fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Sólveig Anna segir erfiða upplifun síðasta vetrar hafa breytt sér – „Ég var miklu kátari en er lágstemmdari í dag og held að sú breyting sé komin til að vera“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 27. nóvember 2022 09:00

Sólveig Anna Jónsdóttir Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það hefur alltaf verið ákveðin andúð á Íslandi á mjög róttæku fólki og ég fann alveg fyrir því fyrir krakki. Það að pabbi minn var kommúnisti gat valdið leiðinlegum athugasemdir í minn garð og ég var því ekkert að brydda upp á því umræðuefni sjálf,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Dóttir landsþekkts fjölmiðlafólks

Sólveig Anna er dóttir landsþekktra Íslendinganna,  útvarpsþulanna  Jóns Múla Árnasonar og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur. Sólveig Anna er fædd  árið 1975, eina barn foreldra sinna en bæði áttu þau börn af fyrri hjónaböndum.

Sólveig Anna 10 ára

Jón Múli var fæddur 1921 og var  Ragnheiður Ásta var tveimur áratugum yngri en maður hennar. Sólveig Anna segir að vissulega hafi það haft áhrif að eiga eldri foreldra.

„Bræður mínir, Pétur og Eyþór, voru  snemma komnir í samband með konunum sínum, Önnu og Ellen, og þeirra börn bættust líka í hópinn þannig að ég var umlukin stjórfjölskyldu alla mína æsku þrátt fyirr að vera einkabarn foreldra minna.“

Öðruvísi fjölskylda

Fjölskyldan þótti óhefðbundin á margan hátt.

„Ég skammaðist mín aldrei fyrr foreldra mína, þótti mjög vænt um þau og bara mikla virðingu fyrir þeim, en ég var viðkvæm bæði fyrir því hvað pabbi var fullorðinn svo og aldursmuninum á milli foreldra minna. Þetta voru aðrir tímar og ég vildi ekkert endilega að fólk vissi að ég átti sex hálfsystkini, enda svo að segja óþekkt í mínum vinahóp að eiga þetta fjölbreytta útgáfu af fjölskyldu.“

Sólveig Anna segist alltaf hafa verið stolt af foreldrum sínum en ekki mikið fyrir að ræða þeirra pólitísku skoðanir.

„Það var mikið rætt um pólitík heima hjá mér og sennilega var pólitík það sem mest var rætt um. Ég varð því mjög snemma pólitísk, sem sennilega var óumflýjanlegt miðað við mínar uppeldisaðstæður.“

Jón Múli og Ásta Ragnheiður, foreldrar Önnu Sólvegar, voru landsþekkt fjölmiðlafólk.

Óráðþegið barn

Sólveig Anna segist ekki hafa verið frek sem barn.

„En ég var aftur á móti það sem mamma kallaði óráðþægin þannig að ég gat verið þvermóðskufull á ákveðna hluti. Ég gat verið afar föst á mínu sem gat skapað erfiiðleika fyrir mömmu þegar hún vildi láta mig gera eitthvað sem ég tók ekki í mál og engin leið að láta mig gera.

Ég var til dæmis fremur ung þegar mér var farið að finnast leiðinlegt að fara í skólann og þar kom þessi óráðþægni til dæmis vel í ljós. En annars var ég stillt og prúð að mestu, var meðfærileg og elskaði fátt meira en að vera með mömmu minni.“

Hún segist ekki hafa bryddað sjálf upp á pólitískum umræðum  sem barn og unglingur.

„En væru þær i gangi var ég alltaf tilbúin til að beita mér í þeim og koma mínum skoðunum á framfæri.“

Sólveig Anna með foreldrum sínum, Jóni Múla og Ástu Ragnheiði.

Hnötturinn og landabréfabókin

Sólveig Anna segir það auðvitað hafa haft áhrif að á heimilinu var mikil umfjöllun um heimssögulega atburði og pólitíska atburði sem áttu sér stað innanlands.

„Ég var lítil þegar ég fékk gefin hnött og ætlast til að ég vissi um ýmislegt sem væri að gerast í heiminum og gæti staðsett hvar það ætti sér stað. Það var lögð áhersla á að ég hefði vitneskju um hvar pólitískir atburðir væru að gerast og ég tók það mjög alvarlega. Iðuleglega þegar var verið að horfa á fréttir eða kvikmyndir var landabréfabókin sótt til að sýna hvað atburðir ættu sér stað og í hvaða samhengi við önnur lönd.“

Hún segir að strax sem barn hafi hún áttað sig að slík þekking væri mikilvæg og  partur af því að vera manneskja.

