Umræðan um ástand þingmanna við þingstörf hefur ekki farið fram hjá Svarthöfða á liðnum dögum. Einhverjir fjölmiðlar hafa velt því fyrir sér hvort Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi tilvonandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi verið aðframkomin af þreytu er hún brá sér í ræðustól þingsins á þriðjudagskvöld, að því er virðist samkvæmt liðsfyrirmælum til þingmanna Sjálfstæðisflokksins að eyða sem mestum tíma í kjaftaði um tittlingaskít til að tefja framgang þingmála.
Einhverjir velta því fyrir sér hvort hún hafi einfaldlega verið slompuð þarna í ræðustólnum, en fyrr um daginn hafði hún í tvígang birt myndir af sér á samfélagsmiðlum með glas á fæti í sólskininu sem ljómaði um bæinn þann dag.
Sumum finnst það ljóður á ráði þingmanna að sitja með glas í hendi úti í bæ þegar þeir eiga að sitja í þingsal að vinna vinnuna sína. Slíkt athæfi getur haft afleiðingar. Skemmst er að minnast þess er nokkrir þingmenn sátu að sumbli á Klausturbar og ræddu álit sitt á nafngreindu kvenfólki við hliðina á borði Báru.
Svarthöfði verður samt að viðurkenna að hann hefur vissa samúð með þingmönnum sem freistast til að fara út í góða veðrið og fá sér í svo sem aðra tána milli þess sem þeir stunda málþóf í þingsal og veltir því fyrir sér hvort ekki sé til einhver lausn á þessu máli.
Ekki verður betur séð en að stjórnarandstaðan með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar ætli sér að beita málþófi í öllum málum sem koma á dagskrá þingsins. Með þessu áframhaldi verður þingið að sitja í allt sumar ef takast á að afgreiða þau mál sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að samþykkja þurfi.
Svarthöfði veltir því fyrir sér hvort forseti þingsins verði ekki einfaldlega að koma til mótsvið málþófsdrykkjurútana á þingi og hugsa þá aðeins út fyrir boxið. Er ekki bara hægt að flytja þingfundina út úr húsi? Ef góða veðrið kemur aftur, eins og við vonum öll nema ferðaskrifstofurnar sem eru að selja sólarlandaferðir, væri t.d. alveg upplagt að halda bara þingfundi í Jómfrúarportinu. Þá geta þingmenn setið þar með hvítt í glasi og sólað sig milli þess sem þeir koma í ræðustól og ræða störf forseta til að draga þingfundi á langinn.
Einnig mætti hugsa sér að þingmenn funduðu á Austurvelli þar sem eru margir barir og mörg borð úti á gangstétt. Þar væri líka hægt að vera með ræðupúltið upp við styttu Jóns Sigurðssonar, sem myndi gefa beinni útsendingu af þingfundi á Alþingisrásinni þjóðlegan blæ.
Svarthöfði minnir á að fordæmi eru fyrir því að fundir Alþingis hafi verið færðir úr húsi. Við sérstök tækifæri eru haldnir þingfundir undir beru lofti á Þingvöllum. Vitaskuld mætti hugsa sér að flytja sumarfundi þingsins þangað nú en þá þarf auðvitað að huga að aðföngum fyrir þingmenn í ljósi þess að eftir að Hótel Valhöll ku vera lítið aðgengi að göróttum drykkjum á Þingvöllum.
Svarthöfði leggur áherslu á þess að hugsa í lausnum þegar staðið er frammi fyrir svona vandamálum. Ef Múhameð vill ekki fara til fjallsins verður fjallið að koma til Múhameðs.