fbpx
Sunnudagur 04.maí 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hér vantar óperu

Eyjan
Sunnudaginn 4. maí 2025 18:00

Leikið á tvíflautu, önnur var karlmannleg bassaflauta, hin kvenleg háraddaflauta. Mynd frá fimmtu öld fyrir Krists burð. Varðveitt á Louvre-safni í París.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég hef setið á síðkvöldum undanfarið og lesið Ilíonskviðu staldra ég ítrekað við lýsingar í ætt við þessa hérna:

„Svo sem þá er maður tengir saman krúnubreiða uxa til að láta þá þreskja hvítt bygg á vel settum þreskivelli, og smækka byggkornin skjótt undir klaufum hinna hábaulandi nauta: svo tróðu hinir einhæfðu hestar hins hugstóra Akkils jafnt mannabúka og skjöldu, en allur hjólásinn undir kerrunni varð blóði drifinn.“

Hryllingi Trójustríðsins er líkt við ró og fegurð friðsællar sveitar. Þarna birtist lesandanum mögnuð tign og yfirvegun mitt í darraðardansinum. Önnur líking hljóðar svo: „Svo sem stórflokkar áfjáðra mýflugna sveima í kring á kvíabóli um vortíma, þegar mjólkin fyllir skjóðurnar: svo stóðu margir hárprúðir Akkear á vellinum til móts við Trójumenn.“

Þetta minnir mig á lýsingu Njálu á bardaganum á alþingi sem er kannski stórkostlegasta sýning sem nokkur íslenskur höfundur hefur sett á svið. Þjóðin er í hlutverki leikara og sviðið helgistaður kynslóðanna. Tekist er á um sæmd og vansæmd, réttlæti og ranglæti, líf og dauða. En líkt og hjá Hómer er tign og ró söguritara óhagganleg — sér í lagi þegar baráttan er sem hörðust. Hvergi örlar á vanstillingu.

Spennan í aðdraganda bardagans er áþreifanleg: verður málinu bjargað eða ónýtist það? Áheyrandinn finnur á sér að gripið verður til vopna. Sjálfur lagamaðurinn Þórhallur Ásgrímsson Elliða-Grímssonar snarast sjúkur út í bardagann. Við sjáum af þessu að þegar lagaviskunni þrýtur er gripið til vopna. Ef til vill er umfjöllunarefni þessara tveggja skálda, Hómers og höfundar Njálu, eitt og sama: hið stríðandi líf um allan aldur.

Óperan á eldfornar rætur

Líkindin eru fleiri. Hómer yrkir sín kvæði fyrir ritöld og viðburðir Íslendingasagna eiga sér stað öldum áður en frásagnirnar voru færðar í letur. Sagnir taka breytingum á svo löngum tíma og með framþróun menningar og listar verða slíkar fornsögur sífellt fágaðri. Ritarinn ljær þó sögunum málblæ og önnur einkenni sem hann telur hæfa fornum tíma, en við vitum að höfundur Njálu hefur haft gamla lagaskrá við höndina til að setja sig sem mest inn í hinn horfna heim.

Heillegastar varðveitast sögur í bundnu máli en kvæðamenn fága líka efnið vitandi og óvitandi. Lýrískur skáldskapur fornaldarinnar var kallaður svo því undir var leikið á lýru ellegar hörpu eða flautu. Við þekkjum hirðskáldin íslensku sem kveða konungum drápur en í Grikklandi hinu forna fluttu skáldin höfðingjum líka söguljóð um hetjudáðir fornkappa. Kvæðamennirnir grísku voru nefndir rhapsodoi en það er samsett orð úr raptein sem merkir að þræða saman og oide sem er söngur.

Þar sem vestræn menning kviknar og nær hæstum hæðum í fornöldinni er hljómlistin þungamiðja og sér í lagi kórsöngurinn. Hann var í upphafi tengdur trúariðkun en verður aflgjafi veraldlegra leiksýninga síðar. Þegar óperuform nútímans sprettur fram í lok sextándu aldar suður í Flórens töldu menn sig vera að endurgera forngrískt listform, þar sem leiklistin væri fléttuð saman við söng, fluttum af kór og einsöngvurum á víxl. Einn þessara manna var fjölfræðingurinn Vincenzo Galilei, faðir stjörnufræðingsins Galileo, en hann hafði fundið forngrísk nótnahandrit. Og þar sem hinar fyrstu óperur spruttu upp úr fornmenntastefnunni var ekki að undra að yrkisefnin væru gjarnan forngrísk.

Í óperunni eru nokkur listform fléttuð saman, einsöngur, kórsöngur, hljóðfærasláttur, leiklist og dans svo úr verður ein listræn heild, gjarnan með íburðarmikilli leikmynd og öðrum leiksviðstöfrum. Þegar best tekst til má spyrja hvort mannsandinn fái risið öllu hærra. Það er því aðalsmerki hvers vestræns samfélags að eiga sér óperu; og um leið mikilvægur þáttur í sjálfsmynd fullvalda ríkis. Ég ætla því að kalla það menningarlegt hnignunarmerki að nú sé hér engin starfandi ópera.

Að dafna sem íslenskt listform

Við stofnun Þjóðleikhússins skyldi leiklist, sönglist og danslist gert jafnhátt undir höfði og þar voru reglulega fluttar perlur óperubókmenntanna uns Íslenska óperan var stofnuð árið 1980, en hún stóð í fjóra áratugi fyrir metnaðarfullri óperustarfsemi. Ég sé á vef Alþingis að frumvarp til laga um stofnun óperu við Þjóðleikhúsið liggur enn í nefnd. Óskandi væri að hreyfing kæmist á málið svo óperan fái dafnað hér, að íslenskir söngvarar öðlist tækifæri til starfsframa við innlent óperuhús og að landsmenn fái notið þessa stórkostlega listforms.

Blómlegt óperulíf gæti líka orðið aflgjafi annarrar innlendrar listsköpunar — að íslenskum listamönnum tækist að spegla okkar eigin sögu og menningu á óperusviðinu. Að við fengjum betur skilið hverjir við erum. Nægur er efniviðurinn úr okkar forna sagnabrunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Mesta lýðræðisógn okkar tíma

Sigmundur Ernir skrifar: Mesta lýðræðisógn okkar tíma
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Egill afi og Grettir taka stúdentinn

Óttar Guðmundsson skrifar: Egill afi og Grettir taka stúdentinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kaldalóns

Óttar Guðmundsson skrifar: Kaldalóns
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður
EyjanFastir pennar
04.04.2025

Steinunn Ólína skrifar: Bensínstöðin sólin

Steinunn Ólína skrifar: Bensínstöðin sólin
EyjanFastir pennar
29.03.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu
EyjanFastir pennar
29.03.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Gísli, Eiríkur og Helgi

Óttar Guðmundsson skrifar: Gísli, Eiríkur og Helgi