fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Milla Ósk opnar sig um fæðingarþunglyndi: „Í allt sumar beið ég eftir að hann hætti að gráta“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 3. október 2022 18:38

Milla Ósk. Mynd/Stjórnarráðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, sem eignaðist sitt fyrsta barn fyrir sex mánuðum segir að þessir mánuðir eftir fæðinguna hafi verið gríðarlega erfiðir. Litli drengurinn sé kveisubarn og þrátt fyrir heimsóknir til tíu lækna hafi engar skýringar fundist. Þá hafi hún sjálf upplifað fæðingarþunglyndi og kvíða sem henni finnist erfitt að viðurkenna að hafi orðið hluti af líf hennar.

Milla greinir frá þessu í hjartnæmri og persónulegri færslu á Facebook sem hún gaf DV leyfi til að vitna í.

Færslan hefst á því að tilkynna að sonurinn sé orðinn sex mánaða, en drenginn á hún með Einari Þorsteinssyni borgarfulltrúa, og segir hún frá því hvað sonurinn sé fyndinn, mikið matargat og kúrudýr.

Sjá einnig: Framsóknarmaður fæddur – Milla og Einar eignuðust son

„Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort og hvað ég ætti að segja um þessa sex mánuði. Mér finnst við einfaldlega tala alltof lítið um það hvað fyrstu mánuðirnir geta verið erfiðir.

Fyndið hvað ég eyddi miklum tíma af mínum fullorðinsárum að kvíða því að fæða barn. Aldrei hvarflaði það að mér að allt það sem myndi gerast EFTIR fæðinguna yrði margfalt erfiðara en sjálf fæðingin,“ segir Milla.

Endalausar blóðprufur, grátur og hræðsla

Daginn eftir að þau Einar fengu húsið sitt afhent greindist hún með meðgöngueitrun og var sett af stað þremur vikum fyrir tímann.

„Í kjölfarið kom í ljós hjartabilun hjá mér og vökvasöfnun á lungu og önnur líffæri. Svo til að kóróna allt þá fékk ég nýrnasteinakast ofan í þetta sem kom hressilega á óvart. Af fyrstu 10 dögum Emils eyddum við því 7 dögum og nóttum á spítalanum. Endalausar mælingar, blóðprufur, þvagleggir, línurit, myndatökur, ómanir og speglanir, lyf, grátur, hræðsla og bugun.“

Fljótt kom síðan í ljós að drengurinn var kveisubarn. Þau þökkuðu hvern dag fyrir að hann væri ekki alvarlega veikur en honum leið mjög illa.

„Hann grét stanslaust, vildi hvorki vera í vagni, kerru né bílstól, vildi ekkert nema vera í fanginu á okkur og á hreyfingu. Ég notaði yoga boltann svo mikið að hann sprakk undan okkur

Við höfum hitt um 10 lækna, farið með hann í allar mögulegar skoðanir og rannsóknir, prófað öll húsráð og allt sem hægt var að prófa. Eina svarið var “enginn veit hvers vegna börn fá kveisur, en það eldist af þeim.”“

Aldrei jafn örvæntingarfull

Og sumarið var erfitt hjá fjölskyldunni.

„Í allt sumar beið ég eftir að hann hætti að gráta. Líkamlega heilsa mín var sem betur fer á uppleið, en andlega heilsan á húrrandi niðurleið. Aldrei var ég jafn örvæntingarfull eða einmana og þegar ég sá nýbakaðar mömmur á samfélagsmiðlum fara með vagnana sína í göngutúra, eða niðrí bæ á kaffihús. Sumar fóru meira að segja í fjallgöngur. MEÐ barnið!

En ég? Ég var föst heima, að borða Maryland kex á milli grátkasta okkar mæðgina, með brjóstapumpu áfasta við mig að reyna að viðhalda mjólkurframleiðslu. Sem gekk svo auðvitað ekki, með tilheyrandi samviskubiti.“

Milla segir að kveisan sé nú að rjátlast af honum rétt eins og læknarnir hefðu sagt.

Óendanlega þakklát

Hún er óendalega þakklát öllum þeim sem hlustuðu á þau og hughreystu þessa sex mánuði.

„Mig langar á hverjum degi að senda ljósmæðrum okkar blóm. Á fæðingar og sængurlegudeild hlýtur að vera samansafn af okkar besta og hlýjasta fólki. Og það sama gildir með hjartadeild, þar sem starfar svo magnað fólk.

Brjóstagjafaráðgjafinn var ólýsanlega mikilvæg. Ungbarnaverndin, heilsugæslan og sálfræðingar gripu mig þegar ég var alveg að lenda á botninum.“

Hún dásamar einnig heilbrigðiskerfið, segir að sín upplifun sé flóknari en gengur og gerist og að sér finnist að mörgu leyti erfitt að greina frá þessu öllu.

„Mér finnst ég opinbera mjög persónulega erfiðleika og áföll sem ég bjóst aldrei við að gera. Mér finnst erfitt að viðurkenna að fæðingarþunglyndi og kvíði hafi orðið hluti af mínu lífi. Ég hef hins vegar of oft bölvað því að enginn tali um þessar hliðar móðurhlutverksins til þess að segja ekki neitt sjálf. Við verðum að geta talað um þessa hluti og þannig hjálpast að.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram