
Í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum hefur verið búinn til lóðaskortur og verð á lóðum þannig hækkað. Þetta, ásamt öðrum framleiðslukostnaði fer beint inn í húsnæðisverð. Ef vextir myndu lækka skart myndi það ekki auðvelda fyrstu kaupendum að komast inn á markaðinn vegna þess að húsnæðisverð myndi hækka á móti. Það er hins vegar mikilvægt að fólk eignist húsnæði og leggi fyrir séreignarsparnað vegna þess að það hefur mikil áhrif á kjör fólks í ellinni. Vilhjálmur Egilsson er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Ársafmæli ríkisstjórnarinnar. Hvernig hefur henni tekist til að þínu mati?
„Hún hefur fyrst og fremst verið að taka við þessu búi og stýra hlutunum svona í ljósi bara fjárlagafrumvarpsins sem að lá fyrir. Hún hefur ekki þurft að fara í gegnum svona stöðu sem myndast í kringum kjarasamninga eða slíkt þannig að hún hefur ekkert þurft að sýna í sjálfu sér á nein spil. En efnahagsástandið er bara mjög viðkvæmt, skulum við segja og verðbólgan hefur verið allt of mikil. Það sem að hefur keyrt verðbólguna áfram að mínu mati hafa verið þessar miklu launahækkanir, langt umfram það sem að svona maður var látinn skilja af þeim kjarasamningum sem voru gerðir.
Það er bara þannig að ef launin, ef tólf mánaða hlaupandi meðaltal aflaunavísitalan er að hækka á hverjum mánuði um kringum 0,6%, þá er það milli 7 og 8% á ári þá getur hver einasti maður sagt sér það; er eitthvað að gerast í íslensku hagkerfi sem að segir að kaupmáttur eigi að geta vaxið um einhver 7%?“
Nei, það er ekki sú framleiðniaukning eða neitt í gangi.
„Á öllu lengri tíma frá 1991, þá hefur launavísitalan eða kaupmáttur á grundvelli launavísitölunnar verið að hækka um 2% að meðaltali á ári. Sem er í rauninni mjög hátt og gífurlega mikill árangur í efnahagslífinu að ná slíkri kaupmáttaraukningu að meðaltali yfir þennan tíma sé og þarna og svo bara geturðu sagt þér að ef launin eru að hækka um milli sjö og átta, á endanum þá bara eltir hérna verðlagið þetta vegna þess að fólk er að eyða peningunum og það skapar eftirspurn eftir vöru og þjónustu. Þetta er flókið en útkoman er bara sú yfirleitt að verðbólgan verður einhvers staðar – fimm, plús mínus.
Og ég segi bara, meðan ég er að spá, þá segi ég bara: Hvernig þróast vinnumarkaðurinn og er þetta að gerast, að við sjáum launahækkanirnar fara að lækka, taktinn þar? Þá myndi ég sjá að verðbólgan fari að lækka en annars held ég að þetta verði svona bara á þessu róli sem þetta hefur verið, fjögur prósent plús.“
Svo er náttúrlega eitt sem margir hafa áhyggjur af, það er svo miklu dýrara fyrir okkur Íslendinga bara að koma okkur þaki yfir höfuðið en víðast hvar í kringum okkur. Nú er ég ekki að bera saman verð í stórborgum erlendis, af því að það er alltaf mjög hátt.
„Já, já, þú ferð bara erlendis og þú getur fundið hverfi og borgir þar sem að verðið er miklu hærra heldur en hér og svo alveg á hinn veginn.“
Fyrirsjáanleiki lántakenda er miklu meiri í nágrannalöndunum en hér. Tökum Danmörku sem dæmi sem er talin vera með eitt besta húsnæðiskerfi í heimi, ef ekki það besta. Þar ertu að taka lán til …
„Ég þekki það nú bara nokkuð vel. Sonur minn býr í Árósum og er með húsnæðislán …“
Væntanlega á föstum vöxtum út lánstímann.
„Já, og var heppinn reyndar þannig að ef hann ætlaði að endurfjármagna lánið núna, þá myndi hann fá borgað til baka heilmikið en það er nú annað mál. Þetta er auðvitað meiri fyrirsjáanleiki og meiri stöðugleiki og það allt saman. En mér finnst þetta samt bara ágætt.“
Þetta hefur áhrif á kjarasamninga á vinnumarkaði.
„Já, þetta er ekki stóra málið samt, vegna þess að ef að vextirnir lækkuðu, þá myndi bara íbúðaverðið hækka.“
Já, já það eru ekki bara vextirnir og lánaformið sem er vandamálið á íslenskum íbúðamarkaði.
„Nei, það sem er svona stóri þátturinn í þessu er í fyrsta lagi hvað það kostar að búa til, framleiða nýtt íbúðarhúsnæði. Það er svona kannski ráðandi þáttur og svo er þetta bara eftirspurnin og þegar þú ert með þjóð eins og okkur þar sem lífskjörin eru svona góð, Þá er það bara þannig að fólk hefur efni á því að borga fyrir húsnæðið. Það er alltaf bara þessi hópur sem að er að koma fyrst inn á markaðinn, er að kaupa sína fyrstu eign. Það er alltaf vandamál. Það er stórt vandamál og það vandamál er ekki bundið við Ísland.
Það er í Danmörku líka. Það er bara heilmikið mál að komast inn á húsnæðismarkaðinn þar í fyrsta sinn, fólk verður að hafa sterka atvinnusögu og tekjusögu og eiga eigið fé.“
Þar er náttúrlega húsnæðismarkaður verulega frábrugðinn vegna þess að þar er líka leigumarkaður, eigum við að segja, stöðugur leigumarkaður.
„Það er líka leigumarkaður hér og ég held að það sé allt í lagi með hann. En það skiptir rosalega miklu máli, segi ég, að fólk geti eignast eigið húsnæði. Maður tekur svo mikið eftir þessu, hvað munar miklu á afkomu eldri borgara, hvort þeir eiga skuldlausa eða skuldlitla eign eða ekki. Og hvort fólk hefur byggt upp séreignarsparnað eða ekki. Þetta eru þessir tveir þættir sem skipta máli. Og þess vegna skiptir svo miklu máli, segi ég, að fólk geti komist yfir eigið húsnæði og geti einhvern veginn bara byrjað snemma og það bara þarf að gera heilmikið, finnst mér, til þess að stuðla að þessu og það er auðvitað verið að því með ýmsum hætti, eins og með séreignarsparnað, ráðstafa honum inn á lánin. Það er bara skattfrjáls eignamyndun í húsnæðinu. Það eru mjög góð kjör.
Svo þarf líka bara að spá í framboðshliðina. Það er nú sérstaklega vandinn hérna í Reykjavík og að hluta til í nágrannasveitarfélögunum, það er búinn til einhvers konar lóðaskortur og það er verið að selja hérna landið svo dýrt, sem kemur síðan alltaf inn í eignaverðið, og framleiðslukostnaðurinn.
En svo er líka – hin hliðin á málinu er sú að þegar fólk er komið inn og á húsnæðið, þá vill það náttúrlega ekki sjá eignirnar sínar lækka í verði. Það vill heldur borga niður lánin og líka sjá fasteignaverðið fara frekar upp á við, allavega svona í takt við verðbólguna þannig að það sé ekki alltaf að horfa á eigið fé sitt brenna upp heldur hitt, að það vaxi.“