fbpx
Fimmtudagur 02.október 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Maður breytinga allt í einu harður á móti – hvað veldur?

Eyjan
Fimmtudaginn 2. október 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ársæll Guðmundsson, skólastjóri Borgarholtsskóla, hefur verið einna háværastur þeirra sem gagnrýna harðlega áform Guðmundar Inga Kristinssonar, menntamálaráðherra, um skipulagsbreytingar á framhaldsskólastigi sem fela í sér að komið verður upp nýju stjórnsýslustigi þar sem 4-6 svæðisskrifstofur fá það hlutverk að halda utan um rekstur skólanna og veita þeim stuðning og þjónustu. Tengist þetta samræmingu á gæðum náms og því að auka á faglegan stuðning við skólana, auk þess sem hið nýja stjórnsýslustig tryggir að ekki verður það lengur sami aðili sem veitir skólunum þjónustu og hefur eftirlit með henni.

Orðið á götunni er að hin harða gagnrýni Ársæls, sem er nokkuð umdeildur innan skólasamfélagsins, komi mörgu skólafólki verulega á óvart. Fram til þessa hefur Ársæll verið mjög hlynntur hvers kyns breytingum á framhaldsskólanum og hallur undir ráðamenn hverju sinni.

Ársæll er gamall VG-maður úr Skagafirðinum og gegndi m.a. á tímabili stöðu sveitarstjóra Skagafjarðar er VG og Sjálfstæðisflokkur voru þar í meirihluta 2002-6. Ekki var þó eining um hann í því starfi og árið 2005 stóð til að reka Ársæl eftir að hann móðgaðist og hreytti ónotum í sveitastjórnarfulltrúa eftir að sveitarstjórnin synjaði honum um ferðastyrk til að sækja ráðstefnu í Brüssel. Komin var fram tillaga frá oddvita Sjálfstæðismanna um að segja Ársæli upp störfum er hann baðst afsökunar á orðum sínum í garð sveitarstjórnarmanna og afstýrði uppsögn.

Katrín Jakobsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, skipaði Ársæl skólastjóra Iðnskólans í Hafnarfirði árið 2010. Nokkrum árum síðar hvarf hann til verkefna í menntamálaráðuneytinu þar sem hann vann m.a. að sameiningu Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans. Þetta var á vakt Illuga Gunnarssonar þáverandi menntamálaráðherra. Ársæll var einnig lykilmaður í þeim starfshópi Illuga sem lagði drög að styttingu framhaldsskólans í þrjú ár, en Illugi keyrði þá breytingu í gegn og orðið á götunni er að undirbúningur og upplegg þess verkefnis hafi verið verulega ábótavant.

Árið 2016 var Ársæll skipaður skólastjóri Borgarholtsskóla þrátt fyrir að skólanefnd skólans hafi verið einu máli á því að annar umsækjandi væri hæfastur. Orðið á götunni þá var að Ársæll nyti sérstaks velvilja Illuga sem var raunar vanhæfur til að skipa í stöðuna vegna þess að Ársæll var starfsmaður hans í ráðuneytinu. Mikil óánægja varð með skipunina og sagði einn skólanefndarmaður af sér og kallaði skipunina spillingu, sagði altalað að staðan hafi verið eyrnamerkt Ársæli.

Ársæll komst í fréttirnar fyrr á þessu ári vegna samskipta sinna við Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, út af skóm barnabarns Ingu sem höfðu horfið í skólanum. Áttu þau símtal og orðið götunni er að ekki einungis hafi Ársæll rofið trúnað við Ingu er hann greindi frá tveggja manna tali þeirra á kennarastofu skólans heldur hafi hann jafnframt lagt Ingu orð í munn er hann sakaði hana um að hafa hótað að beita valdi sínu til að kalla lögreglu að málinu.

Orðið á götunni er að framganga Ársæls í því máli hafi verið ámælisverð. Um mjög viðkvæmt mál var að ræða sem snerti hagsmuni barns í skólanum en það hafi samt ekki stoppað skólastjórann í því að gaspra um málið við óviðkomandi innan skólans og fleyta þar með af stað sögu – lítilli fjöður sem varð að hænu eins og svo oft gerist með gróusögur sem komið er í gang. Þegar málið komst í fjölmiðla þóttist skólastjórinn allt í einu vera alheilagur og neitaði að tjá sig um tveggja manna tal sitt við ráðherrann. Kvartaði síðan undan því ráðherra væri að vega að starfsheiðri hans en virðist hafa látið sig það litlu varða að trúnaðarrof hans stofnaði heill barns sem hann bar ábyrgð á í skólanum í hættu.

Þann 17. september var tilkynnt um hið áformaða stjórnsýslustig til að annast rekstur og mannauð framhaldsskóla. Strax daginn eftir var Ársæll kominn í fjölmiðla með sleggjudóma um áformin og fordæmdi þau á allan hátt. Orðið á götunni er að það sé athyglisvert hversu harkalega Ársæll gagnrýnir menntamálaráðherra og áform hans vegna þess að Ársæll er þekktur fyrir að standa þétt með hverjum þeim breytingatillögum sem frá ráðherrum koma og virðist hafa notið þess ríkulega þegar kemur að embættisveitingum, ef marka má aðdraganda og eftirmál þess að hann var skipaður skólastjóri Borgarholtsskóla.

Orðið á götunni er að vert sé að hafa í huga að menntamálaráðherra nú sé vissulega hvorki Vinstri grænn né Sjálfstæðismaður. Ráðherrann er úr Flokki fólksins og nú eru sannarlega engar líkur á að nein staða á hinu nýja stjórnsýslustigi verði „eyrnamerkt“ Ársæli Guðmundssyni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Daði Már Kristófersson: Hvatinn til að gera betur er veikur hjá hinu opinbera

Daði Már Kristófersson: Hvatinn til að gera betur er veikur hjá hinu opinbera
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hlutabréfaverð í Icelandair rýkur upp eftir tíðindi dagsins

Hlutabréfaverð í Icelandair rýkur upp eftir tíðindi dagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Frelsi er sumsé fyrir þá heppnu og útvöldu!

Sigmundur Ernir skrifar: Frelsi er sumsé fyrir þá heppnu og útvöldu!
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Daði Már Kristófersson: Ríkissjóð þarf að reka með afgangi – áföll munu ríða yfir

Daði Már Kristófersson: Ríkissjóð þarf að reka með afgangi – áföll munu ríða yfir