Imperio ehf. hefur hlotið aðild að rammasamningi NATO um upplýsingatækni (Basic Ordering Agreement – BOA). Samningurinn veitir fyrirtækinu rétt til að taka þátt í verkefnum og útboðum innan netöryggis, hugbúnaðarþróunar og tæknilausna fyrir aðildarríki NATO og stofnanir samtakanna.
„Þetta er stórt skref fyrir Imperio og í raun líka fyrir Ísland,“ segir Svavar H. Viðarsson, framkvæmdastjóri Imperio. „Aðildin að rammasamningi NATO opnar nýjar leiðir fyrir íslensk fyrirtæki í tæknigeiranum til að taka þátt í alþjóðlegum varnar- og nýsköpunarverkefnum, þar sem áhersla er á öryggi, gagnavernd, gervigreind og nýja tækni.“
Rammasamningurinn gerir Imperio kleift að mæta vaxandi eftirspurn eftir háþróaðri tækni og sérhæfðri þekkingu innan varnarmála og öryggisgeirans. Með þátttöku í helstu útboðum og innkaupaáætlunum sem stýrt er af NATO og bandalagsríkjunum, stefnir Imperio að því að opna ný og verðmæt tækifæri fyrir fyrirtækið og samstarfsaðila þess, eins og segir í tilkynningu.
Nú vinnur Imperio að undirbúningi þátttöku í NATO samningi innan þessa rammasamnings á sviði netöryggis, Cyber Security Dynamic Marketplace (CSDM), sem hefur gildistíma til fimm ára (2026–2031) og heildarverðmæti allt að 500 milljónum evra. Samningurinn mun opna fjölbreytt tækifæri fyrir fyrirtæki innan varnarmála og tækniþróunar, þar sem Imperio hyggst bjóða íslenskum samstarfsaðilum að taka þátt í útboðum og verkefnum undir þessum ramma.
Svavar bætir við: „Þátttaka okkar í þessum samningum styrkir ekki aðeins stöðu Imperio innan varnargeirans heldur leggur einnig grunn að nýsköpun og alþjóðlegri samvinnu. Við viljum stuðla að framþróun tækni og auknu öryggi, þannig að við stöndum áfram fremst í þróun greinarinnar.“
Imperio hefur á undanförnum árum unnið að samstarfi við fjölmörg fyrirtæki og stofnanir í Evrópu og stefnt að því að skapa brú milli íslenskra tæknifyrirtækja og alþjóðlegra tækifæra innan NATO, Europol, Eurospa og Evrópusambandsins. Fyrirtækið sérhæfir sig í alþjóðlegum verkefnum, útboðum, AI+Automation og IT-sourcing.