fbpx
Þriðjudagur 23.desember 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins

Svarthöfði
Miðvikudaginn 5. nóvember 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við erum stödd í miðju bankaráni. Lögreglan er með grunaða og er að reyna að hafa upp á þýfinu og óskar skiljanlega eftir því að þrjótarnir verði settir í gæsluvarðhald. Bregður þá svo við að bæði Héraðsdómur og Landsréttur komast að þeirri niðurstöðu að engin ástæða sé til að loka mennina inni. Nóg sé að setja þá í farbann. Þeir geta því óáreittir einbeitt sér að því að koma þýfinu undan.

Í sumar synjuðu þessir sömu dómstólar lögreglunni um heimild til þess að hafa eftirlit með húsi í virðulegu og grónu íbúðahverfi þar sem vitað var að stundað væri vændi og grunur lék á að um væri að ræða mansal. Lögreglan vildi fá að setja upp eftirlit til að reyna að komast að því hverjir stæðu á bak við mansalið.

Bæði þessi tilvik eiga það sameiginlegt að glæpur var/er í miðjum klíðum.

Þegar Svarthöfði heyrði þessar fréttir gat hann ekki varist þeirri hugsun að mikið hefði breyst meðal íslenskra dómara frá því í hruninu og eftirköstum þess. Þá samþykktu dómarar allar beiðnir lögreglu um eftirlit, hleranir, gæsluvarðhald og allt hvaðeina, létu sig ekki muna um að taka á móti lögreglumönnum heima hjá sér á náttsloppnum – sem sagt: Ekki mikið pælt í málatilbúnaði lögreglu. Mörgum mánuðum og misserum eftir meint brot voru bankastjórar og aðrir tengdir fjármálafyrirtækjum sóttir heim til sín eða á vinnustaði, eða, það sem einna vinsælast var, stöðvaðir fyrir utan heimili sín, járnaðir fyrir framan fjölskyldur sínar og nágrannana og settir inn í lögreglubíl og keyrðir í steininn.

Í hruninu voru svona vinnubrögð réttlætt með því að þau sefuðu reiði fólksins. Nú þarf greinilega enga reiði að sefa, enda bara einhverjir bankar sem verið er að ræna eða útlensk fórnarlömb mansals. Þá er bara best að leyfa glæpamönnunum að fullfremja glæpinn, alls ekki trufla þá. Hvernig sem á það er lítið finnst Svarthöfða felast í þessu nokkur stefnubreyting hjá dómurum þessa lands.

Raunar er ástandið súrrealískt þegar kemur að nokkrum mikilvægum stofnunum þessa dagana. Ríkislögreglustjóri er uppvís að því að hafa borgað einhverri manneskju úti í bæ tugi og jafnvel hundruð milljóna á nokkurra ára bili fyrir búðarráp og fleira – meira og minna í trássi við rétt lög og reglur. Þegar þetta kemst upp segir lögreglustjórinn úps, þetta eru bara mistök. Almenningur og lögreglumenn bíða þess að ráðherra reki ríkislögreglustjórann til að endurreisnin geti hafist. Málinu er vísað til ríkisendurskoðanda.

Já, ríkisendurskoðandi. Það er nú einn vandræðagemsinn til. Hjá honum er allt í kaldakoli vegna EKKO mála. Svarthöfði heyrir að þegar starfsmenn kvörtuðu undan káfi og klipum á vinnustað hafi ríkisendurskoðandi tekið mannauðsmálin í eigin hendur og niðurstaðan sé sú að enginn þorir að kvarta undan neinu. Fólk annað hvort hættir í vinnu hjá embættinu eða bítur á jaxlinn og reynir bara að forðast manninn. Óánægjan kraumar undir.

Svarthöfði heyrir að lögreglan sé sá aðili sem eigi að rannsaka svona EKKO mál. Ætli ríkislögreglustjóri og ríkisendurskoðandi geti þá ekki bara bundist samtökum um að hreinsa hvort annað af öllum ásökunum? Það væri dálítið íslenskt.

Vandræði réttargæslukerfisins enda ekki þarna. Héraðssaksóknari situr uppi með það að embætti hans er svo hriplekt, og hefur lengi verið, að trúnaðargögn þaðan um helgustu einkamál fólks streyma um allan bæinn og þá ekki hvað síst inn á fréttastofu RÚV. Og til að bæta gráu ofan á svart klúðraði ríkissaksóknari rannsókn á þessu lekamáli og felldi niður á sínum tíma. Þessi sami ríkissaksóknari fær svo málið aftur í fangið núna.

Svarthöfði er eldri en tvævetur og veit að í gegnum tíðina hefur íslenskt stjórnkerfi, þar með talið réttargæslukerfið, marga fjöruna sopið. Kannski hafa sársaukamörk almennings breyst en í öllu falli skynjar Svarthöfði það að nú ætlast fólk til að tekið verði á málum og óhæfar, vanstilltar og spilltar silkihúfur sem tróna á toppi kerfisins verði einfaldlega látnar taka pokann sinn og það fyrr en seinna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Salah hetja Egyptalands
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Litli hluthafinn rýfur málhvíldina

Þorsteinn Pálsson skrifar: Litli hluthafinn rýfur málhvíldina
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Jólatréð í Kokkedal

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Jólatréð í Kokkedal
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Stjórnarandstaðan krossleggur lappir og þykist óspjölluð og hrein – talar gegn lýðræði

Svarthöfði skrifar: Stjórnarandstaðan krossleggur lappir og þykist óspjölluð og hrein – talar gegn lýðræði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Bringubeinin á Ariönu Grande

Nína Richter skrifar: Bringubeinin á Ariönu Grande
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum
Reiði skólameistarinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Jólaljós fyrir femínista og Miðflokksfrændur

Nína Richter skrifar: Jólaljós fyrir femínista og Miðflokksfrændur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Verðbólga fírast niður en vextir næst ákveðnir eftir rúma tvo mánuði

Verðbólga fírast niður en vextir næst ákveðnir eftir rúma tvo mánuði
EyjanFastir pennar
22.11.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Mikilvægasti samningur Íslandssögunnar

Sigmundur Ernir skrifar: Mikilvægasti samningur Íslandssögunnar
EyjanFastir pennar
22.11.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Ungmennafélagsandinn og Einar Kárason

Óttar Guðmundsson skrifar: Ungmennafélagsandinn og Einar Kárason