
Í síðustu viku fór á flug orðrómur um að Árvakur, útgáfufyrirtæki Morgunblaðsins, hefði áhuga á að kaupa fjölmiðlahluta Sýnar sem hefur gengið mjög illa hin síðari misserin. Vodafone-hluti Sýnar gengur vel og halar inn tekjur sem virðast svo hverfa að mestu í fjölmiðlahít Sýnar. Fyrirtækið hefur skipt reglulega um yfirstjórnendur án árangurs. Tilkynnt er um lakari afkomu eftir hvern ársfjórðung en áætlað var. Talsverður fólksflótti hefur gert vart við sig og sitthvað hefur verið reynt til að snúa rekstrinum til betri vegar. En það hefur ekki tekist.
Orðið á götunni er að sægreifarnir sem eiga Árvakur hafi lengi horft girndaraugum á Stöð tvö og fleiri miðla Sýnar, eins og til dæmis Bylgjuna og vefinn vísi.is. Viðræður hafa farið fram oftar en einu sinni en án árangurs. Í síðustu viku gaus upp kvittur um að enn á ný væri rætt um kaup Árvakurs á fjölmiðlahlutanum. Hins vegar má öllum vera ljóst að samkeppnisyfirvöld og fjölmiðlanefnd munu aldrei leyfa sameiningu þessara tveggja stóru einkamiðla. Mögulega gætu yfirvöld heimilað einhver kaup á einingum með stífum skilyrðum. Þannig mætti ætla að leyfi yrði gefið fyrir kaupum á Bylgjunni en útvarpsstöð Moggans, K-100, hefur mjög takmarkaða útbreiðslu þrátt fyrir að Árvakur hafi eytt gríðarlegum fjármunum í að reyna að festa stöðina í sessi en án árangurs. Sýn hefur hins vegar svo háar hugmyndir um verð á Bylgjunni að enginn óbrjálaður lítur við kaupum á stöðinni á því verði sem nefnt hefur verið.
Ef Árvakur hefur hug á að kaupa Stöð tvö til að komast yfir fréttastofu stöðvarinnar reynir mjög á Samkeppnisstofnun vegna þeirrar fordæmalausu stöðu sem þá kæmi upp á innlendum fjölmiðlamarkaði. Að undanförnu hafa sægreifar verið að læsa klónum í Sýn eins og sést meðal annars á því að helsti talsmaður þeirra, Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri samtaka þeirra, er komin í fimm manna stjórn Sýnar. Menn þykja greina breytta fréttastefnu og hægri sveiflu í fréttamati eftir að hún kom inn í stjórnina síðasta vor. Samkeppnisyfirvöld og Fjölmiðlanefnd munu ekki sitja hjá aðgerðarlaus ef tveir svo stórir fjölmiðlar sameinast í hagsmunagæslu fyrir þröngan hóp úr atvinnulífinu. Fótur verður settur fyrir slíka sameiningu og einungis brot af henni heimilað með ströngum skilyrðum.
Orðið á götunni er að öll umræða um sameiningu eða samkrull stórra einkafjölmiðla muni ekki gera annað en styrkja tilveru RÚV enn frekar. Stjórnvöld munu ekki horfa upp á að veikja RÚV á sama tíma og þröngur hópur hagsmunaaðila í atvinnulífinu styrkir stöðu sína. Það verður ekki liðið við núverandi aðstæður.
Orðið á götunni er að Morgunblaðið leiti nú allra leiða til að reyna að bæta rekstur miðla sinna en hermt er að rekstur Árvakurs sé venju fremur þungur en Árvakur hefur verið rekinn með samfelldu tapi frá því núverandi hluthafar, að mestu sægreifar og kaupfélag, tóku við fyrirtækinu árið 2009 og fengu þá niðurfelldar skuldir frá ríkisbanka sem á núverandi verðlagi nema rúmum 10 milljörðum króna. Já, tíu milljörðum króna. Það hefur samt ekki dugað til að tryggja jákvæðan rekstur heldur er sífellt tap sem núverandi hluthafar hafa staðið undir með ýmsum ráðum.
Á fjölmiðlamarkaði er aldrei kyrrstaða.