Ég er komin heim á Flateyri. Ég sit í stofunni hennar ömmu. Með rjúkandi heitan tebolla – og ró í hjarta. Á leiðinni heim fór hugurinn að reika. Samhengi hlutanna er einhvern veginn að púslast saman í kollinum eftir vægast sagt viðburðaríkar og lærdómsríkar vikur og mánuði á Alþingi Íslendinga.
Við hófum leika þann 4. febrúar. Ríkisstjórnin í sólarupprásarlitunum ætlaði sér strax stóra hluti. Setja tóninn og láta verkin tala eftir sjö ára kyrrstöðustjórn. Þar sem allt var botnfrosið og innbyrðis erjur gerðu það að verkum að minnihlutinn þáverandi gat einfaldlega hallað sér aftur. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og síðar Bjarna Benediktssonar sá nefnilega bæði um að vera í stjórn og stjórnarandstöðu.
En þjóðin kaus og skilaboðin voru skýr. Krafan var um nýja nálgun og öðruvísi stjórnmál. Ríkisstjórn Viðreisnar, Flokks fólksins og Samfylkingar svaraði því ákalli. Með hnausþykkri þingmálaskrá hóf ríkisstjórnin vegferðina. Björt og brosandi.
Það leið ekki að löngu þar til minnihlutaflokkarnir þrír fóru að sýna sitt rétta andlit. Strax var farið að tefja með löngum umræðum, jafnvel um mál sem allir flokkar voru sammála um að klára ætti sem fyrst. Það varð fljótt ljóst að plan minnihlutans var ekki aðeins að gagnrýna, heldur að grafa markvisst undan ríkisstjórninni. Sérstaklega með linnulausum árásum á Flokk fólksins með öllum tiltækum ráðum. Ætlunin var að reka fleyg á milli stjórnarflokkanna og raska samstöðunni. Þannig fuðruðu dagarnir upp, einn af öðrum.
Á meðan á þessu stóð hæddust minnihlutaflokkarnir að ríkisstjórninni fyrir að kalla sig verkstjórn. En það stóð svo sannarlega ekki á samhentri ríkisstjórn að klára málin. Án hindrana minnihlutans hefðu vafalaust öll mál sem fóru í gegnum nefndir klárast á tilsettum tíma. Það hefði verið reyndin.
Mál ríkisstjórnarinnar hreyfðust vart áfram nema með samþykki minnihlutans. Líkt og hann væri keisari sem sæti í hringleikahúsi með þumalinn upp eða niður. Gömlu valdaflokkarnir náðu með þessu að framlengja áhrif sín, þó að þeir sætu í minnihluta. Og héldu áfram uppteknum hætti. Fyrri ríkisstjórn var þekkt fyrir að stoppa eigin mál. Nú ætlaði hinn nýi minnihluti að stoppa og drepa sem flest mál meirihlutans. Gömul saga á nýju sviði.
Þinglokum vorþings 2025 verður minnst í sögubókum framtíðarinnar. Fyrst tóku átta þingmenn (með hjálp hinna minnihlutaflokkanna) þingið í gíslingu svo dögum skipti vegna bókunar við EES samninginn. Okkar dýrmætasta alþjóðasamning. Síðan tók við fordæmalaust málþóf vegna breytinga á útreikningi á því hvernig reikna eigi út veiðigjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Umræðan stóð yfir í um 160 klukkustundir. Ræðurnar urðu fleiri en 3400. Meirihlutinn tók þátt í upphafi en fljótt varð ljóst að umræður minnihlutans virtust stefna í einhvers konar eilífðarvél. Forseti Alþingis beitti að lokum (að undangenginni mikilli þolinmæði og von um að samningar gætu náðst) 71. grein þingskapalaga. Sem einfaldlega er ein af fjölmörgum lagagreinum sem finna má í þingsköpum. Þingið einkenndist einna helst af því að allt var notað sem tilefni til hneykslunar; stjórnarhættir, hugmyndir, fas og hreint út sagt tilvera stjórnarinnar fór í taugarnar á minnihlutanum. Á tímabili fór það meira að segja í taugarnar á þeim að hlegið væri á göngum þingsins af hálfu meirihlutans. Slíkt var andrúmsloftið.
Það tók sjö mánuði fyrir gömlu valdaflokkana að skilja að þeir réðu ekki lengur. Ég sýni vissulega skilning. Þessir flokkar hafa stjórnað öllu samfélaginu nánast óslitið frá lýðveldisstofnun. Þetta er þeirra DNA.
Þegar ljóst var að ríkisstjórnin myndi sannarlega standa keik í veiðigjaldamálinu mátti finna fyrir einhverri nýrri tilfinningu í samfélaginu. Það er ekki lengur þannig að hagsmunaaðilar geti hringt í ákveðna þingmenn og stoppað mál sem ríkisstjórnir ætla að klára. Sá tími er liðinn. Meirihlutinn fór yfirvegað og rólega í gegnum þá reynslu að verjast þeirri ágjöf þar sem hagsmunaaðilar settu líklega mörg hundruð milljónir í að reyna að stöðva framgang málsins. En ríkisstjórnin var ekki kjörin til að láta undan. Hún var kjörin til að breyta. Breyta kerfum, kúltúr og kúrs. Lofta út og rykmoppa.
Allar stórar breytingar mæta andstöðu. Það er mannlegt að óttast hið óþekkta. En ríkisstjórnin hefur nú sýnt í verki að hún óttast ekki breytingar. Hún hefur kjark til að hrinda þeim í framkvæmd og er með skýra sýn og viljann til að fylgja henni eftir.
Þegar ég gekk út úr þinghúsinu mánudaginn 14. júlí eftir sex vikna málþófslotu opnaði ég símann minn og fyrsta fyrirsögnin sem blasti við mér var: „Hitamet bætt um allt að 8 gráður í dag.“
Sólin er að minnsta kosti komin. Hvað sem fólk les svo sem í það.
Mér fannst það hið minnsta táknrænt.