Ásýnd íslenskra stjórnmála er gjörbreytt eftir síðustu kosningar og átakalínur hafa breyst. Horfnir eru af sviðinu flokkar og nýir búnir að festa sig í sessi. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa aldrei fengið jafn lélega kosningu og í síðustu kosningum. Þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu bera ábyrgð á því að koma fram með þeim hætti að virðing Alþingis aukist en fólki blöskraði hvernig fjórar vinnuvikur voru teknar í umræðu um veiðigjöldin. Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan Sigmar Gudmundsson 6
„Þetta er engin hemja, Ólafur, þetta eru fjórar vinnuvikur. Það er verið að tala í veiðigjöldunum fjórar heilar vinnuvikur. Þetta tíðkast ekkert í löndunum í kringum okkur. Þetta er ekki gott. Mér er reyndar sagt að það hafi alltaf verið þannig að einhvern veginn hafa menn ekki viljað breyta þingsköpunum mikið vegna þess að menn eru alltaf hræddir um að vera í stjórnarandstöðu einhvern tíma síðan og vera þá búnir að semja frá sér einhver vopn. En þetta snýst auðvitað ekkert bara um það. Úr því að þetta er hægt í löndunum í kringum okkur þá er þetta vel hægt hér,“ segir Sigmar.
Já, og þetta er bara skynsamlegt. Það er gott að hafa skynsamlegar leikreglur og við getum alveg, einmitt eins og þú bendir á, horft til þjóðþinganna í kringum okkur þar sem hlutirnir ganga betur fyrir sig. Það er ekkert við þá einstaklinga sem að sitja á þingi á Íslandi, þetta er ekkert síðra fólk en situr á þingi annars staðar. Það er regluverkið, það er umgjörðin sem síðri.
„Og kannski bara einhver svona átakahefð í pólitíkinni sem að teygir sig langt aftur í tímann sem kannski flækist fyrir okkur í þessu. Það hafa orðið rosalega miklar breytingar í pólitíkinni. Þetta er auðvitað að gerast á meðan við erum að lifa þetta, þegar það verður komin aðeins meiri fjarlægð á þetta, þú veist, það komu nýir flokkar sem hafa fest sig í sessi og vægið á milli flokka er allt annað. Sjálfstæðisflokkurinn var náttúrlega alltaf með höfuð og herðar yfir aðra flokka, var bara í annarri deild. Það var bara algengt að hann fengi þrjátíu og fimm, þrjátíu og átta prósent fylgi. Framsókn var iðulega stundum yfir tuttugu prósent.“
Ég man eftir kosningu þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fór í fjörutíu og tvö prósent.
„Já, já. VG varð til og svo allt í einu ekki til og Píratar komu og Píratar fóru. Svo á örugglega eftir að verða einhver gerjun, ég ímynda mér það að það verði einhver gerjun þarna á vinstri vængnum og það komi eitthvað fram þar. Ég ímynda mér að það hljóti eiginlega, hvort það gerist fyrir sveitarstjórnarkosningarnar eða bara fyrir næstu þingkosningar, veit ég ekki,“ segir Sigmar.
Það er erfitt að segja, en svo finnst manni maður skynja það að átakalínurnar hafi líka breyst. Íslenska flokkakerfið, það var nátengt kalda stríðinu. Það voru annars vegar lýðræðisflokkarnir sem var talað um, Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Alþýðuflokkur og svo var það Sósíalistaflokkurinn og seinna Alþýðubandalagið sem að var hinum megin. Þetta er orðið dálítið öðruvísi, þá var hugsað mikið hægri til vinstri. Það er kannski ekkert rétt í dag að hugsa eftir hægri til vinstri. Þetta snýst líka um íhaldssemi og frjálslyndi.
„Já, já, það er það er alveg rétt og nú eru menn farnir að mæla auðvitað á þessu tveimur ásum getum við sagt. Maður veltir fyrir sér, erum við búin að átta okkur almennilega á því hvað til dæmis bara samfélagsmiðlar og þessi breytta miðlun, hvað hún hefur mikil áhrif á pólitíkina? Stjórnmálabaráttan fer fram núna á samfélagsmiðlum en ekki á fundum eins mikið, svona í beinum snertingum þótt flokkar geri náttúrlega mikið af því í aðdraganda kosninga að reyna að hitta fólk og annað. Þetta er bara öðruvísi. Maður ímyndar sér að þetta geri það að verkum að það sé bara hreinlega auðveldara að búa til einhverjar svona fjöldahreyfingar í gegnum samfélagsmiðla. Það er líka þannig og maður sér það á öllum svona greiningum að það á enginn flokkur neitt lengur. Það er ekkert einhver risastabbi sem menn bara geta gengið að og það sé bara öruggt að fólki skili sér að lokum í hús á kjördag þótt menn séu eitthvað óánægðir í aðdraganda kosninganna,“ segir Sigmar.
Svona aðeins í lokin, þingið sem kemur saman 9. september, verður þetta ekki átakaþing?
„Já, það er búið að hóta því. Það liggur í loftinu. Mér fannst Þorgerður orða þetta bara ágætlega skynsamlega hérna um daginn: Þegar rykið sest, þá er það hlutverk okkar allra sem sitjum á Alþingi að reyna hérna koma þannig fram í þinginu, og ég er að tala bæði til okkar í stjórnarmeirihlutanum og til stjórnarandstöðunnar, að virðingin fyrir þinginu i aukist.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.