„Að vita hvað væri að gerast í heiminum og ekki bara hvar, heldur af hverju, hver væri aðdragandinn og hverjir væru þáttakendur. Og það hefur gagnast mér mjög mikið alla mína ævi, það að hafa ákveðna þekkingu og vita að það sé ábyrgð mín sem fullorðinnar manneskju að sjá stóru myndina. Draga ekki ályktanir af einstökum atburði heldur skilja hvað gerðist á undan, hvað væri að gerast og velta fyrir mér hverjar afleiðingar geta orðið.“

Fæðing sonarins Jóns Múla gjörbreytti Sólveigu Önnu.

Tók djammið alvarlega

Í skólanum fannst Sólveigu gaman í sumum fögum en fannst annað óbærilega leiðinlegt og ekki tilbúin að leggja neina orku í það. Sem olli erfiðleikum á unglingsárum þar sem frelsi uppeldisáranna hentaði illa í kassa menntakerfisins.

Allt í allt fór Sólveig Anna í þrjá menntaskóla en hætti 19 ára enda enginn áhugi fyrir skólagöngu lengur til staðar.

„Ég var fljótandi á þessum tíma og hafði enga hugmynd um hvað ég vildi gera, var töluvert ráðvillt. Vann á skrifstofu Gjaldheimtunnar sem þá var, en tók það reyndar mjög alvarlega að fara út að skemmta mér,“ segir Sólveig og hlær.

„Tók reyndar fátt meira alvarlega á þessum tíma.“

Var ótengd meðgöngunni

Sólveig Anna varð ólétt 21 ára og segir það það besta sem fyrir hana gat komið.

„Það breytti mér algjörlega, það varð grundvallarbreyting á mér sem manneskju. Ég var ófókuseruð og óábyrg á þessum tíma. Jú, ég vissi augljóslega að ég var ólétt og myndi fæða barn en ég var ekki mikið að pæla í því hvað það þýddi. Ég skoðaði einhverjar bækur um ungabörn en ekki mikið. Mamma tók þetta mjög alvarlega sem betur fer, og það var alveg spenningur og undirbúningur en ég var að vissu leyti mjög ótengd meðgöngunni.“

Sólveig Anna og eiginmaður hennar, Magnús Sveinn Helgason, sagnfræðingur.

Sólveig Anna blótaði í sand og ösku við fæðinguna og vildi bara fara að sofa þegar barnið var komið í heiminn.

„Ég var enn á þessum eigingjarna og unga stað. En sem betur fer kom ljósmóðir og rétti mér drenginn. Ég sagðist bara vilja sofa en hún var ákveðin og rétti mér barnið. Og þegar ég tók hann í fangið þá kikkaði þessi eðlishvöt svo rækilega inn að ég neitaði að sleppa honum aftur. Ég fór ekki einu sinn á klósettið þennan stutta tíma á fæðingardeildinni  nema draga litla vagninn með honum með mér.“

Sólveig Anna segir að að þarna fyrst hafi hún axlaði raunveruleg ábyrgð í lífinu.

„Ég tók móðurhlutverkið mjög alvarlega og hugsaði eiginlega ekki um neitt annað.“

Elskaði lífið okkar

Sólveig Anna var einstæð móðir og bjó hjá foreldrum sínum. „Mamma hjálpaði mér mjög mikið og fannst þetta ánægjulegt þótt auðvitað hafi þetta verið áskorun fyrir foreldra mína. Þau bjuggu vel að okkur og veittu syni mínum mikla ást.“

Sólveig Anna ásamt Birnu systur sinni.

Það leið þó ekki að löngu þar til Sólveig Anna tók aftur saman við gamlan kærasta, Magnús Svein Helgason, sem hún hafði átt í stormasömu sambandi við á unglingsárum. En ástin var enn til staðar og eru þau enn saman í dag.

