Margir muna líklega eftir stóra ananasmálinu sem tröllreið umræðunni árið 2020. Auður Jónsdóttir, rithöfundur, átti þar upptökin er hún greindi frá því á Twitter að vinkona hennar hafi greint henni frá því að með því að setja ananas í innkaupakörfu á tilteknum tíma í Hagkaup á Seltjarnarnesi væri maður að gefa merki um að maður væri tilbúinn í makaskipti (e. swing).
Færslan vakti mikla athygli. Hagkaup stökk á færið og auglýsti ananas í verslunum sínum og margir birtu myndir eða grín á samfélagsmiðum af ananas.
Við nánari skoðun á netinu kemur í ljós að ananas er vissulega notaður víða um heim til að finna aðra sem eru tilbúnir í makaskipti. Nema hvað að á Nesinu virðist mikilvæg regla varðandi ananas-makaskiptin hafa verið hundsuð – ananasinn á víst að vera á hvolfi í innkaupakörfunni.
Ananas á hvolfi er eiginlega orðið alþjóðlegt tákn þeirra sem leggja stund á makaskipti. En svo eru víst fleiri ávextir sem eru notaðir í innkaupaferðum til að gefa merki um rómantískan eða erótískan áhuga.
Fyrrum Bachelor-keppandinn Brittany Hockley deildi leyndum skilaboðum ávaxta í stórmörkuðum í hlaðvarpinu Life Uncut.
Þar sagði hún að bananar geti gefið merki um að maður sé einhleypur. „Ef þú nærð í búnt af bönunum og lætur þá snúa upp svo að bogalínurnar vísi upp í innkaupakerrunni – þá þýðir það að þú sért á lausu. Svo ef þú vilt bara hreinlega kaupa banana og ert ekki í makaleit þá þarftu að snúa þeim hinseginn – sem þýðir að þú sért ekki á lausu.“
Brittany rakti einnig ananas-notkun og tók réttilega fram að þeir þurfi að vera á hvolfi til að tákna að þú sért til í makaskipti.
Svo eru það ferskjur. Þá er hægt að grípa ferskju og setja hana í innkaupakerru þess sem þú hefur áhuga á.
Líklega er best að kanna fyrst hvort að bananar séu í körfu viðkomandi og hvort þeir vísi upp.