fbpx
Föstudagur 19.desember 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Til hamingju – Eins árs afmæli og verkin tala

Eyjan
Föstudaginn 19. desember 2025 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Formenn stjórnarflokkanna geta nú fagnað eins árs afmæli stjórnar sinni með samstarfsfólki sínu og glaðst vegna þess árangurs sem þegar hefur náðst þrátt fyrir að stjórnarandstaðan hafi hagað sér ófagleg og reynt allt til að þvælast fyrir í þinginu og búa til upphlaup vegna allra mögulegra mála, smárra og stórra. Málþóf stjórnarandstöðunnar í sumarsumar þegar hún hélt þinginu upp á snakki í fimm vikur verður lengi í minnum haft. Enda er um Íslandsmet í málþófi að ræða. Framkoma talsmanna minnihlutaflokkanna verður þeim til ævarandi minnkunar. Undir lok þingsins nú fyrir jólin örlaði á málþófstilburðum sem runnu svo út í sandinn því þingmenn langaði ekki til að sitja fastir í þinginu fram á Þorláksmessu sem hefðu geta orðið örlög þeirra.

Á fyrsta ári ríkisstjórnarsamstarfs Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hefur mörgu miðað í rétta átt: Verðbólga og vextir eru á öruggri niðurleið eins og var markmið stjórnarinnar. Fyrstu fjárlög ríkisstjórnarinnar hafa verið afgreidd af meiri ábyrgð en sést hefur hér á landi um árabil. Nú stefnir í að fjárlagahalla verði eytt þegar á árinu 2027 eins og verið hefur markmiðið.

Stórum málum hefur verið hrint í framkvæmd eins og t.d. samningur um ÍLS sjóðina sem legið höfðu á ríkinu eins og mara í mörg ár og fyrri ríkisstjórn hafði ekki burði til að leiða til lykta. Sölu á öllu hlutafé ríkisins í Íslandsbanka er lokið – nú án eftirmála. Tímabærri leiðréttingu veiðigjalda var komið á þrátt fyrir tilburði hagsmunaaðila, stjórnarandstöðu og fjölmiðla þeirra. Virkjanastöðvun virðist vera aflétt en fyrri ríkisstjórn sat föst í því verkefni vegna andstöðu Vinstri grænna við allar virkjanir. Loks er tekið á málefnum hælisleitenda með skipulegum hætti enda gengur ríkisstjórnin einhuga til þeirra verka í stað þess ágreinings sem einkenndi síðustu sjö árin þar sem Vinstri græn komust upp með að taka mikilvæg mál í gíslingu. Þá má ekki gleyma því að aðstoð ríkisins við öryrkja og eldri borgara hefur verið stóraukin eins og lofað var fyrir kosningar.

Orðið á götunni er að forystumenn ríkisstjórnarinnar standi sterkir eftir þetta fyrsta ár samstarfsins. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, er að festa sig í sessi sem öflugur þjóðarleiðtogi strax í upphafi stjórnarsamstarfsins. Hún tekur á málum af öryggi, fagmennsku og festu. Hún er þegar komin í hóp öflugustu stjórnmálaleiðtoga á Íslandi þegar litið er yfir síðustu hálfa öld. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, hefur nýtt stjórnmálareynslu sína á þeim miklu ólgutímum sem verið hafa í alþjóðamálum. Þorgerður er reyndasti núverandi þingmaðurinn og ekki hefur veitt af reynslu og þekkingu til að leiða utanríkisstefnu Íslands á tímum styrjalda og óvissu. Inga Sæland, félagsmálaráðherra og formaður Flokks fólksins, hefur staðið sig eins og hetja í því mikla ölduróti sem flokkur hennar hefur farið í gegnum á árinu. Að vissu marki getur flokkurinn sjálfum sér um kennt en hann hefur einnig mátt þola stöðugt einelti af hálfu minnihlutans og fylgifiska hans. Inga Sæland hefur staðið það af sér og haldið sínu striki sem er virðingarvert og lofar góðu um framhaldið.

Orðið á götunni er að þetta fyrsta ár núverandi ríkisstjórnar hafi reynst stjórnarandstöðunni ákaflega erfitt. Gömlu valdaflokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru tæpast enn þá búnir að sætta sig við þá staðreynd að þeim var hafnað í síðustu kosningum og þeir eru ekki lengur við völd. Hér fóru fram lýðræðisleg stjórnarskipti – en ekki valdarán eins og ætla mætti af málflutningi þeirra. Sumir af fyrrverandi ráðherrum virðast ennþá fást við erfitt valdafráhvarf sem kemur stöðugt fram í málflutningi þeirra. Þetta á einkum við um Sigurð Inga Jóhannsson, Guðlaug Þór Þórðarson og stundum Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem þó á einungis stuttan ráðherraferil að baki.

