Samkeppniseftirlitið er enn við sama heygarðshornið og bregst ekki vondum málstað nú frekar en endranær. Í vikunni birti Samkeppniseftirlitið ákvörðun sína um að sekta Landsvirkjun um 1,4 milljarða. Hverjar voru Sakirnar? Jú, Landsvirkjun er sögð hafa selt rafmagn á of lágu verði til Landsnets sem sér um dreifingu til heimila og fyrirtækja í landinu.
Og hvernig var rafmagnið selt „of ódýrt“? Jú, Samkeppniseftirlitið finnur að því að verðið frá Landsvirkjun hafi verið svo lágt að milliliðum á rafsölumarkaði hafi verið gert ókleift að bjóða lægra en Landsvirkjun í útboðum Landsnets.
Með öðrum orðum þá var glæpur Landsvirkjunar sá að koma í veg fyrir að milliliðirnir, óþarfir milliliðir, gætu hagnast á því að selja raforku á hærra verði en Landsvirkjun selur sína raforku. Sem sagt, fyrir Samkeppniseftirlitið skiptir öllu máli að fyrirtæki sem enga raforku framleiða, gera í raun ekkert annað en að kaupa og selja rafmagnið sem aðrir framleiða – dæmigerðir heildsalar – geti hagnast á kostnað heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.
Til að komast að þessari niðurstöðu þurfti Samkeppniseftirlitið að leggja sérstaka lykkju á leið sína og skilgreina nýjan „markað“ sem hingað til hefur ekki verið til. Svarthöfði man eftir fleiri tilfellum þar sem Samkeppniseftirlitið skilgreinir samkeppnismarkaði allt of þröngt, einatt til að skara eld að köku ósamkeppnishæfra eða óþarfra fyrirtækja á kostnað neytenda – heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.
Hér á landi ríkir ófremdarástand í raforkumálum bæði vegna þess að fyrrverandi ríkisstjórn lét reka á reiðanum varðandi nauðsynlegar virkjanaframkvæmdir en einnig vegna þess að hvergi er í lögum tryggt nægt framboð raforku til að uppfylla þarfir íslenskra heimila. Landsvirkjun hefur tekið að sér það samfélagslega hlutverk sem löggjafinn klúðraði að skylda alla raforkuframleiðendur til að gegna.
Það var svo til að bíta hausinn af skömminni að forstjóri Samkeppniseftirlitsins skyldi koma fram í fjölmiðlum og lýsa því digurbarkalega yfir að sektin væri svona há vegna þess að stjórnendur Landsvirkjunar hefðu vitandi vits brotið samkeppnislög með þessari sölu til Landsnets. Svarthöfði er ekki alveg að ná því hvernig hægt er vísvitandi að brjóta samkeppnislög á markaði sem ekki er til og er ekki skilgreindur fyrr en mörgum árum síðar.
Þegar tilkynningin um sektina birtist og furðulegar yfirlýsingar forstjóra Samkeppniseftirlitsins, varð Svarthöfða hugsað til þess að þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem Samkeppniseftirlitið teygir sig allt of langt í að skilgreina brot á samkeppnislögum og fullyrða um ásetning þeirra sem í hlut eiga.
Svarthöfða er í fersku minni þegar mikill fjöldi starfsmanna BYKO og Húsasmiðjunnar fékk stöðu sakbornings við rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintum brotum á byggingavörumarkaði. Í hópi þeirra sem fengu stöðu sakbornings og voru kallaðir í langar og strangar yfirheyrslur voru mjög margir starfsmenn á gólfi, sem engin áhrif hafa á ákvarðanatöku í fyrirtækjunum. Sumarstarfsmenn voru settir í þessa stöðu. Rannsóknin tók mörg ár og allan tímann var blásaklaust fólk með stöðu sakbornings.
Rannsóknin á meintu samráði skipafélaganna var svo hreinn farsi. Þar voru helstu rökin fyrir samráði þau að forstjórar Eimskipa og Samskipa hefðu tekið þátt í sama firmagolfmóti. Þar voru reyndar allir helstu forstjórar landsins samankomnir og tóku þátt í mótinu. Þá höfðu forstjórarnir líka farið í sendinefnd með forseta Íslands í opinbera heimsókn til útlanda, líkt og 30 aðrir forstjórar. Þetta var hin rjúkandi byssa sem Samkeppniseftirlitið taldi sig hafa.
Þegar fyrirtæki sæta rannsókn af hálfu Samkeppniseftirlitsins felur það í sér gríðarlegan kostnað fyrir viðkomandi fyrirtæki. Kaupa þarf dýra lögfræðiþjónustu og aðra sérfræðiþjónustu og kostnaður getur hlaupið á tugum og hundruðum milljóna, auk þess sem mjög þungbært er fyrir fyrirtæki að hafa á sér þann stimpil að rannsókn sé í gangi á meintum brotum. Þegar nýir eigendur komu að Eimskip tóku þeir þá ákvörðun að ljúka málinu með sátt við Samkeppniseftirlitið. Sáttin fól í sér að þeir játuðu samkeppnisbrot og greiddu sekt, vægari sekt en ella vegna játningarinnar. Þetta var viðskiptaleg ákvörðun nýrra eigenda sem sagði ekkert til um það hvort einhver fótur væri fyrir ásökunum um brot á samkeppnislögum.
Svarthöfði man líka þegar Samkeppniseftirlitið bannaði verðmerkingar sem gerðar voru hjá framleiðanda á einstökum kjötvörum fyrir stórmarkaði. Síðan þá kemur verðið honum alltaf á óvart við kassann. Yfirleitt óþægilega á óvart.
Svarthöfði telur að í ljósi alls ofangreinds sé full ástæða til að fara rækilega yfir starfshætti Samkeppniseftirlitsins. Það skiptir nefnilega máli hvernig eftirlitsmennirnir vinna. Hver fylgist með þeim? Er einhver að fylgjast með þeim? Allra stærstu fyrirtæki landsins hafa burði til að verja sig gegn ásökunum Samkeppniseftirlitsins en aðeins þau allra stærstu. Aðrir eiga engan kost annan en að semja og játa eða leggja upp laupana.
Svarthöfði man ekki betur en að búið sé að afnema æviráðningu embættismanna. Samt hafa forstjóri og aðstoðarforstjóri samkeppniseftirlitsins setið í sínum embættum lengur en jafnvel elstu menn muna. Af hverju var verið að afnema æviráðninguna ef stjórnendur mikilvægra eftirlitsstofnana verða svo steinrunnir af þaulsetu í sínum stólum?