„Við fórum að fljótlega að búa  og ekki leið á löngu þar til dóttir okkar í heiminn. Á nokkrum árum fór ég því frá því að vera djammari og í að vera tveggja barna móðir í sambúð. Sem mér fannst mjögskemmtilegt. Auðvitað var ég þreytt, eins og allar ungar mæður með tvö börn upplifa, og kannski hafa minningarnar aðeins mildast með aldrinum en ég man ekki eftir öðru en að finnast þetta frábært og æðislegt. Ég elskaði lífið okkar.“

Sólveig Anna var 25 ára þegar þau hjón fluttu ásamt börnunum til Bandaríkjanna þar sem Magnús fór í nám.

Fífldirfska æskunnar

„Eftir á hyggja var þetta ansi villt. Ég hafði aldrei  komið til Bandaríkjanna og var með tvö lítil börn, Möggu þriggja mánaða og Nonna rúmlega þriggja ára. Þetta var einhver fífldirfska æskunnar, því það var mjög erfitt að fara frá allri minni góðu fjölskyldu, stórum vinkvennahópi og  allri þeirri miklu hjálp sem ég hafði hér heima. Baklandið mitt var gott.“

Sólveig Anna segir að skortur á lífsreynslu hafi valdið þvi að hún áttaði sig ekki á hversu erfitt væri að vera að mestu ein með tvö ung börn enda Magnús í fullu námi. „Það var mjög mikil áskorun, sérstaklega fyrstu tvö árin.“


Sólveig Anna Jónsdóttir, mynd/Ernir

Þau settust að í Minnesota. „Það var góður staður fyrir okkur að vera enda íbúar þar að miklum hluta af skandinavískum uppruna. Sem í landi, smekkfullu kerfisbundins rasisma, gerir hvítum Norðurlandabúum auðveldara að ganga inn í hinn samfélagslegaa strúktúr. Og sem slík vorum við verðmetin frekar hátt, en það er auðvitað á kostnað annarra; svarta og brúna fólksins sem á heima þarna.

Ég vissi af rasisma í Bandaríkjunum aður en ég flutti þangað en ekki hvað hann í raun þýddi.“

Átröskunin

Sólveig var mikið ein með tvö litil börn, án þeirra daglegu samskipta sem höfðu áður einkennt daglegt líf.

„Þegar ég var búin að vera í Bandaríkjunum í ár þróaði ég með mér fremur alvarlega átröskun sem ég glímdi þó sem betur fer ekki við  sérlega lengi. En ég get verið mjög einbeitt og setti mikla einbeitingu í mína átröskun og var hratt mjög veik.“

Sólveig vissi að hún yrði að ná tökum á sjúkdómnum og hóf að lesa sér til. „Fólk getur farið að nota sjálfssvelti til að reyna að ná stjórn á hlutunum í erfiðum kringumstæðum og þetta getur verið  viðbragð við mikilli streitu, sérstaklega hjá sumum konum.“

Hún segist þó hafa áttað sig að þetta væri engin staða að vera í með tvö lítil börn reyndar alveg hræðileg.

„Og þá var ég nokkuð fljót að jafna mig. Það sem kom mér að mestu frá þessum hörmulega og hræðilega stað var að skynsemin sagði mér að það væri ekki hægt að sjá um tvö lítil börn og halda að sama skapi sambandi við þennan skelfilega sjúkdóm sem anorexía er.“

Börnin, Jón Múli og Guðný Margrét.

Sólveig Anna var mjög veik í um um það bil ár og segist ekki vilja sjá af sér myndir frá þessu tíma, þær séu of hræðilegar.

„Þetta tók tíma en það sem hjálpaði mér hvað mest var að ég fór að hreyfa mig, sem ég hafði ekki gert mikið af áður. Ég fór að tengjast líkama mínum á nýjan hátt því partur af alvarlegri átröskun er þessi aftenging, það að sjá líkamann sem eitthvað fyrirbæri sem ber að hafa stjórn á. Ég hef alltaf haft mikla orku en ekki notað hana  til að hreyfa mig. Ég vissi ekki að það væri hægt að ná þessarri tilfinningalegu vellíðan sem fylgir hreyfingu.

En já, þetta var áskorun. En þegar ég komst yfir átröskunina tóku við yndisleg ár þar sem mér leið vel.“

Sólveig Anna og Pétur Xiaofeng frændi hennar

Hvítur Norðurlandabúi með meðgjöf

Sólveig Anna segir sig vita hvernig sé að flytja til annars lands. „Samt hafði ég meðgjöfina, ég var hvítur Norðurlandabúi sem talaði ensku, en það var samt gríðarlega erfitt að læra á nýtt kerfi, nýtt samfélag og læra á og aðlagast  menningarmun.

