fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Eyjan

Furða sig á fjarveru Kristrúnar – „Ísland hefur líklega aldrei sýnt nágrannaþjóð slíka vanvirðingu“

Eyjan
Mánudaginn 27. janúar 2025 12:30

Frá vinstri: Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs, Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar, Alexander Stubb forseti Finnlands og Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur á heimili þeirrar síðastnefndu í gær. Rætt var um versnandi ástand í öryggismálum en gagnrýnt hefur verið að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra var ekki viðstödd. Mynd: Facebook-síða Mette Frederiksen.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær boðaði Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur norræna þjóðarleiðtoga á skyndifund í Kaupmannahöfn. Fyrst var fundað í danska forsætisráðuneytinu en síðan haldið áfram í óformlegu kvöldverðarboði á heimili forsætisráðherrans. Birti Frederiksen í kjölfarið á samfélagsmiðlum mynd úr kvöldverðarboðinu. Umræðuefnið er sagt hafa verið ekki síst ásælni Donald Trump Bandaríkjaforseta í Grænland en einnig aukin hætta á skemmdarverkum á Eystrasalti. Auk Frederiksen sjálfrar má á myndinni sjá forsætisráðherra Noregs og Svíþjóðar og forseta Finnlands. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra Íslands var hins vegar ekki á fundinum og í umræðum á samfélagsmiðlum og víðar þykir það sæta furðu, ekki síst í ljósi þess að Ísland er landfræðilega nær Grænlandi en öll hin Norðurlöndin. Menn sem eru jafnvel ekki sammála um neitt í stjórnmálum eru sammála um að fjarvera Kristrúnar sé furðuleg.

Mette Frederiksen sagði í færslu á Facebook í gær að ástand öryggismála sé orðið óöruggara og þess vegna sé samstaða Norðurlandanna í þessum efnum mikilvæg. Þar af leiðandi hafi hún boðað til fundarins í gær. Hún segir að á fundinum hafi verið rædd samvinna Norðurlandanna á sviði öryggismála og að hún, Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs og Alexander Stubb forseti Finnlands, sem allir voru viðstaddir, séu öll sammála um að staðan sé alvarleg.

Ekkert er hins vegar minnst á Ísland í færslunni og óljóst er hvort Kristrúnu var boðið á fundinn og ef svo er hvort hún hafi ekki komist þar sem hún hefði þurft að ferðast mun lengri leið, en kollegar hennar, til að vera viðstödd.

Eystrasalt

Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir í daglegum pistli sínum að það sé hreinlega áhyggjuefni að Kristrún hafi ekki verið viðstödd. Því hafi verið svarað til að fundurinn hafi ekki síst snúist um Eystrasalt og þar sem Ísland sé ekki nálægt því hafsvæði hafi fjarvera Kristrúnar verið eðlileg. Björn segir þetta furðulega skýringu:

„Sé svo hljóta íslensk stjórnvöld að vekja athygli á að eina leiðin til að tryggja öryggi á Eystrasalti er að halda opnum siglingaleiðum yfir Norður-Atlantshaf fyrir þá aðstoð sem óhjákvæmilegt er að fá frá öflugasta flotaveldi heims, Bandaríkjunum. … Hólfaskipting norræns samstarfs hefur ekki tíðkast fyrr en núna. Með sömu rökum og Íslendingum komi ekki við það sem rætt er um Eystrasaltið má segja að Finnum og Svíum komi ekki við það sem rætt er um Norður-Atlantshafið. Það er ef til vill tímabært að skapa Vestnorræna samstarfinu nýjan sess í samstarfi norrænu ríkjanna og taka þar fyrir af þunga öryggismál sem snerta Færeyjar, Ísland og Grænland sérstaklega og tengslin við Norður-Ameríku annars vegar og ESB-ríki hins vegar.“

Björn segist hafa rýnt í umfjöllun danskra fjölmiðla um fundinn og að þar hafi komið fram að ásælni Donald Trump í Grænland hafi án efa borið hæst. Segir hann stjórnmálaskýrendur furða sig á veikum viðbrögðum Frederiksen við þeim yfirgangi sem Trump hafi sýnt henni í þeirra samtölum um Grænland. Björn segir það stórfurðulegt að ekkert heyrist frá ríkisstjórn Íslands um þessa stigmögnun í samskiptum Bandaríkjanna og Danmerkur:

„Ætla mætti að hún sé í öðrum heimshluta eða á annarri bylgjulengd. Var það vegna Ingu Sæland sem Kristrún fór ekki?“

Ekki sammála um neitt en sammála um þetta

Þór Saari fyrrum þingmaður Hreyfingarinnar og fyrrum frambjóðandi Sósíalistaflokksins er sammála Birni um að það sé undarlegt að Kristrún hafi ekki verið viðstödd. Ljóst er að Þór og Björn eru sammála um fátt ef þá nokkuð sem snýr að stjórnmálum en um þetta eru þeir sammála. Í færslu á Facebook gagnrýnir Þór bæði Kristrúnu og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra:

„Það er athyglisvert að Íslandi var ekki boðið í þennan „kvöldverð“ Noregs, Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar, þrátt við að vera næsta land við Grænland. Það stafar líklega af því að utanríkisráðherrann okkar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hreinlega afskrifaði Grænland daginn eftir ummæli Trumps að hugsanlega taka Grænland með hervaldi, með þeim orðum að þetta væri bara mál Grænlendinga. Ísland hefur líklega aldrei sýnt nágrannaþjóð slíka vanvirðingu og hirðuleysi og það einmitt þegar hún þarf á einörðum stuðningi að halda.“

Árni Snævarr fyrrverandi fréttamaður og núverandi starfsmaður Sameinuðu þjóðanna tekur undir með Birni og Þór:

„Hvar var Kristrún? Það er frétt ef henni var ekki boðið og það er (stærri) frétt ef hún mætti ekki. Ef Ísland, næsta nágranna Grænlands, var ekki boðið á þennan fund, eru það uggvænleg tíðinid. Ef forsætisráðherra þáði ekki boðið, er söngur valkyrjanna orðinn verulega falskur. Utanríkisráðherra er sem kunnugt er á handboltamóti á meðan ein mesta kreppa í utanríkismálum á síðari árum stendur yfir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Spá stórtíðindum um helgina – „Við erum búnir að fella meirihlutann í borginni. Hann er sprunginn“

Spá stórtíðindum um helgina – „Við erum búnir að fella meirihlutann í borginni. Hann er sprunginn“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hampiðjan hf. eignast meirihluta í indverska félaginu Kohinoor

Hampiðjan hf. eignast meirihluta í indverska félaginu Kohinoor
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin fær byr í seglin – Sjálfstæðisflokkurinn nötrar í aðdraganda landsfundar

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin fær byr í seglin – Sjálfstæðisflokkurinn nötrar í aðdraganda landsfundar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bandaríkjamenn styðja ekki fyrirætlanir Trump varðandi Grænland – Getur gert hann óútreiknanlegan að mati sérfræðings

Bandaríkjamenn styðja ekki fyrirætlanir Trump varðandi Grænland – Getur gert hann óútreiknanlegan að mati sérfræðings