Helgi Ómarsson, ljósmyndari og áhrifavaldur, deildi skemmtilegum fróðleik um samband hans og kærasta hans, Péturs Björgvins Sveinssonar. Þeir kynntust árið 2007 en byrjuðu ekki saman fyrr en í október 2022, þegar þeir voru í fríi á Taílandi.
Mikil dulúð var í kringum samband þeirra til að byrja með en Helgi opinberaði Pétur á Instagram, þar sem hann er með yfir 21 þúsund fylgjendur, fyrr í mánuðinum.
Undanfarið hefur Helgi verið opnari um ástina og kærastann. Hann bauð fylgjendum sínum að spyrja sig spurninga í gærkvöldi og sneru nokkrar þeirra að Pétri.
Aðspurður hvað það besta við hann væri sagði hann: „Vá, öll bestu og fallegustu lýsingarorð eiga við hann. Hann er að öllu leyti gjörsamlega stórkostleg manneskja og vissi ekki að það væri hægt að eiga svona maka, ekkert nema góður, skilningsríkur og stuðningsríkur og ég gæti haldið áfram. Hann er allt og rúmlega það sem ég hefði getað dreymt um.“
Helgi og Pétur hafa þekkst í mörg ár. Þeir kynntust árið 2007 en voru aðeins vinir.
„Við höfum verið vinir síðan [2007], stundum góðir vinir, stundum meh vinir, en alltaf þótt mjög vænt um hann og oft verið skotinn í honum í alls konar bylgjum. En við vorum alltaf bara chill og ekkert að spá í hvort öðrum þannig, og báðir í öðrum samböndum, svo bara var alheimurinn með geggjað plan fyrir okkur sem ég er mjög þakklátur fyrir.“