fbpx
Sunnudagur 20.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Veit Guðrún Hafsteinsdóttir hvort hún er að koma eða fara?

Svarthöfði
Sunnudaginn 20. júlí 2025 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Hafsteinsdóttir hefur ekki átt gott mót undanfarna daga ef svo mætti að orði komast. Ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins gerði hún sig að athlægi með málþófi og fíflagangi í veiðigjaldamálinu. Forseti Alþingis skar Sjálfstæðismenn niður úr þeirri snöru með því að knýja fram atkvæðagreiðslu í málinu og stuðla að sátt um þinglok.

Þá tók ekki betra við. Í sömu viku og þinghaldi lauk kom Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í opinbera heimsókn hingað til lands til að ræða fyrst og fremst varnarmál og samstarf Íslands og ESB á þeim vettvangi. Við þessa heimsókn virðist eitthvað hafa brunnið yfir hjá formanni Sjálfstæðisflokksins sem gaf frá sér furðulegar yfirlýsingar sem skilja mátti á þann veg að hún teldi heimsóknina jafngilda því að verið væri að smygla Íslandi bakdyramegin inn í ESB.

Svarthöfði sér að hann er ekki sá eini sem furðar sig á öfgakenndum viðbrögðum formanns Sjálfstæðisflokksins vegna heimsóknar von der Leyen. Björn Birgisson, eðalkrati úr Grindavík, rifjar upp á Facebook að þegar Guðrún Hafsteinsdóttir varð formaður Samtaka iðnaðarins 2014 hlaut hún kosningu ekki síst út á þá stefnu sína að hún vildi ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og láta þjóðina kjósa um aðildarsamning.

Svarthöfði minnist þess líka að í forsíðuviðtali við Frjálsa verslun, eftir að hún var kjörin formaður SI, lýsti Guðrún því afdráttarlaust yfir að ljúka ætti viðræðunum við ESB og leyfa þjóðinni að kjósa um aðildarsamningi. Orðrétt sagði hún: „Ég tel að við hefðum gott af því sem þjóð að klára þessar viðræður og leyfa síðan þjóðinni að kjósa. Ég treysti þjóðinni algerlega í þessu máli.

Eitthvað hefur trú Guðrúnar Hafsteinsdóttur á skynsemi íslensku þjóðarinnar dofnað frá því að hún lét þessi orð falla. Síðustu vikur barðist hún ásamt fótgönguliðum sínum með kjafti og klóm gegn því að þjóðarviljinn um sanngjarnt endurgjald sægreifa fyrir einkaaflot af sameiginlegri auðlind yrði lögfestur og nú er hún farin að birta keyptar tilkynningar á Facebook um það að flokkur hennar muni berjast gegn ESB aðild sama hvað fólki finnst, afflytur staðreyndir og bullar út í eitt. Orðum hennar er bersýnilega beint til innvígðs og innmúraðs kjarna Sjálfstæðismanna en ekki þjóðarinnar.

Svarthöfði er hugsi yfir því á hvaða vegferð Guðrún Hafsteinsdóttir er. Ekki eru nema tæpir fimm mánuðir síðan hún var kosinn, með minnsta mögulegum meirihluta reyndar, til að breyta ásjónu Sjálfstæðisflokksins sem í langri formannstíð Bjarna Benediktssonar – og raunar allt frá því að Davíð Oddsson missti sína jarðtengingu í byrjun þessarar aldar – hafði smám saman misst talsambandið við þjóðina og var í raun kominn utan þjónustusvæðis.

En Guðrún hefur ekki snúið af braut forvera sinna heldur gefið í og nú má það kallast langsótt í meira lagi að flokkurinn eiga skýra leið í ríkisstjórnarsamstarf einhvern tíma á næstu árum. Þingflokkurinn ráfar um ganga Alþingis heimilislaus og áttavilltur, veit hreinlega ekki hvort hann er að koma eða fara. Svarthöfði er hins vegar frekar á því að hann sé á förum og að sama gildi um formann flokksins.

Fá dæmi hefur Svarthöfði séð á seinni árum um jafn rækilega pólitíska u-beygju og það að ESB-sinninn Guðrún Hafsteinsdóttir skuli nú reyna að stilla sér upp sem harðasti andstæðingur ESB aðildar hér á landi. Hún snýst hreinlega eins og skopparakringla. Skyldi vesalings manneskjuna ekki sundla?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Foringjakreppa í flokknum

Óttar Guðmundsson skrifar: Foringjakreppa í flokknum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Óvinir!

Nína Richter skrifar: Óvinir!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Málæði um ekki neitt meðan sumarið líður hjá

Svarthöfði skrifar: Málæði um ekki neitt meðan sumarið líður hjá
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Gullaldir fyrr og nú

Björn Jón skrifar: Gullaldir fyrr og nú
EyjanFastir pennar
19.06.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Það erfiðasta við ræðulist

Þorsteinn Pálsson skrifar: Það erfiðasta við ræðulist
EyjanFastir pennar
15.06.2025

Björn Jón skrifar: Alvöru leiðtogi

Björn Jón skrifar: Alvöru leiðtogi