fbpx
Mánudagur 21.júlí 2025
Eyjan

Segir hagsmunaskráningu þingmanna gagnslausa í núverandi mynd – „Eins og þeim finnist siðferðisleg viðmið óþörf“

Eyjan
Mánudaginn 21. júlí 2025 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus í íslensku við Háskóla Íslands segir ljóst að hagsmunaskráning alþingismanna í núverandi mynd sé gagnslaus meðal annars af því að reglur um hana nái ekki til óbeins eignarhalds og að þingmenn hafi, samkvæmt reglunum, að miklu leyti sjálfdæmi um aðkomu sína að þingmálum sem tengjast þeirra persónulegum hagsmunum. Stjórnsýslufræðingur bendir á að þingmenn hafi allt frá endurreisn Alþingis 1845 hvorki starfað né viljað starfa undir hæfisreglum.

Eiríkur fjallar um málið í facebook-færslu í tilefni af opinberun DV á þeim fjárhagslegu hagsmunum sem Jón Pétur Zimsen þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur að gæta í málum sem varða málefni sjávarútvegsins en hann á hlut í þremur einkahlutfélögum sem eiga meðal annars hlutabréf í þó nokkrum fyrirtækjum sem starfa í sjávarútvegi eða greinum honum tengdum. Var Jón Pétur meðal þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem gagnrýndu frumvarp atvinnuvegaráðherra, sem nú er orðið að lögum, um hækkun veiðigjalds hvað harðast.

Orðið á götunni: Þingmaður Sjálfstæðisflokksins erfingi milljarða og lítur niður á þá sem minna eiga

Í hagsmunaskráningu Jóns Péturs á vef Alþingis er getið um þessa eign hans í einkahlutafélögunum þremur en ekkert kemur fram um eignir félaganna.

Tilgangur

Eiríkur segir ljóst að hagsmunaskráning þingmanna þjóni ekki tilgangi sínum þegar um sé að ræða óbeint eignarhald:

„Samkvæmt hagsmunaskrá Jóns, sem ég hef enga ástæðu til að ætla annað en sé samviskusamlega fyllt út, á hann 41,1% hlut í Jöká ehf, 55% hlut í Alnitak ehf og 15% hlut í RZ ehf. Þetta segir almennum kjósendum vitaskuld ekki neitt – nánast engar líkur eru á að þeir hafi heyrt þessi félög nefnd, hvað þá að þeir viti hvað þau gera eða hvað þau eiga. Annar þingmaður sem var mjög áberandi í veiðigjaldaumræðunni, Jens Garðar Helgason, á samkvæmt hagsmunaskránni hluti í Kaganesi ehf, Irminger Holding ehf og Leviosa ehf. Þessi félög eru ekki heldur sérlega þekkt – og þarna kemur hvergi fram að börn Jens eigi mikilla hagsmuna að gæta í sjávarútvegsfyrirtækjum.“

Eiríki verður einnig tíðrætt um að þingmenn hafi, samkvæmt reglum um hagsmunaskráningu, sjálfdæmi um að segja sig frá málum sem tengjast þeirra persónulegu hagsmunum. Hann segir að þau ákvæði dugi hins vegar ekki til:

„Í reglum Alþingis um hagsmunaskráningu segir einnig: „Það er ein af grundvallarreglum í stjórnmálum lýðræðisríkja að þingmenn taki ákvarðanir um hvaða hagsmuni á að taka fram yfir aðra. Séu þeir tengdir þeim persónulega er þeim í sjálfsvald sett að segja sig frá máli. Það er þeirra ákvörðun og á þeirra ábyrgð.“ Ég fæ ekki betur séð en sumir þingmenn túlki þetta svo að úr því að lög og reglur banni þeim ekki að taka þátt í umræðu og atkvæðagreiðslu um mál þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta þá sé ekkert athugavert við – og raunar sjálfsagt – að þeir geri það. Það er eins og þeim finnist siðferðisleg viðmið óþörf eða ekki eiga við.“

Siðareglur

Í kjölfar færslu Eiríks tók Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur málið upp á sinni Facebook-síðu. Minnir Haukur á að siðareglur fyrir alþingismenn hafi verið settar 2016. Allir íbúar landsins geti kært meint brot þingmanna á siðareglum til forsætisnefndar þingsins og einnig starfi ráðgefandi siðanefnd. Sjálfur hafi hann kært aðkomu Þórarins Inga Péturssonar þingmanns Framsóknarflokksins að setningu búvörulaga vegna hagsmunatengsla þingmannsins. Málið hafi verið á endanum fellt niður og ekki vísað til ráðgefandi siðanefndar en hefði það verið gert segir Haukur að líklegar afleiðingar hefðu verið eitthvað sem þingmenn hefðu átt bágt með að sætta sig við. Hann segir að í ljósi þess hefðu kærur á hendur Jóni Pétri Zimsen og Jens Garðari Helgasyni til forsætisnefndar líklega farið sömu leið og kæran á hendur Þórarni enda þingmenn alltaf sett sig upp á móti hæfisreglum:

„Þá hefði hún orðið að leggja fram einhverjar viðmiðanir um hagsmunatengsl. Hvenær hindra hagsmunatengsl þingmenn í að fjalla um eða leiða mál í gegnum þingið (umræður, nefndarseta eða formennska í nefnd geta skipt máli)? Siðareglurnar fyrir alþingismenn eru mjög strangar í þessu efni, þ.e. þær taka fast á hagsmunatengslum. Með úrskurði ráðgefandi siðanefndar kæmi fram hæfisregla – eitthvað sem þingmenn vilja ekki starfa undir og hafa ekki starfað undir frá 1845. Það að Jón Pétur Zimsen og Jens Garðar Helgason hafa tekið þátt í umræðum um mál sem varðar hag þeirra miklu og þeirra nánustu fjölskyldu – er því ekki líklegt að rynni til ráðgefandi siðanefndar. Þótt einhver kynnu að vilja kæra málið, sem auðvitað er sjálfsagt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?