Bandaríski leikarinn Miles Teller segir frá því þegar hann braut reglur bresku konungsfjölskyldunnar. Hann viðurkenndi mistökin í spjallþætti Jimmy Fallon í gær.
Atvikið átti sér stað í London í maí síðastliðnum á heimsfrumsýningu Top Gun: Maverick. Hann segir að hann – og meðleikarar hans – hafi fengið „lista yfir það sem við máttum og máttum ekki gera“ þegar kæmi að því að hitta Vilhjálm Bretaprins og Katrínu hertogaynju.
„Það eru rosa margar kurteisisreglur og ég var með blað með þeim öllum svo ég myndi ekki fokka þessu upp,“ sagði hann við Fallon.
Þrátt fyrir útprentaða listann tókst Teller samt sem áður að gera það.
„Ég klúðraði þessu strax,“ viðurkenndi hann.
„Þú átt ekki að rétta fram hægri höndina nema [Vilhjálmur og Katrín] geri það fyrst. En ég fann orkuna þannig ég bara ákvað að láta til skarar skríða,“ sagði hann.
„Þau mega eiga það, þau eru mjög heillandi. Ég var týndur. Augu Vilhjálms… Katrín var falleg og hress, en Vilhjálmur… Ég veit ekki, ég datt út.“
Teller grínaðist með að hafa sjálfum tekist að heilla Vilhjálm upp úr skónum. „Ég held að hann sé lífstíðaraðdáandi núna. Ég var bara að svara í sömu mynt,“ sagði hann.
Horfðu á viðtalið hér að neðan.