En guð minn góður, hvað með þá sem ekki hafa slíkt með sér? Þeir sem telja sér trú um að það sé auðvelt að setjast að í nýju landi og læra bara tungumálið strax og aðlagast er fólk sem ekki er að horfast í augu við raunveruleikann. Hlutirnir eru ekki svona einfaldir.“

Sólveig Anna í aktivisma eftir búsáhaldabyltinguna.

Í Bandaríkjunum fór Sólveig mikið að lesa sér til. „Mér fannst ég ekki geta búið í samfélagi nema að þekkja til þess og tók þekkingaröflunina alvarlega.

George Bush er kosinn forseti og Bandaríkin fremja þessa hrikalegu stríðsglæpii með árásinni inn í Afghanistan og Írak og ég var mjög sjokkeruð. Ég trúði því í byrjun að þetta yrði stöðvað en áttaði mig síðan á því að það var enginn að fara að stoppa þetta af, Bandaríkin væru að gera nákvæmlega það sem þau vildu, eins og þau ávallt gera. Hið svokallaða alþjóðsamfélag er máttlaust gagnvart þeim.

Ég vildi vita af hverju ástandið var svona klikkað.“

Andkapítalísk, andrasísk og andheimsvaldasinnuð

Hún segir rasismann og stéttskiptining hafa verið beint fyrir framan nefið á sér.

„Og eftir því sem fylgdist meira með stjórnmálunum í Bandaríkjunum og stríðsrekstrinum fékk ég sífellt dýpri og meiri áhuga. Ég fór úr því að vera rótttæk manneskja, sóslíalisti án þess að hafa kannski kafað af alvöru í hvað það það þýddi, í að setja meiri dýpt í að kanna hluti. Ég verð mjög andkapítalísk, andrasísk og andheimsvaldasinnuð í minni afstöðu.

Ég kom miklu róttækari heim en þegar ég fór út.“

Í kosningabaráttunni veturinn 2022

Sólveig Anna var ótrúlega glöð að koma heim til fjölskyldu og vina, mjög jákvæð og bjartsýn og var full tilhlökkunar. En tveimur mánuðum eftir heimkomuna skall hrunið á. Magnús missti vinnuna og við tók nokkurra ára pakki blankheita og mikilla erfiðleika.

„Það var erfitt að aðlagast þessum tíma í íslensku samfélagi og allt var öðruvísi en ég hafði gert mér væntingar um. Ég vann á leikskóla, var afar tekjulág og kynntist því í fyrsta skipti fyrir alvöru hvernig er að vera ómenntuð láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði. Að framlag mitt væri verðmetið svona lágt, að ekki væri hægt að komast af á því.“

Hluti af arðránsmaskínunni

„Ég kynntist líka afleiðingum niðurskurðar inn á vinnstað mínum og sá að þær róttæku pólitísku skoðanir, sem ég hafði  mótað með mér, voru þær réttu. Og þarna fer ég aftur í viðbótarheimaskólun með sjálfri mér, nú varðandi stöðu láglaunakvenna í samfélaginu okkar og hvernig þeirra vinnuframlag er notað til að halda öllu gangandi án þess að þær fái nokkurn tíma það sem þær eiga skilið. Ég varð mjög upptekin af þessu og ótrúlega reið út í þessa grimmilegu kvennakúgun.“

Sólveig Anna segir að áður hafi hún að mestu verið að spá í hlutina í stóra samhenginu en nú verið komin sjálf inn í þessa arðránsmaskínu, eins og hún kallar það.

„Ég var að vinna með þessum ótrúlega merkilegu konum, alls staðar að úr heiminum, sem eru að halda þessari stofnun gangandi en eru algjörlega ósýnlegar og fá aldrei neinar þakkir frá samfélaginu. Og þetta fannst mér ótrúlega merkilegt, að við skulum búa í þessari svokölluðu jafnréttisparadís þar sem kvenréttindi eiga að vera svo mikilvæg og leikskólar það mikilvægasta fyrir konur.

En af hverju talar enginn um það að 80% starfsmanna þar eru konur sem búa mjög margar við viðvarandi fjárhagsáhyggjur sökum lágra launa og geta ekki tryggt sitt efnahagslega öryggi? Þrátt fyrir að vinna jafnvel tvær vinnur til að reyna að láta hlutina ganga? Er það ekki vandamál fyrir femínismann að díla við? Ég gat ekki skilið þetta ískalda áhugaleysi á okkur láglaunakonunum.“

Sífellt reiðari

Sólveig Anna las meira og varð sífellt reiðari.

„Þessi sýn mín á samfélagið gerði mér ljóst að það þyrfti að breyta mjög miklu hér. Það þyrfti allsherjar uppstokkun til að tryggja að svona væri ekki komið fram við fólk.  Skert kjör hlekkja fólk. Þau eru líka aðför að heilsu fólks. Ég fékk staðfestingu á því þegar ég hóf störf hjá Eflingu og kynntist meiru um líf láglaunafólks. Nýjasta könnun félagsins sýnir t.d. að 65% kvenna sem eru í  Eflingu búa við miklar eða mjög miklar fjárhagsáhyggjur.

Viðvarandi fjárhagsáhyggjur hafa alvarlega áhrif á andlega heilsu fólks og þeir sem ekki þekkja að telja hverja krónu um öll mánaðarmót átta sig kannski ekki á að slíkt getur gert fólk andlega veikt. Enda sýna rannsóknir að mikill fjöldi öryrkja eru konur á miðjum aldri sem eru brunnar út. Og skyldi engan undra miðaðvið þær aðstæður sem fjölda kvenna er boðið upp á í þessari svokölluðu jafnréttisparadís sem við búum í.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, mynd/Ernir

Sólveig Anna byrjaði að láta til sín taka af alvöru í búsáhaldabyltinginunni.

„Ég var samt aldrei að hugsa sérstaklega um verkalýðshreyfinguna því eins og í hugum svo margra var hún bara enn ein stofnunin. Enn einn parturinn af íslenska valdabatteríinu, sem gerir ömurlega kjarasamninga og er sama um láglaunafólk. Ég sá verkalýðshreyfinguna þannig að þar væri hvorki áhugi eða vilji til að gera eitt né neitt.

Það kom sjálfri mér eiginlega mest á óvart þegar það varð- svo staðurinn til að sækja á.“

Yfirgengilegt verkefni

Sólveig Anna segir að það hafi verið félagar hennar í pólitsíku starfi sem hafi komið með hugmyndina um að þetta gæti  verið staðurinn til að koma einhverju í verk.

Með Eflingarfélögum á 1. maí.

„Mér fannst þetta lengi óttalegt bull og hafði engan áhuga. Gamla þvermóðskan kom upp í mér og ég vildi ekkert hugsa um þetta. En það kom að því að ég var tilbúin að taka þetta áhlaup á Eflingu ásamt félögum mínum, reyna að komast um borð í  þetta skip sem hafði verið bundið við bryggju og látið ryðga þar árum saman.

Ég vissi alltaf að það að taka Eflingu yrði risavaxið verkefni en hversu yfirgengilega stórt og flókð það reyndist í raun verða var eitthvað sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér.“

Hefði hún látið vaða, vitandi af því sem koma skyldi?

Sólveig hlær við spurninguna. „Mögulega ekki. Ég var reyndar aldrei með neitt oflæti né í afneitun varðandi hvað ég var að fara út í. En ég reyndar trúði því aldrei að ég og félagar mínir myndu vinna. Ég hélt að eigendur félagsins, þeir sem höfðu setið við stjórnvölinn í 18 ár, hefðu meira en nóg tök á öllu til að vinna. Þetta var djörf tilraun en svo unnum við með 80% atkvæða.

Þetta var eins og sprengja og sjálf trúði ég þessu ekki.“

Sólveig með Sönnu Magdalenu.

Sólveig hætti í leikskólanum daginn fyrir aðalfundinn og daginn eftir steig hún inn á skrifstofu Eflingar og hóf störf.

Við tóku hreint út sagt ótrúlegir tímar og gríðaleg umræða sem einkenndist að miklu leiti af heift.

Hörkulegar árásir Morgunblaðsins

„Ég hugsa stundum til baka og hef hreint út sagt ekki hugmynd um hvernig ég fór að þessu. Ég er auðvitað alin upp af fólki sem kenndi mér að sumar pólitískar skoðanir séu ekki vinsælar og stundum þurfi að færa fórnir í pólitískri baráttu. En þetta var oft frekar hræðilegt.“

Aðspurð um hvað hafi verið verst segir Sólveig Anna það hafa verið óhróður og ósannindi.

„Ég tel sjálfsagt og eðlilegt í lýðræðissamfélagi að átök á milli fólks, sem er á öndverðum meiði i pólitík, geti verið hörð og erfið. Þeir sem telja að slíkt eigi ekki að gerast er fólk, sem að mínu mati, er aðeins að vinna að því að viðhalda óbreyttu ástandi.“

Samninganefnd Eflingar 2022

„En átök þurfa að vera málefnaleg. Og að lesa hluti á við að ég væri að ásælast sjóði félagsfólks til að afhenda öðrum, að ég væri þarna komin í annarlegum tilgangi  var sjokkerandi og særandi. Og ekkert var fjær sannleikanum.“

Sólveig Anna tók fyrst við formennsku á vordögum 2018 og segir að um haustið hafi Morgunblaðið byrjað sínar árásir af hörku.

„Það var borið upp á mig að ég væri í einhverri ógeðslegri glæpastarfsemi og það var erfitt að sjá þessa ljótu umfjöllun sem síðan var tekinn upp aftur og aftur.“

Tilraun til mannorðsmorðs

Sólveig Anna segir að um ítrekaða tilraun til mannorðsmorðs, á henni sem formanni Eflingar, hafi verið að ræða.

„En ég tók strax þá ákvörðun strax að horfast í augu við að það verði aldrei hægt að ná árangri í róttækri réttlætisbaráttu nema skilja að fólk mun reyna að stoppa mann af. Það eru ýmsar aðferðir notaðar og að maður verður að svara fyrir sig.

Ég hafði þá skoðun, og hef enn, að sé ráðist að mér, mannorði mínu og þeim verkefnum sem ég hef tekið að mér að leiða, með ómaklegum, ómálefnalegum og óðgeðslegum hætti, þá svara ég hratt og örugglega. Ég geri mér grein fyrir því að að það hefur þau áhrif að oft vill þá fjölmiðlaathyglin verða meiri en ég mun aldrei sætta mig við að um mig sé bornar út lygar og rógur.

Ég mun alltaf svara fyrir mig.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, mynd/Ernir

Hef þurft að brynja mig

Er Sólveig Anna búin að ná að brynja sig gegn slíkum árásum?

„Ég hafði enga brynju til að byrja með nema mína pólitísku sannfæringu. Ég hef þurft að brynja mig en maður má ekki ganga of langt og fara að láta sem ekkert sé og að hlutir snerti mann ekki. Ég get aldrei látið sem ekkert sé. Það lærði ég  sérstaklega síðastliðinn vetur.  Ég var, og er, friðlaus þangað til ég er búin að koma þeim upplýsingum frá mér sem ég tel að fólk verði að heyra.“

Hún segir góða félaga einnig skipta máli. „Það er mikil vörn og hughreysting að vita af frábæru fólki sem treystir mér og kýs að starfa með mér. Það er ómetanlegt og engin manneskja kæmist í gegnum svona nema til að hafa slíkan hóp sér við hlið. Annað væri ekki hægt. Mínir góður félagar eru ómetanlegir.

Ég er tvívegis kjörin formaður til að framfylgja róttækri sýn á baráttu verkafólks. Égtel mig  hafa komið henni á framfæri við hvert einasta tækifæri sem mér gefst. Ég held að það séu fáir sem ekki viti fyrir hvað ég stend eða fyrir hverju ég vil berjast.“

Mjög skrítið að einhver vilji drepa mann

Nú er Sólveig Anna landsþekkt, finnur hún fyrir áreiti?

„Ég myndi ekki kalla það áreiti því í langflestum tilfellum sem fólk hefur komið að mér og viljað spjalla, hefur það verið jákvætt og skemmtilegt, og mér finnst mjög gaman að spjalla við fólk. En jú, ég hef þurft að blokkera fólk á Facebook vegna afar ógeðfelldra skilaboða. Ég hef líka þurft að tilkynna alvarlega hótun til lögreglu, hótun sem beindist að mér og heimili mínu, og kom frá fyrrum samstarfsmanni á skrifstofu Eflingar.

Svo komu tíðindin í haust af þessum ógæfusömu ungu mönnum  sem höfðu viðað að sér þessum vopnum og vildu víst drepa mig. Það var mjög skrítið.

