Fyrir kosningarnar 2013 héldu forystumenn Framsóknar og sjálfstæðismanna því fram að krónan væri ekki vandamál. Allt ylti á hinu: Hverjir stjórnuðu.
Í samræmi við það var boðskapurinn einfaldur: Fengju þeir umboð til að setjast við ríkisstjórnarborðið fengi þjóðin á móti stöðugan gjaldmiðil án verðtryggingar með sömu vöxtum og í grannlöndunum.
Flokkarnir tveir fengu svo tækifæri í rúman áratug til að færa sönnur á staðhæfinguna.
Kannski er helsti vandi þeirra í dag fólginn í því að í búð reynslunnar fæst ekki fullt verð fyrir hana.
Á því geta bara verið tvær skýringar:
Annað hvort var staðhæfingin um krónuna röng eða þeir stóðu sig illa. Sjálfir segjast þeir hafa staðið sig með eindæmum vel. Þá er bara hin skýringin eftir.
Í þessu ljósi skrifaði Sigmar Guðmundsson, formaður þingflokks Viðreisnar, athyglisverða grein í mánudags Morgunblaðið.
Þar benti hann á greinargerð með þingsályktunartillögu Miðflokksins um olíuleit. Í henni kemst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins þannig að orði um hugsanlegan olíufund:
„Vaxtakjör ríkisins myndu batna til muna og vaxtakostnaður lækka. Hægt yrði að halda úti stöðugum gjaldmiðli án verðtryggingar og bjóða landsmönnum hagkvæm óverðtryggð íbúðalán, svo dæmi séu tekin.“
Með öðrum orðum: Það sem áður valt á því hverjir stjórnuðu veltur nú á nýjum happdrættisvinningi.
Þjóðarbúið okkar hefur stundum fengið góða happdrættisvinninga. Fyrir nokkrum dögum héldu menn til að mynda hátíðlegt tíu ára afmæli stærsta happdrættisvinnings aldarinnar.
Þá gáfu erlendir kröfuhafar frá hruninu Íslendingum eftir skuldir í þjóðargjaldmiðlinum. Það var enginn smá búhnykkur.
Formaður Miðflokksins, sem reyndar var þá formaður Framsóknar, á sannarlega nokkurn heiður af því að hafa knúið þessa ríkulegu skuldauppgjöf fram í forsætisráðherratíð sinni.
Hin hliðin, sem snýr beint að almenningi, er þessi: Happdrættisvinningur aldarinnar dugði ekki í framhaldinu til að tryggja stöðugan gjaldmiðil og lága vexti án verðtryggingar.
Reynslan segir okkur sem sagt þá sögu að þetta eftirsóknarverða efnahagslega markmið náðist hvorki með happdrættisvinningi aldarinnar né með jafn hæfileikaríkum leiðtogum og við eigum í Miðflokki, Framsókn og Sjálfstæðisflokki.
En hvað með nýju ríkisstjórnina? Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, er reglulega minnt á það þessa dagana að hún hafi heitið því að slá vextina niður með sleggju. Þá voru þeir 9% og eru nú komnir í 7,5%.
Öndvert við leiðtoga núverandi stjórnarandstöðuflokka hef ég aftur á móti hvergi rekist á loforð hennar um algjörlega samkeppnishæfa vexti án verðtryggingar.
Það bendir til þess að hún hafi dregið raunsærri lærdóm af reynslu síðustu kjörtímabila en leiðtogar stjórnarandstöðunnar.
Veruleikinn sem lesa má úr gögnum Seðlabankans er einfaldlega sá að raunvextir verði hér um fyrirsjáanlega framtíð 3,5%, eða þrefalt hærri en í samkeppnislöndunum óháð ríkisstjórnum.
Þetta þýðir: Þótt bankinn nái 2,5% verðbólgumarkmiðinu fara stýrivextir ekki mikið niður fyrir 6%.
Þetta er óásættanlegt. Þannig skiljum við velferðarkerfið, heimilin og lítil og meðalstór fyrirtæki áfram eftir í ósamkeppnishæfu umhverfi.
Draumurinn um samkeppnishæfa vexti án verðtryggingar sýnist þegar öllu er á botninn hvolft fremur velta á gjaldmiðlinum en hæfni einstakra stjórnmálaleiðtoga eða happdrættisvinningum.
Á sama tíma og formaður Miðflokksins veðjar á nýjan happdrættisvinning bendir formaður þingflokks Viðreisnar á þann kost að taka upp alvöru samkeppnishæfan gjaldmiðil fyrir alla landsmenn.
Er það ekki bara besta umhugsunarefni?