fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar um Berlínarmúrinn: Fangelsisríkið

Eyjan
Mánudaginn 16. ágúst 2021 18:00

Frá falli múrsins árið 1989. Mynd: AFP

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Peter Fechter, 18 ára múrarasveinn í Austur-Berlín, yfirgaf íbúð foreldra sinna 17. ágúst 1962 og hélt að landamærasvæðinu við Zimmerstraße ásamt vinnufélaga sínum, Helmut Kulbeik. Þeir komust óséðir inn á trésmíðaverkstæði sem lá upp að múrnum sem skildi að borgarhlutana tvo. Eftir að hafa látið fyrirberast á verkstæðinu dágóða stund létu þeir loks til skarar skríða: Opnuðu glugga sem sneri út að bannsvæðinu og hlupu af stað út á tíu metra breitt landamærabeltið. Austur-þýskir landamæraverðir urðu þeirra varir og hófu skothríð. Kulbeik slapp undan kúlnahríðinni og tókst að klifra yfir múrinn en Fechter var hæfður í bakið og féll til jarðar. Þar lá hann í blóði sínu helsærður og kallaði á hjálp af veikum mætti. Enginn kom honum til aðstoðar. Hundruð vegfarenda, blaðamanna, ljósmyndara og hermanna Vesturveldanna urðu vitni að ódæðinu en þetta var rétt við helsta blaðamannahverfi Vestur-Berlínar. Austur-þýsku landamæraverðirnir létu Fechter blæða út en um klukkustund leið þar til þeir komu á vettvang.

Gríðarlegur flóttamannastraumur

Peter Fechter er einn hinna 136 sem drepnir voru á flótta yfir Berlínarmúrinn. Minningarathöfn var haldin um Fechter og önnur fórnarlömb kommúnistastjórnar Austur-Þýskalands á föstudaginn var þegar liðin voru 60 ár frá því að hafið var að reisa múrinn, eitthvert hið allra nöturlegasta minnismerki kommúnismans.

Langt fram eftir öldum voru borgir víggirtar með háum múrum til að verja þær fyrir innrásarherjum. Leifar slíkra borgarmúra má sjá hvarvetna í Evrópu. Múrinn sem stjórnvöld í Austur-Berlín hófu að reisa á mörkum borgarhlutanna 13. ágúst 1961 hafði þveröfugan tilgang — ætlunin var að koma í veg fyrir að íbúar „sæluríkis“ kommúnismans kæmust í burtu.

Í kjölfar síðari heimsstyrjaldar höfðu Vesturveldin og Sovétríkin skipt Þýskalandi upp í hernámssvæði og Berlín var skipt sérstaklega. Hernámssvæði Sovétmanna var alltumlykjandi Vestur-Berlín og þar var stofnað til leppríkis Moskvustjórnarinnar. Vesturhlutinn varð því vin hins frjálsa heims inni í miðju alræðisríki og ekki að undra að flóttamannastraumurinn væri mikill — allt að þúsund manns á dag.

„… barið höfðunum við múrsteininn“

Þjóðviljinn, málgagn Sósíalistaflokksins, varði byggingu múrsins og sagði hann reistan til að stöðva „svartamarkaðsbrask“. Tryggvi Sigurbjarnarson, námsmaður í Austur-Þýskalandi, ritaði í Þjóðviljann nokkrum dögum eftir að múrinn tók að rísa:

„Til að binda enda á hið svívirðilega svindlibrask að fullu og öllu, svo að ekki sé minnst á hina svívirðilegu njósna- og undirróðursstarfsemi, sem allir vita að rekin hefur verið frá Vestur-Berlín, var gripið til þess ráðs að setja upp gaddavír. Ráðstöfun þessari má líka við tvíbýli á bæ, þar sem annar bóndinn hefði haft fyrir sið að reka rollur sínar í tún hins, en sá síðan reist girðingu við túnmörkin. Þá myndi fara líkt og í Berlín: sá fénaður sem vanur er túnstöðunni mundi standa jarmandi við girðinguna í nokkra daga en bálreiður eigandinn steyta hnefann í átt til nábúa síns.“

