fbpx
Sunnudagur 09.nóvember 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Peppræðan uppfull af taugatitringi, hroka og ráðaleysi

Eyjan
Sunnudaginn 9. nóvember 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að einn fyndnasti, eða kannski hlægilegasti, fundur ársins hafi verið á Grand Hotel í gær. Þar komu Sjálfstæðismenn saman til að fá peppræðu frá formanninum og skoða photoshoppaða útgáfu af fálkanum sem ku eiga að vera hin nýja „ásýnd“ flokksins.

Guðrún Hafsteinsdóttir fann öllum öðrum en Sjálfstæðismönnum allt til foráttu og hélt því staðfastlega fram að öll hagstjórnarmistök vinstri stjórnarinnar sem hún var dómsmálaráðherra í um skeið væru núverandi ríkisstjórn að kenna. Orðið á götunni er að ræða Guðrúnar hafi minnt nokkuð á það þegar Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs, kenndi gjaldþroti Fréttablaðsins í lok mars 2023 um taprekstur Morgunblaðsins árið 2022.

Guðrún gefur ekki mikið fyrir meirihlutann í Reykjavík og sagðist hlakka „svakalega“ til að „hreinsa til í ráðhúsinu“. Helst mátti af orðum hennar ráða að Sjálfstæðisflokkurinn sé að taka völdin í borginni. Orðið á götunni er að þessi söngur hafi heyrst áður úr sömu herbúðum, Fyrir fjórum árum talaði Hildur Björnsdóttir fjálglega um komandi valdatöku flokksins í borginni en það fór nú svo að hún tapaði tveimur mönnum og hefur setið í valdalausum minnihluta allt þetta kjörtímabil. Enn hefur flokkurinn ekki náð fylginu sem Eyþór Arnalds náði 2018 – en hann varð þó ekki borgarstjóri.

Orðið á götunni er að Guðrún sé, eins og raunar fleiri Sjálfstæðismenn, búin að gleyma því hvernig fór síðast þegar Sjálfstæðismenn stjórnuðu Reykjavíkurborg einir. Ekkert er óeðlilegt við það – síðan eru liðin mjög mörg ár. Þá gekk fjármálastjórn Sjálfstæðismanna svo brösuglega að ef þáverandi fjármálaráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson, hefði ekki aumkvað sig yfir borgina með því að kaupa stórt skuldabréf af borginni stefndi lóðbeint í að borgin yrði ógjaldfær og gæti ekki borgað laun og hvað þá annað. Þá var Davíð Oddsson borgarstjóri.

En hvað á Guðrún við með því að Sjálfstæðismenn ætli að „hreinsa til í borginni?“ Á að sópa betur göturnar? Ætla Sjálfstæðismenn að taka að sér sorphirðu í Reykjavík? Eða útvista sorphirðunni og koma henni í hendur einhverra góðra flokksgæðinga?

Orðið á götunni er að þrátt fyrir digurbarkaleg orð Guðrúnar hafi staðið á svörum frá henni. Jú, hún ætlar að koma með einhverjar tillögur fljótlega, sagði hún. Í sjónvarpsviðtali eftir fundinn virtist hún ráðvillt og skildi ekkert í því hvernig á því stendur að flokkur með jafn góða stefnu og grunnhugsjónir og Sjálfstæðisflokkurinn skuli sífellt tapa fylgi og ná nýjum lægðum. Kannski liggur svarið í því að fólk hefur fylgst með framgöngu flokksins í ríkisstjórn – sjö ár í vinstri stjórn sem glutraði niður innviðum og bjó til orkuskort með aðgerðaleysi sínu. En hún passaði upp á stórútgerðina. Fólk hefur horft á þríklofinn borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna ráfa um í tilgangsleysi. Ekki varð málþófið fyrir stórútgerðina í vor og sumar til að skjóta stoðum undir Sjálfstæðisflokkinn.

Orðið á götunni er að Guðrún eigi mikið verk óunnið ætli hún að endurreisa Sjálfstæðisflokkinn til fyrri vegs og virðingar. Sennilega ætti hún að byrja á því að hreinsa betur til í Valhöll áður en hún fer að hugsa um tiltekt í ráðhúsinu. Hún ætlar að selja höllina enda er hún orðin allt of stór fyrir þann smáflokk sem Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn. Sennilega væri ekki úr vegi fyrir Guðrúnu að finna sér nýjan ræðuskrifara áður en hún reynir aftur að peppa upp fólkið sitt. Annars er líklegt að boðskapurinn verði eftir sem áður taugatitringur, hroki og ráðaleysi. Ekki beinlínis formúlan sem kjósendur kalla eftir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Þessir fokking baráttudagar kvenna

Nína Richter skrifar: Þessir fokking baráttudagar kvenna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Tók bara utan um stefnuvottinn og þakkaði honum fyrir að koma með bréfið

Reynir Traustason: Tók bara utan um stefnuvottinn og þakkaði honum fyrir að koma með bréfið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Árvakur vill kaupa fjölmiðla Sýnar

Orðið á götunni: Árvakur vill kaupa fjölmiðla Sýnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Nýir lánaskilmálar í kjölfar hæstaréttardóms stórkostlegt tækifæri fyrir Seðlabankann

Nýir lánaskilmálar í kjölfar hæstaréttardóms stórkostlegt tækifæri fyrir Seðlabankann