En mesta áreitið hefur komið kannski komið frá ritstjórn Morgunblaðsins, í leiðurum og Staksteinum, og í annarri öfga-hægri umfjöllun.“

Eftir kosningasigurinn febrúar 2022.

Talið berst aftur að fjölmiðlum.

„Upplifun mín af fjölmiðlaumfjöllun um stöðu mína síðasta vetur eftir að ég sagði af mér fomennsku í Eflingu var mjög erfið, því þau sem stjórnuðu þá félaginu, ásamt hluta starfsfólksins þar, voru að útbúa ömurleg gögn og lygar  sem áttu að sanna fólsku mína og illt innræti. Ég fékk ekki að bera hönd fyrir höfuð mér  og fékk aldrei neinn aðgang að þessum gögnum svo að ég gæti varist.

Það var erfitt því ég vil svara og er alltaf tilbúin að standa fyrir máli mínu, en þarna voru stöðugar árásir í gangi og ég þurfti alltaf að vera tilbúin til svara símtölum frá fjölmiðlum þar sem að upp á mig höfðu verið bornar sakir um eitthvað sem ég hafði ekki gert.“

Er alvarlegri en ég var

Sólveig Anna segir að í heildina sé erfitt að lýsa síðasta vetri, hann hafi verið svo erfið upplifun.

„Ég reyndi bara að finna mér eitthvað að gera, fór mikið út að labba, talaði við fólkið mitt, sem hjálpaði mér mjög mikið en þetta breytti mér.

Ég kom öðruvísi einstaklingur út úr þessum vetri.“

Hvernig öðruvísi?

Sólveig þagnar og hugsar málið augnablik.

„Ég myndi segja að ég væri kannski einhvernveginn lágstemmdari. Ég var miklu hressari og kátari en ég er í dag og ég held að þessi breyting sé eitthvað sem er komið til að vera. Ég er miklu alvarlegri en ég var“

Sólveig Anna og Kismundur 14 ára.

Sólveig segist ætla að halda áfram hinu riastóra og krefjandi verkefni að berjast og byggja upp verkalýðsfélag sem tryggi, með samstöðu og baráttu, réttmæt kjör verkalfólks.

„Manneskja sem er í fullri alvöru í róttækri pólitiskri baráttu en er hrædd við að vera umdeild, þó að það geti verið erfitt, þarf að finna sér eitthvað annað að gera. Það má ekki hræddur eða vitlaus. Svona verkefni kallar á að gefa sig að fullu, alltaf. Vera stöðugt með hugann við hvernig sé unnt að ná árangri, hvaða leiðir sér færar, og hvaða leiðir megi alls ekki fara.“

Hún segir bæði erfitt en ekki síður afar gaman að sjá árangur af starfinu. „Það er magnað að upplifa slíkt með góðu samstarfsfólki.  Ég er stolf af árangri mínum og þess góða hóps sem er að sinna verkefnum sem eru í raun samfélagslega mikilvæg. Gott líf verkafólks gerir samfélagið okkar betra.“

Ósköp hversdagsleg manneskja

En lífið utan baráttunnar?

„Ég er mjög heimkær og finnst gott að koma heim á kvöldin. Mér finnst  gaman að elda mat og það var var eitt af því sem kom mér í gegnum síðasta vetur, ég einbeitti mér að því að elda því það er natni í eldamennskunni sem er slakandi.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, mynd/Ernir

„Ég eyði miklum tíma með manninum mínum, og Birnu systur minn,i og á þessi tvö yndislegu börn, sem nú eru 25 og 22 ára. Þau eru auðvitað fullorðið fólk en alltaf gaman þegar þau gefa sér tíma í að gera hluti með mér. Ég horfi á sjónvarpið, finnst frábært að hitta vinkonur mínar og elska að fara með manninum mínum í tjaldferðir um landið, sem við byrjum að gera reglulega eftir að krakkarnir urðu stórir og við urðum að finna okkur eitthvað að gera.

Hvað get ég sagt, ég er ósköp hversdagsleg manneskja,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi kommabarn og núverandi formaður Eflingar.

Þótt umdeild sé.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“
Fókus
Í gær

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Teddi náði botninum eftir að sérsveitin handtók hann í húsgagnaverslun

Teddi náði botninum eftir að sérsveitin handtók hann í húsgagnaverslun
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“