Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og bróðir Andrésar, forstöðumanns Skrímsladeildarinnar, fjallar um fjármál borgarinnar í Morgunblaðinu dag eftir dag. Hann virðist telja sig hafa mikið vit á fjármálum, þó ýmsir dragi það í efa. Í Morgunblaðinu í gær segir Kjartan: „Til að ná tökum á fjármálum borgarinnar og þar með skuldunum þurfa breytingar að verða í borgarstjórn og nýr meirihluti að taka fjármálin föstum tökum.“ Með öðrum orðum þá þarf Sjálfstæðisflokkurinn að taka við til að bæta stöðu fjármála.
Orðið á götunni er að stjórn Sjálfstæðisflokksins á opinberum fjármálum sé ekki með þeim hætti á seinni árum að mikil eftirspurn geti verið eftir atbeina flokksins að stjórn fjármála. Vert er að benda á að flokkurinn fór með stjórn fjármála ríkissjóðs í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur mestan hluta þeirra sjö ára sem sú óheillastjórn var við völd. Halli var á ríkissjóði öll árin – 115 milljarðar króna að meðaltali ár hvert. Var sjálfur formaður flokksins í forsvari fjármálanna lengst af en samt tókst ekki betur til en þetta. Er þó alveg hægt að halda því fram að Bjarni Benediktsson sé miklu öflugri stjórnmálamaður og stjórnandi en það fólk sem flokkurinn hefur valið til að verma sæti sín í borgarstjórn Reykjavíkur.
Kjartan Magnússon er ekki líklegur til að taka fjármál borgarinnar „föstum tökum“ frekar en aðrir úr hópi sjálfstæðismanna í borgarstjórn, kæmist flokkurinn til valda. Í skrifum sínum og viðtölum við Morgunblaðið hefur hann aldrei vikið að því hvernig ætti að beita þessum „föstu tökum.“ Ástæða væri til að spyrja hann hvort lausn Sjálfstæðisflokksins felist í því að draga stórlega úr þjónustu við íbúa Reykjavíkur eða þá að hækka skatta til muna eða selja eignir borgarinnar eða yfirleitt hvernig ætti að leysa þennan meinta vanda. Það er ekki nóg að komast til valda eins og Einar Þorsteinsson frá Framsókn gerði: Hann tók við sem borgarstjóri, bretti upp ermar á öllum myndum – en svo gerðist ekkert meira uns hann klúðraði stöðu sinni og lenti með sig og flokk sinn úti í skurði, valdalaus í minnihluta með Sjálfstæðisflokknum. Sennilega heldur Kjartan að það nægi bara að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda og þá lagist allt sjálfkrafa.
Í máli Kjartans Magnússonar hefur ítrekað komið fram að skuldir borgarinnar vaxi taumlaust og ekkert verði við þær ráðið. Kjartan virðist ekki kunna að lesa úr ársreikningum og ættu einhverjir flokksfélagar hans að leiðbeina honum um það. Skuldir eru eitt en á hinni hlið efnahagsreiknings eru eignir. Það er jafnvægið milli eigna og skulda sem mestu máli skiptir. Kjartan virðist ekki gera sér ljóst að eignastaðan borgarinnar er gríðarlega sterk. Ekki þarf annað en að nefna sem dæmi að borgin á meira en 90 prósent af Orku náttúrunnar en Orkuveitan hefur malað borginni gull í áratugi. Líklegt er talið að eignarhlutur borgarinnar í þessu eina fyrirtæki gæti numið eitt þúsund milljörðum króna sem er nær tvöföld fjárhæð allra skulda borgarsjóðs og allra dótturfélaga borgarinnar. Ástæða er til að benda á þetta því að það er með öllu óviðunandi að kjörinn fulltrúi komist upp með að halda ítrekað fram fleipri um mikilvæg mál eins og fjárhag Reykjavíkurborgar. Það rýrir traust sem gæti verið tilgangurinn. Þó er ástæða til að láta Kjartan njóta vafans og ætla honum ekki óheilindi en kenna heldur vankunnáttu um.
Orðið á götunni er að ljóst sé að mikill skjálfti sé þegar farinn að gera vart við sig í herbúðum Sjálfstæðisflokksins í borginni vegna kosninganna næsta vor. Hildur Björnsdóttir keppist við að lýsa því yfir að hún ætli að leiða lista flokksins í komandi kosningum. Flokkurinn hefur stuðst við einnota leiðtoga það sem af er þessari öld. Síðasti oddviti Sjálfstæðisflokksins sem fékk að leiða listann tvisvar er Árni Sigfússon sem var í því hlutverki bæði árið 1994 og aftur 1998 en tapaði í bæði skiptin fyrir R-listanum sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór fyrir. Fylgi flokksins var minna í seinna skiptið. Síðan hafa allir oddvitar flokksins verið einnota. Hildur vill nú fá að leiða í annað sinn. Hún tók við af Eyþóri Arnalds og fór með fylgi flokksins niður úr 31 prósenti í 25 prósent og tapaði tveimur borgarfulltrúum.
Innan flokksins vilja ýmsir gefa henni annað tækifæri og velja að öðru leyti alveg nýtt fólk á listann. Borgarstjórnarflokkurinn er nú þríklofinn en það kann ekki góðri lukku að stýra. Talið er að öflugir hópar innan Sjálfstæðisflokksins vilji fá nýjan leiðtoga sem gæti komið með ferskan byr inn í baráttuna í stað niðurrifs, nöldurs og svekkelsis hinna sigruðu eins og einkennt hefur í langan tíma. Hver það ætti að vera er hins vegar alveg óljóst. Nafn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar hefur verið nefnt en hann leiddi lista flokksins í Reykjavík norður í þingkosningunum þann 30. nóvember á síðasta ári. Listinn fékk 17,4 prósent atkvæða og flokknum var hafnað eins og allri ríkisstjórninni í þeim kosningum. Það er ekkert ferskt og sigurstranglegt við það að tefla fram föllnum ráðherrum í næstu borgarstjórnarkosningum. Guðlaugur Þór er nógu reyndur til að koma ekki nálægt slíku. Hann væri frekar líklegur til að styðja einhvern úr sínu liði til framboðs. En hver ætti það að vera? Enginn vænlegur virðist vera í sjónmáli.
Orðið á götunni er að Hildur Björnsdóttir muni leiða lista flokksins næsta vor og verða leiðtogi stjórnarandstöðu í borginni næsta kjörtímabilið með Miðflokkinn sér við hlið og Framsókn, nái fulltrúi flokksins kjöri sem alls ekki er útlit fyrir núna.
Eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur er hvergi nærri lokið.