í beinni útsendingu á mánudaginn.
„Hún var auðveldlega, án alls vafa, dónalegasti viðmælandinn sem ég hef fengið í viðtal,“ sagði hann í þættinum sínum, Billy & Lisa in the Morning.
Teresa, sem er stjarna raunveruleikaþáttanna Real Housewives of New Jersey, kom fram í þættinum til að auglýsa viðburð sem hún er að fara að halda næstu helgi.
Viðtalið fór að súrna eftir að Billy spurði raunveruleikastjörnuna um bók hennar „Turning the Tables“, sem hún skrifaði eftir ellefu mánaða fangelsisvist árið 2015.
Teresa og fyrrverandi eiginmaður hennar, Joe Giudice, voru dæmd fyrir fjársvika- og skattalagabrot árið 2014. Þau skildu árið 2019 eftir tuttugu ára hjónaband.
„Teresa, við vitum að þú eyddir smá tíma í fangelsi, en þú komst úr fangelsi og skrifaðir bók, metsölubók, um tíma þinn í fangelsi. Lagðirðu mikla áherslu á matinn í fangelsinu?“ spurði Billy.
Teresa sagðist ekki vilja „tala um þetta.“
„Ég veit ekki hvort þú vitir þetta, en ég er fjórfaldur New York Times metsölurithöfundur,“ sagði hún og Billy sagðist meðvitaður um það.
Hann reyndi síðan að skipta um umræðuefni og spyrja hana út í viðburðinn en Teresa var ekki tilbúin að sleppa. Page Six greinir frá.
„Við ætlum að skemmta okkur vel og þetta snýst allt um að vera jákvæð, er það ekki? Og ekki neikvæð? Þú ættir að læra það,“ sagði hún við hann og Billy sagði að hann myndi „vinna í því.“
Hinn umsjónarmaður þáttarins, Justin Aguirre, blandaði sér þá í málið og sagði að Billy væri ekki að vera neikvæður þar sem bók hennar hafi verið hluti af fjölmiðlapakkanum sem fjölmiðlafulltrúi hennar hafi látið þá fá.
„Ég er með hlaðvarp sem heitir „Namaste Bitches“ og þið ættuð að hlusta á það og læra að vera aðeins meira „namaste“,“ sagði hún.
Eftir að símaviðtalinu lauk ræddu þeir um framkomu hennar og Justin sagði að þeir hafi ekki rætt um það sem þeim hafi verið bannað að ræða, eins og samband Teresu og bróður hennar og gagnrýnina sem hún hefur fengið undanfarið á samfélagsmiðlum fyrir að klæðast Balenciaga vegna nýjasta skandals fyrirtækisins.
Sjá einnig: Rýfur þögnina um umdeildu auglýsingarherferð Balenciaga – Börn með BDSM-bangsa