fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Íturvaxnar línurnar kveiktu í náfölum Evrópumönnum – Átakanleg saga ,,Hottintotta Venusar“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 23. september 2022 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sarah Baartman var af ætt Khoisan fólks, fædd í Suður Afríku árið 1789, og nefnd Ssehura að því er talið. Foreldrar hennar létust þegar hún var ung og þegar að hollenskir nýlenduherrar réðust inn á lönd Khosain, var Ssehura ásamt fleiri löndum sínum, seld í þrældóm til Cape Town.

Varð hún eign Hollendings að nafni Pieter Willem Cezar og breytti sá nafni hennar í Saartjie.

,,Kynferðislegt furðuverk“

Ssehura vakti sérstaka athygli fyrir sitt einkennandi Khoisan útlit. Hún hafði hunangsbrúnan húðlit,  breiðar mjaðmir og afar stóran afturenda sem heillaði svo breskan skipslækni, William Dunlob að nafni, að hann keypti Ssehura af Cezar.

Fór hann með hana til London árið 1810, breytti nafni hennar í Sarah, og hóf sýningar á henni sem ,,kynferðislegu furðuverki.”  Svipuð örlög biðu fleiri Khosain kvenna en Sarah var fyrsta Khosain konan sem flutt var til Evrópu.

Nafnið Sarah er notað í því sem eftir er greinar enda það nafn sem hún lengst gekk undir.

Kveikti í náfölum Evrópubúum

Á þessum árum var litið á svart fólk sem óæðri kynstofn með minni greind en hvítir, villimenn sem ekki gætu hamið hvatir sínar. Sérstaklega kynhvötina. Og þótt það væri aldrei auglýst beinum orðum var Sarah kynnt sem dæmi um kynóða villikonu.

Og það kveikti aldeilis í náfölum Evrópubúunum sem höfðu stjórnlausan áhuga á framandi útliti Söruh.

Sarah var afar vel gefin. Hún talaði frönsku, hollensku og ensku reiprennandi og hafði afar gott minni, til að mynda gleymdi Sarah aldrei andliti né nafni.

Með rassinn á heilanum

En enginn hafði áhuga á greind Söruh. Hún var auglýst sem ,,Hottintotta Venus” og var almenningur heillaður af ávölum línum Söruh sem voru gjörólíkar líkömum evrópskra kvenna. Aðallega voru það þá karlmenn sem aldrei fengu nóg af því að góna og klípa í Söruh. Konur létu þó ekki sitt eftir liggja.

Á þessum árum voru afturendar mjög í tísku eins og sjá má.

Sarah var látin sitja hálfnakin í búri fyrir hvern þann sem greiddi einn skilding. Þeir sem voru tilbúnir að greiða meira fengu að snerta hana. Sérstaklega var sótt í að snerta hennar myndarlegu þjóhnappa enda rassar mjög i tísku á þessum árum og kjólar hannaðir sérstaklega til að ýkja afturenda kvenna.

Sarah Baartman var sýningargripur.

Almenningur fékk rassinn á Söruh hreinlega á heilann.

Þræll eða starfsmaður?

Þrælahald hafði verið afnumið í Bretlandi 1807 en læknirinn hélt því fram að Sarah væri ekki þræll heldur hefði hann gert samning við hana um að hún fengi hluta hagnaðarins og myndi snúa heim til Suður Afríku að fimm árum liðnum. Það verður að teljast vafasamt þar sem Sarah kunni hvorki að lesa né skrifa, fékk ekki krónu af ágóðanum og átti aldrei eftir að snúa heim. 

Eina fólkið sem stóð að baki Söruh var baráttufólk fyrir afnámi þrælahalds en það eyddi fjölda ára í að reyna að fá hana frelsaða. En það bar engan árangur.

Hryllingurinn í Frakklandi

Fjórum árum síðar fór Dunlob með Söruh til Parísar og endurtók leikinn. Gengu sýningur á henni þar framar öllum vonum læknisins sem græddi á tá og fingri

Á þessum árum voru afturendar mjög í tísku eins og sjá má.

Eftir nokkurn tíma í Frakklandi seldi Dunlob Söru til dýratemjara að nafni Jean Riaux og versnaði líf Söruh jafnvel enn frekar við söluna. Riaux kom frá við hana á sama hátt og dýr sín, öskraði á hana skipanir og flakkaði með hana um allt Frakkland sem sýningargrip. Stundum lét Riaux ól um háls Söruh og lét hana ganga í taumi á eftir sér á fjórum fótum. 

Riaux þáði einnig fé frá ,,vísindamönnum“ , skottulæknum og örugglega alls kyns brengluðum einstaklingum, sem greiddu vel fyrir að fá að ,,rannsaka” hennar kvenlegu líffæri. Það er óþarfi að fara nánar út hvað þeir ,,herramenn” lét Söruh ganga í gegnum.

Það er einnig talið að Riaux hafi neytt hana í vændi og svo fór að Sarah leitaði huggunar í áfengi.

Afsteypan af líki Söruh.

Niðurlæging í dauðanum

Sarah lést aðeins 26 ára að aldri. Talið er að hún hafði þá þjáðst af sýfilis, lungnabólgu og bólusótt auk þess að vera komin að fótum fram af alkóhólisma. 

En Sarah þurfti jafnvel að þola niðurlægingu í dauðanum. Gerð var afsteypa af líkama hennar auk þess sem heili hennar og kynfæri voru fjarlægð og sett í krukku. Afsteypan og krukkurnar vor u til sýnis á Musée de l’Homme í París allt til ársins 1974.

Strax á fimmta áratug síðustu aldar var farið að krefjast þess að líkamsleifum Söruh yrði skilað til Suður Afríku. Þegar að Nelson Mandela varð forseti árið 1994  fór hann opinberlega fram á við ríkisstjórn Frakklands um að Sarah færi heim. Frakkar voru þó ekki til í það og næstu átta árin þvældist málið á í kerfinu þar í landi. Það var ekki fyrr en árið 2002 að Frakkar loksins samþykktu að láta líkamsleifar Söruh að hendi.

Komin heim

Sarah var jörðuð rétt við fæðingarstað sinn þann 9. ágúst 2002, loksins komin heim, 192 árum eftir að hafa verið neydd frá heimalandi sínu.

Gröf Söruh Bartmann í Suður Afríku.

Minning Söruh Baartman lifir enn í Suður Afríku. Miðstöð til hjálpar þolendum heimilisofbeldis er skýrð eftir henni, stærsti samkomusalur háskólans í Cape Town ber hennar nafn svo og fyrsta skip Suðu Afríku sem sinnir umhverfisvernd á hafi úti. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 13 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?