fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Sigurður Ingólfsson skáld drakk af metnaði, dó tvisvar og tekst á við geðhvarfasýki – ,,Ég áttaði mig á að ég var orðinn klisja“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 1. október 2022 10:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Frekar vil að keypt sé áfengi ofan í alla sem mæta í jarðarförina mína heldur en að kaupa forláta kistu til þess eins að láta kveikja í henni.

Jafnvel þótt að ég sé formlega hættur að drekka heimta ég að það verði fyllerí í jarðarförinni minni, segir doktor Sigurður Ingólfsson, þýðandi og skáld. 

Drakk eins enginn væri morgundagurinn

Sigurður hefur átt ævintýralegt lífshlaup. Hann gaf út fyrstu bók sína i menntaskóla, fór meira og minna mjúkur í gegnum háskólaárin og var heimavinnandi faðir eða að vinna á vínekrum í Frakklandi.

Sigurður hefur kennt, skrifað bækur og leikrit, sinnt myndlist, starfað við fjölmiðla og verið leiðsögumaður.

Hann drakk eins og enginn væri morgundagurinn, dó tvisvar, hefur barist við geðsjúkdóma, er nú í guðfræði og sér fram á að lenda á götunni eftir mánuð.  

,Ég ætlaði að vera prestur eins og afi minn en hefði staðið mig skelfilega í því á yngri árum. En maður er vonandi kominn til vits og þroska og myndi kannski standa mig betur í dag.” 

Sigurður með Sölva Snæ son sinn í Frakklandi.

Með bravúr

Sigurður sagði skilið við Bakkus fyrir fjórum árum eftir ríflega þriggja áratuga stífa drykkju.

,,Ég tók þetta rækilega og reyndar var þetta kerfisbundið og útpælt. Ætli ég hafi ekki verið um 15 ára þegar ég byrjaði að drekka og það með bravúr þótt ég ætti erfitt með að koma þessu niður því mér þótti þetta svo vont. Aftur á móti var ég búinn að ákveða það að fyrst ég ætlaði að gera þetta, ætlaði ég að gera þetta almennilega. Drekka mest af öllum.” 

Það var rómantísk hugmyndafræði að baki drykkjunni.

,,Þegar ég var lítill las ég ævisögu Lord Byron þrisvar eitt sumarið og skítféll fyrir honum, drykkfelldum saurlífissegg sem orti alveg brilljant ljóð. Ég vildi verða eins og náði því,” segir Sigurður en bætir við að han hafi aldrei hafi að verða sveltandi listamaður því mamma hans hafi eldað of góðan mat. Og geri enn.

,,Allan þennan tíma drakk ég aldrei til að fela eitthvað eða gleyma einhverri sálarkvöl. Ég drakk því mér fannst það skemmtilegt og gat haldið upp partíum fram á morgun. En svo hætti það að vera skemmtilegt.”  

Tók allt brjálæðið í einu

Sigurður gaf út fyrstu ljóðabókina, Húm, við lok náms menntaskólans á Akureyri árið 1986, eiginlega fyrir slysni. Upplagið var 300 eintök og seldist hún upp. ,,Mér fannst allt varðandi stuðla og höfuðstafi spennandi þegar ég var krakki, var orðin þokkalega læs tveggja ára, las mjög mikið og var alltaf að skrifa eitthvað niður. Ég er bókafíkill. Það er eina fíkn sem ég hef alltaf viðurkennt af fúsum og frjálsum vilja.” 

Sigurður fór í bókmenntafræði í Háskóla Íslands því hann vissi ekki hvað ætlaði að verða þegar hann yrði stór, og segist ekki vita það enn. ,,En þetta var mitt fag og í náminu tók ég allann brjálæðispakkann í einu. Ég var ævintýralega drykkfelldur, var á kafi í stúdentapólitínni, tók þátt í að búa til Röskvu, var formaður félags bókmenntafræðnema og ritstýrði tímariti þeirra. Ég tók þaðan BA próf með fyrstu einkunn en var samt eiginlega mildur allann tímann,” rifjar Sigurður upp og hristir höfuðið brosandi. 

Leiðindi í terlín

Þaðan lá leiðin í  kennslufræði sem honum fannst afspyrnu leiðinleg. ,,Það eina praktíska sem ég lærði var að snúa ekki baki í nemendur þegar skrifað er á töfluna.”

Sigurður fékk að heyra það eftir háskóla að verandi með kennsluréttindi lægi það beinast fyrir fyrir Sigurði og þáverandi konu, Ólöfu Björk Bragadóttur (Lóu)  hans að vera bara fyrir sunnan að kenna. Það væri aldeilis fínt starf. 

,,Að vera leiðinlegur í terlínbuxum alla ævi, úttaugaður um fimmtugt? Virkilega?“

Honum leist ekkert á þessar framtíðarhorfur og spurði konu sína hvort hún væri ekki til að skella sér til Frakklands. Uppáhalds skáld Sigurðar voru frönsk og fannst honum ekki boðlegt að geta ekki lesið verk þeirra á frummálinu. Hún var til í það og fluttu þau suður til Frakklands ásamt níu mánaða syni sínum. Sigurður fór í bókmenntafræði en Lóa i kvikmyndafræði og svo myndlist. 

Frá Frakklandi og austur á land

Alls bjó fjölskyldan tíu ár í Frakklandi og kláraði Sigurður þar doktorsgráðu sína og gaf út tvær bækur. ,,Ég var líka að vinna á vínekrum og heima með strákana en sá yngri fæddist tveimur árum eftir flutninginn. Við vorum skítblönk allan tímann, lifðum á yfirdrætti og námslánum, en þetta var yndislegur tími.”

Sigurður segir syni sína hafa spilað stærsta þáttinn í að flytja heim aftur enda strákarnir orðnir litlir Frakkar. Franskan var þeim tömust þótt íslenska væri alltaf töluð á heimilinu. Skyldi nú gera bót á. 

Fjölskyldan flutti því til Egilsstaða þar sem Sigurður réði sig sem frönskukennara við menntaskólann. ,,Þetta áttu að vera 2-3 ár en við enduðum á að vera þar í 17 ár. Það var vissulega stökk að flytja frá Frakklandi og austur á firði og ég spyr mig enn, þegar að byrjar að snjóa, af hverju í andskotanum ég sé hér á landi en ekki heima í Frakklandi. En þetta gekk mjög vel og á tímabili var ég með fleiri frönskunemendur hjá mér en voru samtals á landinu,” rifjar Sigurður upp.  ,

,En samt var mér sagt upp vegna sparnaðar.”  

Aðspurður um hvernig strákunum hafi gengið að aðlagast segir Sigurður það hafa gengið makalaust vel. ,,En þeir komu heim úr skólanum eftir einn eða tvo fyrstu dagana alveg gáttaðir og spurðu hvað gengi á í skólanum. Eftir dvöl í franska skólakerfinu fannst þeim stórfurðulegt að það væri púðar til að leggja sig og þeim fannst enginn vera að læra neitt.” 

Sigurður þurfti líka að útskýra fyrir þeim rasisma sem drengirnir skildu ekki eftir að hafa verið í skóla með börnum af öllum þjóðernum í allskonar litum og af öllum trúarbrögðum. ,,Krakkar voru bara skemmtilegir eða leiðinlegir í þeirra huga, óháð öllu. Þeim fannst þetta idjótískt, sem það er.”

Ekki sáttur við sjálfan mig

Sigurður gaf út bækur og hélt myndlistarsýningar, lék með leikfélaginu og samdi barnaleikritið Ég þakka. 

,,Ég fór á fund hjá leikfélaginu og það var talað um að setja upp barnaleikrit. Það átti að taka Dýrin í Hálsaskógi eða Kardimommubæinn sem ég bað í Guðs bænum ekki að gera það, það væri búið að eyðileggja þessi verk nógu oft. Ég var búinn að fá mér sirka einn tvo bjóra og missti út úr mér að ég skyldi skrifa barnaleikrit.” 

Svo fór að Sigurður skrifaði leikrit um hundinn sinn, Elvis. Sá orti vísur sem birtust í Mogganum og var skírður eftir ketti sem dó úr krabbameini. Sigurður setti verkið upp og fékk það prýðis góðar viðtökur.

,,Þetta fúnkeraði allt saman en ég var farinn að drekka alveg svívirðilega, hættur að muna línur og ekki sáttur við sjálfan mig. Þennan vetur var ég að vinna á fullu í leikhúsinu og við þýðingar fyrir hina og þessa, var í 120 prósent vinnu, og hrundi.”

Hann segir að Lóa hafi fengið nóg árið 2017 og tóku þau ákvörðun um að skilja. Sigurður flutti suður og í háskólanám. 

,,Þetta gekk ekki lengur. Það var drykkjuskapurinn, ég tek það alveg á mig. Við vorum farin að rífast mikið enda var hún kljást hún að mann sem var ekki í sambandi við alheiminn og því allt í lagi að blammera hann svolítið. 

Ég stóð mig ekkert sérstaklega vel sem manneskja seinni árin eftir komuna til Íslands.” 

Var flak

Sigurður hætti alfarið að drekka árið 2018. Hann hafði lent á sjúkrahúsi fjórum árum áður, fluttur með flugvél frá Egilsstöðum og lá í dái á Landspítalanum í nokkurn tíma. 

,,Ég var búinn að drekka lengi sleitulaust í langan tíma og dó á einhverjum tímapunkti en það dugði samt ekki til að fá mig til að hætta að drekka. Ég var flak og foreldrum mínum var sagt að koma að kveðja mig. Mér tókst að drekka mig í hel en sneri þó aftur. Ég þakka það höfðhverfsku genunum því allir í minni ætt hrista af sér alla sjúkdóma og verða þúsund ára. Um það bil.

Reyndar var þetta í annað skipti sem Sigurður dó en fjögurra ára gamall festist hann í snjóhúsi í níðingsfrosti ,,Ég var sáttur við að deyja en man eftir einhverju svörtu, sem reyndist nágranninn að bjarga mér, áður en ég rankaði við mér á sjúkrahúsinu. Mín lífssýn hefur svolítið einkennst af þeim atburði,” segir Sigurður og bendir á húðflúrin sín, hauskúpur og áletrunina memento mori sem minnir á að allir menn deyja á endanum.

,,Þetta er holl áminning um að njóta lífsins á meðan maður getur.

Var orðin klisja

Sigurður segir að eftir andlátið og upprisuna á sjúkrahúsinu hefði hann auðvitað átt að hætta að drekka enda kominn á botninn. 

,,En ég gerði að ekki og hélt áfram að drekka þar til ég rankaði aftur við mér á sjúkrahúsi. Þá var þetta orðið klisja og ég fékk nóg. Ég fékk ógeð á sjálfum mér, nennti þessu ekki lengur og fór heim og hellti niður viskíinu mínu, Þetta var ömurlegt. Skólinn. Ríkið. Heim. Fullur. Sjúkrahús. Alltaf sami rúnturinn aftur og aftur. Það var stórmerkileg tilfinning að uppgötva þetta og ég fékk ekki einu sinni fráhvörf.“

Í þetta skiptið fór Sigurður ekki í meðferð. Ákvörðunin var tekin.  

,,Ég bjó á stúdentagörðunum og fór allt í einu að taka eftir dropunum á laufblöðum trjánna í geislum sólar. Það var allt í einu allt svo skýrt og ég trúði ekki að ég hefði misst af þessu í öll þessi ár.  

Ég sakna reyndar rauðvíns því mér þykir það svo gott en ég sakna þess ekki að vera fullur.” 

Týpíska alkadæmið

Áður hafði Sigurður farið í fjölda meðferða en enginn þeirra gengið og hann yfirleitt byrjaður að drekka nokkrum vikum seinna. ,,Það var mér að kenna því mig langaði ekkert að hætta að drekka. Fyrr en þarna.”

Spurður að drykkjumynstri segist Sigurður aðallega hafa sullað í rauðvíni og bjór í  Frakklandi enda ekki mikið fyrir sterkt vín, allavega ekki hvað sem er. ,,Þegar ég kom aftur til Íslands áttaði ég mig á því að maður getur ekki fengið sér rauðvínsglas í miðri viku því þá er maður stimplaður alki en maður getur dottið í það um helgar, orðið sér til endalausrar skammar og lamið mann og annan, og allt er orðið fínt á mánudegi. Þetta er þjóðlegur siður. En ég gaf skít í hvort það var helgi eða ekki og var drekkandi alla daga. En ég mætti ekki fullur í vinnu eða slíkt.”

Hann hlær og segist hafa tekið þetta týpíska alkadæmi, ,,ég skilaði alltaf mínu” og aldrei lent í vandræðum. 

,,Mesti kosturinn við að búa á stað úti á landi, eins og Egilsstöðum, er að það þekkja mann allir. Versti ókosturinn er að þekkja mann allir. Það er ekki hægt að reka við án þess að allur bærinn frétti það. En ég geri kannski svolítið í því að vera áberandi.” 

Var orðin stereótýpa

Sigurður hafði verið greindur með geðhvarfasýki sem hann segir hiklaust hafa spilað inn í hvernig komið var fyrir honum. ,,Það var ákveðinn léttir að heyra að þetta væri ekki bara eitthvað sem ég væri að búa til. Ég var til dæmis í súrrandi maníu þegar ég var í barnaleikritinu og svaf ekki í nokkrar vikur.“

Sigurður var settur á lyf sem hann tók í nokkurn tíma. ,,En svo uppgötvaði ég að ég var orðinn stereótýpa af öllu sem ég þoldi ekki; leiðinlegur, venjulegur kall sem var sama um alla sköpun. Ég hætti að þola sjálfan mig og hætti því að taka lyfin. Þetta fer upp og niður en almennt líður mér betur og þetta hefur gengið vel.” 

Aðspurður hvernig tekist hafi að hjóla þó þetta áreynslulaust í gegnum lífið með áfengisfíkn og geðhvarfasýki segir Sigurður að sama hvað honum hafi liðið illa, alltaf hafi hann sett upp grímu. 

Baráttunni við geðhvarfasýki er þó aldrei lokið. 

Dýpið ekki gott

,,Ég er rólegur að eðlisfari og næ yfirleitt að komast yfir verstu bylgjurnar án þess að gera alla vitlausa í kringum mig. Og vegna þess að ég veit hvernig þetta virkar heldur maður áfram að keyra sig áfram því maður þorir ekki að lenda í dýpinu, það er ekki sérstaklega þægilegt,” segir Sigurður og þagnar augnablik. 

,,Mesti horrorinn er þegar að manían og þunglyndið blandast saman,” útskýrir hann svo. ,,Það er hryllileg tilvera að vera fastur í því. Þetta er misjafnt á milli fólks en í mínu tilfelli dembist yfir mig ægileg skömmustutilfinning og mér finnst allt sem fokkast upp í heiminum vera mér að kenna. Að vanlíðan allra sé af mínum völdum. Það er óþægilegt.” 

Sigurður ætlar að leita sér frekari hjálpar eftir jól en nú liggur þyngst á honum komandi heimilisleysi. ,,Ég er að missa húsnæðið og er á götunni, sem er ekki skemmtilegt. Ég er í fokking veseni, eins og maður segir á góðri íslensku.” 

Sigurður hefur í engin hús að venda.

,,Félagslega kerfið er í svelti og ræður ekki við að gera það sem það á að gera. Þeir geta ekkert gert, ég er á einhverjum biðlistum, en verð að finna mér einhverja holu að skríða inn í. Ég veit ekkert hvernig fer. Ekki fer ég að banka upp á hjá fólki, ég get ekki einu sinni búið með mér.” Sigurður hlær, segir lítið annað hægt í þessu bilaða kerfi okkar. 

,,En erum við ekki öll komin af biluðu fólki? Ingólfur Arnarsson hlýtur að hafa verið alvarlega skemmdur að velja sér þennan stað til að setjast að á.“

Fársjúkt samfélag

Spurður um skoðun sína á samfélaginu okkar er Sigurður fljótur til. ,,Samfélagið okkar er fársjúkt, það er eina orðið yfir það. Reykjavík er náttúrulega bara borg á gelgjuskeiði þar sem allt þarf að gerast strax, núna eða helst i gær. 

Svo get ég aldrei skilið af hverju Íslendingar kjósa aftur og aftur yfir sig stjórnvöld sem níðast á hinum fátæku og hygla hinum ríku. Sjáðu bara braggafólkið, þegar það loksins fékk að kjósa fór það í sparifötin, mætti á kjörstað og kaus Sjálfstæðisflokkinn!  Það er eitthvað að á Íslandi, sennilega er það þrælslundin gagnvart Dönum sem enn að flækjast í þjóðarsálinni og gerir okkur að samviskubitnum íhaldshjössum og vitlausum frjálshyggjudindlum. 

Stóra vandamálið við íslenska pólitík er skortur á framtíðarsýn því öll áherslan er á skyndilausnir.“ 

Aftur heim? 

Sigurður er samt bjartsýnn á unga fólkið og næstu kynslóð. ,,Ég hef verið svo lánsamur að vinna mikið með yngra fólki og bind vonir við það. Unga kynslóðin er mun opnari en hinar fyrri en vegna sjálfskipaðrar einangrunar Íslands fær æskan kannski ekki að njóta fleiri skoðana en þeirra sem eru til siðs á Íslandi.” 

Það er að skella á íslenskur vetur og Sigurður að missa húsnæðið. Af hverju ekki að pakka saman og fara ,,heim” til Frakklands? 

,,Ég spyr mig oft að þessu sjálfur. Kannski maður geri það bara. En fyrst þyrfti ég að finna mér góða konu sem er til í að fara með mér,” segir Sigurður Ingólfsson, lífskúnstner með meiru. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram