fbpx
Fimmtudagur 18.desember 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Víðsýn og frjálslynd hugsun endurvakin

Eyjan
Fimmtudaginn 18. desember 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins skrifar í síðasta sunnudags Mogga um fullveldi og alþjóðasamstarf. Þar slær hún tón, sem lítt hefur heyrst frá þingmönnum sjálfstæðisfólks eftir hrun.

Hún tekur ekki afstöðu til fullrar aðildar að Evrópusambandinu. Aftur á móti opnar hún umræðu um þá spurningu á málefnalegri og víðsýnni forsendum en andstöðuflokkarnir hafa gert í langan tíma.

Ýtt út af borðinu

Gamla víðsýnin og frjálslynda hugsunin endurspeglast í þessum orðum hennar:

Tal um að þjóðir afsali sér fullveldi með því að taka þátt í alþjóðasamstarfi byggist á ákveðnum misskilningi, þvert á móti er frelsi ríkja til þess að velja að taka þátt í því ein skýrasta birtingarmynd fullveldisins, þótt í því geti falist framsal á valdi.

Þess vegna eru til að mynda kröfur um að Úkraína megi ekki ganga í Atlantshafsbandalagið álitnar vera árás á fullveldið en aðild að bæði Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu væri hugsanlega mest afgerandi staðfesting á fullveldi Úkraínu.“

Hér ýtir varaformaður Sjálfstæðisflokksins til skamms tíma þeim rökum út af borðinu að full Evrópusambandsaðild sé útilokuð vegna fullveldisafsals. Eftir sem áður geta menn fært önnur rök gegn aðild. Bara ekki fullveldisafsal.

Reynsla Finna

Máli sínu til stuðnings vitnar Þórdís Kolbrún í ummæli Alexanders Stubb forseta Finnlands:

Við vorum eina landið sem átti landamæri að Sovétríkjunum, sem gat haldið raunverulegu sjálfstæði sínu, en við glötuðum fullveldi okkar. Við gátum ekki ákveðið í hvaða klúbba við vildum ganga. Við gátum ekki gengið í ESB fyrr en árið 1995, þegar Sovétríkin voru hrunin.“

Þessi skýra hugsun finnska forsetans segir mikla sögu.

Finnar voru með öðrum orðum ekki aðeins að styrkja stöðu sína efnahagslega þegar þeir yfirgáfu EES-samningana og stigu skrefið til fullrar aðildar. Þeir voru líka að treysta undirstöður fullveldisins.

Vörn gegn nýrri ógn

Stór alþjóðleg fyrirtæki hafa um nokkurn tíma ógnað lýðræðinu þegar þau freista þess að ráða sjálf leikreglunum á taflborði viðskiptanna. Mótleikur minni lýðræðisríkja til varnar fullveldinu er alþjóðlegt samstarf.

Evrópusambandið hefur verið sterkasta vörnin í þessum efnum. Þórdís Kolbrún beinir athyglinni að þessu viðfangsefni í Morgunblaðsgrein sinni með þessum orðum:

Fyrir þau okkar sem er umhugað um fullveldi ríkja hlýtur staða bandarísku tæknifyrirtækjanna að vera ofarlega í huga. Og það hlýtur að vekja spurningar að æðstu ráðamenn í heimaríki fyrirtækjanna grafi undan fullveldisrétti annarra ríkja með því að hafa afskipti af og í hótunum vegna lögmætra stjórnvaldsákvarðana og reglna sem gilda jafnt yfir alla.“

Sjávarútvegurinn

Fáir þekkja betur alla króka og kima í íslenskum sjávarútvegi en Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims. Og hann verður ekki vændur um að hafa hug á að gefa spón úr aski sínum til Evrópusambandsins.

En síðastliðið haust sagði hann opinberlega í tengslum við umræðu um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu að sjávarútvegurinn þyrfti ekki að hafa áhyggjur af Evrópusambandsaðild.

Með því ýtti hann út af borðinu þeirri röksemd að full aðild væri útilokuð vegna hagsmuna sjávarútvegsins.

Ný málefnaleg staða

Þegar slíkt áhrifafólk í Sjálfstæðisflokknum og atvinnulífinu ýtir út af borðinu tveimur helstu mótrökunum gegn fullri Evrópusambandsaðild er óneitanlega komin upp ný málefnaleg staða í umræðunni.

Það er fagnaðarefni þegar þessi gamli víðsýni og málefnalegi tónn hljómar á ný.

Markmiðið er það eitt að styrkja umgjörð þjóðarbúskaparins og treysta fullveldi landsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Reiði skólameistarinn

Reiði skólameistarinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Hallgrímur Pétursson í jólabókaflóðinu

Óttar Guðmundsson skrifar: Hallgrímur Pétursson í jólabókaflóðinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Jólaljós fyrir femínista og Miðflokksfrændur

Nína Richter skrifar: Jólaljós fyrir femínista og Miðflokksfrændur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ungmennafélagsandinn og Einar Kárason

Óttar Guðmundsson skrifar: Ungmennafélagsandinn og Einar Kárason
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Allar hinar Nínurnar

Nína Richter skrifar: Allar hinar Nínurnar
EyjanFastir pennar
16.11.2025

Björn Jón skrifar: Fleiri þurfa að koma að rekstri skóla

Björn Jón skrifar: Fleiri þurfa að koma að rekstri skóla
EyjanFastir pennar
15.11.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Jöfnuðurinn einn tryggir lýðræði og mannréttindi

Sigmundur Ernir skrifar: Jöfnuðurinn einn tryggir lýðræði og mannréttindi