Vert er að rifja upp hvernig kjósendur gerðu upp við fyrrum stjórnarflokka í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur í kosningum fyrir rúmu ári. Vinstri græn voru þurrkuð út af Alþingi og hlutu einungis stuðning 2,3 prósenta kjósenda. Framsókn missti átta af 13 þingmönnum sínum og fór niður í minnsta fylgi sitt frá upphafi, í meira en hundrað ár. Bjarni Benediktsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn í þessum kosningum til 19 prósenta fylgis en hann hafði gegnt formennsku í flokknum frá árinu 2009. Í síðustu þingkosningunum áður en Bjarni tók við formennsku fékk flokkurinn 37 prósent greiddra atkvæða.

Bjarni ákvað á láta staðar numið og Sjálfstæðisflokkurinn valdi Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem eftirmann hans. Hún tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum þann 1. mars 2025. Formannsskiptin hafa ekki leitt til fylgisaukningar enn sem komið er, ef marka má allar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið síðan. Sjálfstæðisflokkurinn er að festast í 15 prósenta fylgi sem er óviðunandi fyrir hann í ljósi sögunnar. Með því áframhaldi missir hann stöðu sína sem valdaflokkur Íslands en á síðustu 66 árum hefur Sjálfstæðisflokkurinn átt sæti í ríkisstjórn í 54 ár, eða meira en 80% tímans. Sé því tímabili lokið í bili boðar það straumhvörf í íslenskum stjórnmálum. Fróðlegt verður að sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn nær vopnum sínum til baka á næstu árum eða hvort hann þarf lengri tíma til að jafna sig á þeim miklu mistökum sem samstarfið við Vinstri græna í sjö ár voru fyrir flokkinn. Hugmyndafræðilega virðist flokkurinn vera kominn ofan í djúpa keldu.

Framsókn leitar nú að nýjum formanni og nýjum grundvelli.

Fyrsta ár núverandi ríkisstjórnar er að baki. Andstæðingar hennar hafa reynt að halda því fram að fram undan sé mikill samdráttur í þjóðfélaginu og vondur tími. Slíkar staðhæfingar standast enga skoðun þó að sitthvað sé mótdrægt og hjálpi ekki til eins og bilun hjá álveri á Grundartanga og gjaldþrot flugfélagsins Play, en gjaldþrot lítilla flugfélaga hafa verið tíð á Íslandi hin síðari ár án þess að það breytti miklu. Gylfi Magnússon, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, tjáir sig um þetta við DV í dag og segir: „Áföllin í ár eru hversdagsleg og vel viðráðanleg fyrir hagkerfið.“ Ætla verður að meira sé að marka mat prófessorsins en niðurrifstal svekkta minnihlutans í þinginu!

Næsta sunnudag er eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar sem horfir nú yfir fyrsta árið af samstarfi sínu – sem gæti orðið langt og farsælt. Formenn stjórnarflokkanna geta glaðst með samstarfsfólki sínu og stuðningsmönnum sem fara vongóðir inn í jólahátíðina og nýtt ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Séra Örn Bárður Jónsson: Vissi lítið um trú – fékk opinberun og venti kvæði sínu í kross

Séra Örn Bárður Jónsson: Vissi lítið um trú – fékk opinberun og venti kvæði sínu í kross
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Svandís hættir sem formaður VG

Svandís hættir sem formaður VG
Eyjan
Fyrir 1 viku

Karl Ágúst Úlfsson: 110 þýðingar komnar – best að komast afsíðis

Karl Ágúst Úlfsson: 110 þýðingar komnar – best að komast afsíðis
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Jólatréð í Kokkedal

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Jólatréð í Kokkedal
Eyjan
Fyrir 1 viku

Karl Ágúst Úlfsson: Stungum á kýlum samfélagsins meðan við fengum að vera hirðfíflið – svo vorum við stoppaðir

Karl Ágúst Úlfsson: Stungum á kýlum samfélagsins meðan við fengum að vera hirðfíflið – svo vorum við stoppaðir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigvaldi Einarsson skrifar: Áliðnaður framtíðarinnar er mættur – ætlum við aftur að selja auðlindirnar fyrir slikk?

Sigvaldi Einarsson skrifar: Áliðnaður framtíðarinnar er mættur – ætlum við aftur að selja auðlindirnar fyrir slikk?