
Í færslu á Facebook rifjar Sigurður Gylfi Magnússon, PhD, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, upp Facebook-færslu sem hann birti 31. október 2024, nokkrum dögum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum er Donald Trump var kjörinn forseti öðru sinni. Hann veltir upp, í ljósi hótana Trumps um yfirtöku á Grænlandi, að líklegt sé að innrás í Grænland yrði stýrt frá aðstöðu Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli og varpar fram þeirri spurningu hvernig íslensk muni bregðast við og hvort við gætum sætt okkur við slíka stöðu. Sigurður Gylfi telur einsýnt að Ísland eigi, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, aðeins einn vin og það sé Evrópusambandið.
„Hinn 31. október 2024, rétt fyrir forsetakosningarnar í USA, skrifaði ég færslu hér á fésbókina þar sem ég ræddi alþjóðarmálin út frá hinu 800 blaðsíðna skjali Project 2025 sem ég þrælaði mér í gegnum. Eins og kunnugt er þá kannaðist Trump ekkert við þetta efni þegar hann var spurður í kosningabaráttunni út í tengsl sín við hópinn sem samdi það en annað kom á daginn eftir kosningarnar. Nú hefur komið í ljós að stór hluti þess sem þar kom fram hefur gengið eftir eins og dregið er fram í nýrri bók eftir bandaríska blaðamanninn David A. Graham, The Project: How Project 2025 is Reshaping America. Í þessum fésbókarpistli mínum spáði ég fyrir um framvindu mála hjá okkur Íslendingum ef Trump kæmist til valda og ég held að sú umræða sé umhugsunarverð eftir að rúmt ár er liðið frá kosningum í USA árið 2024. Ég set þær pælingar hér inn til umhugsunar. Ég held að íslensk stjórnvöld þurfi að bregðast hratt og örugglega við og þar sýnist mér, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að við eigum bara einn vin og það er Evrópusambandið.“
Þegar Sigurður Gylfi birti færslu sína á Facebook, 31. október 2024 voru fimm dagar þar til Bandaríkjamenn gengu að kjörborðinu og mánuður þar til við Íslendingar kusum til Alþingis. Færslan fer hér á eftir:
Hugleiðingar um alþjóðastjórnmál
Nú ganga Bandaríkjamenn til forsetakosninga eftir helgi. Ég hef fylgst með bandarískri pólitík frá því að ég flutti út sem námsmaður árið 1985 og allar götur síðan og það er óhætt að fullyrða að þessi barátta milli Trump og Harris sé engri annarri lík. Ég treysti mér ekki til að spá fyrir um úrslitin, þau munu liggja fyrir innan tíðar. Ef DT verður kjörinn næsti forseti Bandaríkjanna þá tel ég að tvennt muni gerast:
Í fyrsta lagi er hann líklegur til að nota Poject 2025 (Presidential Transition Project) sem leiðarvísi um valdið. Það og fleiri stefnumál hans (tollar á innfluttar vörur) eru líkleg til að einangra Bandaríkin töluvert frá öðrum lýðræðisþjóðum. Í öðru lagi mun afstaða hans og aðgerðir í tengslum við NATO gjörbreyta stöðunni í heimsmálunum, hvort sem Bandaríkjamenn muni annaðhvort draga sig út úr NATO (sem gæti orðið mjög snúið) eða einfaldlega lama bandalagið með aðgerðaleysi sínu og þverrandi stuðningi.
Spurningin er þá þessi: Hvað gera ríki Evrópu? Ég tel að við munum í það minnsta sjá tvenns konar viðbrögð frá okkar heimshluta:
A. Evrópusambandið mun þétta raðirnar og leggja höfuðáherslur á að efla samstarf á öllum sviðum – ekki bara hernaðarlega heldur einnig samvinnu sem snýr að viðskiptum og menningu.
B. Noregur verður mun líklegra til að ganga í Evrópusambandið; telja sig tæplega eiga annarra kosta völ, rétt eins og Finnar og Svíar töldu sig til knúna að ganga í NATO þegar Rússar hófu sitt valdabrölt í austrinu. Ég tel að þetta muni gerast nánast eins og hendi verði veifað ef Trump kemst til valda. Þetta mun setja verulegan þrýsting á breytta afstöðu Íslands í Evrópumálum sem munu, að mínu áliti, ekki eiga aðra kosti en að ganga um síðir í bandalagið.
Það verður fróðlegt að sjá hvort að kosningar í USA muni hafa áhrif á kosningabaráttuna á Íslands þær rúmu þrjá vikur sem eftir lifir af henni þegar bandaríska þjóðin hefur gengið að kjörborðinu. Hvernig munu íslenskir stjórnmálamenn bregðast við tíðindum úr Vesturheimi? Velti fyrir mér hvort að Evrópuumsókn Íslands muni komast óvænt á dagskrá á síðustu metrum kosningabaráttunnar hér á landi.