fbpx
Þriðjudagur 01.júlí 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Fá milljarð gefins á ári en greiða 282 milljónir í veiðigjöld

Eyjan
Þriðjudaginn 1. júlí 2025 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að eftirtektarvert sé hversu mjög þingmenn stjórnarandstöðunnar bera hag íbúa sjávarplássa landsins fyrir brjósti. Vissu menn ekki betur gætu þeir haldið að eitthvað héngi á spýtunni hjá þeim þingmönnum sem helst beita sér í málþófinu gegn leiðréttingu veiðigjalda.

Eskja Holding er að uppistöðu í eigu tveggja einstaklinga, hjónanna Þorsteins Kristjánssonar og Bjarkar Aðalsteinsdóttir, dóttur Aðalsteins Jónssonar, sem kallaður var Alli ríki . Stjórnarformaður Eskju er dóttir hjónanna, Erna Þorsteinsdóttir, fyrrverandi eiginkona Jens Garðars Helgasonar. Börn þeirra eru því á meðal erfingja Eskju.

Samstæðan velti 15,3 milljörðum króna í fyrra og rekstrarhagnaður var 4,4 milljarðar króna. Hreinn hagnaður ársins eftir skatta og gjöld var þrír milljarðar og eigendur fengu 1,2 milljarða króna í arð, þrátt fyrir að engar loðnuveiðar hefðu átt sér stað árið 2024.

Félagið hagnaðist líka um þrjá milljarða króna árið 2023 en borgaði þá 1,9 milljarða króna í arð, þegar það veiddi umtalsvert magn af loðnu. Þrátt fyrir ríkulegar arðgreiðslur á liðnum árum er eigið fé Eskju Holding 26 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 66 prósent.

Eskja Holding greiddi 282 milljónir í veiðigjöld í fyrra, eða um 6,4 prósent af rekstrarhagnaði. Samstæðan lét líka til sín taka í samfélagsmálum og greiddi heilar 27,4 milljónir króna í samfélagsstyrki, eða um 0,6 prósent af rekstrarhagnaði og 2,3 prósent af arðgreiðslunni sem fór til eigenda. Þar af fóru 2,3 milljónir króna í stjórnmálaflokka.

Eskja Holding-samstæðan gerir út tvö skip og einn bát, auk þess að reka fiskimjölsverksmiðju og uppsjávarvinnslu.

Á árinu 2023 var Eskju hf. skipt upp í annars vegar rekstrarfélag uppsjávarfisks og hins vegar rekstrarfélag bolfisks og var skiptingin miðuð við 1. janúar 2023. Við skiptinguna rann hluti eigna, skulda og eigin fjár Eskju hf. inn í Eskju Bolfisk ehf. Samhliða því skipti félagið um nafn, var áður Eiður Ólafsson ehf.

Í lok árs 2023 átti Eskja Bolfiskur kvóta sem metinn er á 5,6 milljarða króna í bókum félagsins. Um bolfiskskvóta er að ræða og þar munar langmestu um rúmlega 2.700 tonna þorskkvóta. Allt í allt á félagið fjögur þúsund tonna aflaheimildir. Eskja Bolfiskur veiðir ekki þennan kvóta heldur leigir hann út, og hefur gert slíkt í mörg ár. Það skilaði félaginu alls tekjum upp á 1.019 milljónir króna á árinu 2023. Hagnaður fyrir skatta var 963 milljónir króna sem þýðir að rekstrarhagnaðarhlutfall Eskju Bolfisks var tæplega 95 prósent.

Tveir unnu hjá Eskju Bolfiski árið 2023 og rekstrargjöld útgerðar voru einungis 42 milljónir króna. Launagreiðslur voru 33,4 milljónir króna, sem þýðir að hvor starfsmaður var með um 1,4 milljónir króna í mánaðarlaun að meðaltali.

Orðið á götunni er að í ljósi gríðarlegra hagsmuna erfingja kvótans á Eskifirði blasi við að þegar Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði það úr ræðustól Alþingis vera „heilaga skyldu“ sína að stöðva veiðigjaldafrumvarpið hafi hann verið fyrst og fremst að tala um skyldur sínar sem faðir kvótaerfingja en ekki skyldur þingmanns við þjóðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Bygging á Orkureitnum fær Svansvottun 4 fyrst allra húsa á Norðurlöndunum

Bygging á Orkureitnum fær Svansvottun 4 fyrst allra húsa á Norðurlöndunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Nýtt kaupaukakerfi í Íslandsbanka ofan á 12 prósenta kauphækkun stjórnenda

Orðið á götunni: Nýtt kaupaukakerfi í Íslandsbanka ofan á 12 prósenta kauphækkun stjórnenda
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Skotin ganga á víxl á Alþingi – Stjórnarandstaðan móðguð út í Ingu og Kristrúnu

Skotin ganga á víxl á Alþingi – Stjórnarandstaðan móðguð út í Ingu og Kristrúnu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar