

Þrír hafa boðið sig fram í prófkjöri um sæti oddvita á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum. Einn þeirra er Vilhjálmur Árnason þingmaður og ritari flokksins. Annar mótframbjóðendanna, sem gegnir ekki jafn hárri stöðu í flokknum, gerir sérstaka athugasemd við framboð Vilhjálms og segir það ekki réttu leiðina til að styrkja stöðu flokksins.
Umræddur frambjóðandi er Ásgeir Elvar Garðarsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis, en auk hans og Vilhjálms býður Unnar Þór Sigurðsson skólastjóri sig fram.
Ásgeir hefur ekki tekið mikinn þátt í stjórnmálum hingað til en kona hans hefur verið varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ á þessu kjörtímabili.
Í pistli á Facebook um framboð Vilhjálms segir Ásgeir:
„Eins og ég sagði þegar ég tilkynnti um framboð mitt þann 22. desember þá boða ég nýja og breytta nálgun á stjórnmálin í Reykjanesbæ. Við rekum ekki bæjarfélag á pólitískum frösum.“
Hvaða frasa hann er að vísa í kemur ekki fram. Um ákvörðun Vilhjálms að taka slaginn segir Ásgeir:
„Því verð ég að segja hreinskilningslega að það kemur verulega á óvart og kemur öðrum frambjóðendum í leiðtogaprófkjörinu í flókna stöðu, að standa í framboði gegn ritara Sjálfstæðisflokksins og eina þingmanni okkar Suðurnesjamanna. Það er mín skoðun að leiðin áfram og upp á við sé ekki sú að veikja þingflokk Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Sérstaklega í þeirri ásýndarkrísu sem Sjálfstæðisflokkurinn er kominn.“
Ásgeir segir málið snúast um bæjarbúa en ekki flokkinn og hallað hafi undan fæti í bænum á þeim 12 árum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í minnihluta í bæjarstjórn. Leggur hann áherslu á að leiðin til að flokkurinn nái aftur völdum í bænum sé að fá ný andlit í forystuna:
„Ég hlakka til að eiga snarpa, skemmtilega og uppbyggjandi kosningabaráttu næstu vikurnar. Nýtt fólk til forystu.“
Í athugasemdum, sem þó eru ekki margar, er tekið undir með Ásgeiri um að Vilhjálmur eigi að halda sig við landsmálinn og veita nýjum manni pláss.