Síðan var hæðst að Willy Brandt, borgarstjóra Vestur-Berlínar, sem hafði í ávarpi farið fram á að Vesturveldin skærust í leikinn og stöðvuðu byggingu múrsins. Annar námsmaður í Austur-Þýskalandi, Guðmundur Ágústsson, bætti um betur í grein sem birtist í Þjóðviljanum 2. september og sagði ræðu Willys Brandt aðalllega hafa verið „særingar, beiðsla um valdbeitingu gegn austrinu“. Guðmundur kvað mikinn meirihluta Austur-Þjóðverja styðja aðgerðirnar.

Áfram héldu íslenskir sósíalistar að bera í bætifláka fyrir kommúnismann og átta ungir sósíalistar sem sóttu „Heimsmót æskunnar“ í Austur-Berlín 1973 hældu stjórnvöldum kommúnistaríkisins á hvert reipi í skrifum hér heima. Ungur laganemi, Davíð Oddsson, gerði þetta að umtalsefni í grein í Morgunblaðinu í september sama ár:

„Fólk sem gengur um Austur-Berlín án þess að sjá múr og ræðir þar fjálglega um frelsið, án þess að minnast orði á áþján borgarbúanna sjálfra, hefur ekki aðeins stungið höfðinu í sandinn, það hefur barið höfðunum við múrsteininn.“

Múrinn og allir þeir saklausu borgarar sem voru skotnir í bakið á flótta frá kúgun til frelsis sögðu allt sem segja þurfti um kommúnistaríkin. Múrinn var næstu áratugina minnisvarði um það þjóðarfangelsi sem kommúnisminn hafði komið á fót og enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi.

Draumórahallir

Fyrir tveimur árum var ég gestur CDU, flokks Kristilegra demókrata, í Berlín en leiðsögumaður minn og einn framkvæmdastjóra flokksins var frá Austur-Berlín, maður á miðjum aldri. Hann ólst upp við þá hugsun að komast aldrei vestur yfir múrinn — að fá aldrei að sjá vestrið — en lifði sinn stærsta hamingjudag sem unglingur þegar múrinn féll og alræðisstjórnum kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu var steypt af stóli.

Fall Berlínarmúrsins er einn stærsti viðburður okkar samtímasögu og jafnframt sá gleðilegasti. Í kjölfarið varð til ný og sameinuð Evrópu. Og eftir því sem frá líður verður sífellt illskiljanlegra hversu margir Vesturlandabúar létu glepjast af áróðri kommúnismans og vörðu óhæfuverk alræðisstjórnanna.

Kjartan Ólafsson, sem áður var innanbúðarmaður í Sósíalistaflokknum, ritaði stórvirki um sögu flokksins og forvera hans sem út kom í fyrra. Í samtali við Egil Helgason sjónvarpsmann í apríl síðastliðnum sagði Kjartan það hafa verið grunnsforsendu marxismans að með réttlátum þjóðfélagsháttum væri hægt að gera mennina góða:

„Og menn hugsuðu sem svo: Ef búið er að útrýma arðráninu og stéttaandstæðunum þá verða allir góðir hver við annan. En það er nú einu sinni svo að mannskepnan er miklu flóknari en þetta, hún er hvort tveggja í senn góð og ill og þannig mun ætíð verða hvernig svo sem þjóðskipulagið kann að þróast. Þessu má ekki gleyma. Þess vegna voru þetta draumórar.“

Einn prófessora minna í sagnfræði við Háskóla Íslands minnti okkur stúdenta hans reglulega á að forðast spámenn sem boða einfaldar lausnir á flóknum veruleika. Þetta er þörf brýning. Mikilvægt er að halda sögunni til haga og minnast fórnarlamba alræðisstefna því eins og við sjáum í okkar samtíma er enginn hörgull á fólki sem lifir í heimi stórra kenninga, vill lítið sem ekkert kannast við mannleg takmörk og reisir sér draumórahallir. Fangelsisríki er veruleikinn sem kemur út úr slíkri hugmyndafræði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund