Alþingi er á allra vörum þessa vikuna eftir að Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, frestaði umræðu um veiðigjaldamálið og sleit þingfundi kl. 23:39 á miðvikudag án þess að hafa til þess umboð forseta eða meirihluta forsætisnefndar.
Margir þingmenn og fyrri þingmenn, auk annarra, hafa rætt og skrifað um málið. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hóf þingfund daginn eftir á sérstakri tilkynningu. Hildur svaraði fyrir sig síðar um daginn, en mætti ekki á þingfund þennan dag.
Sjá einnig: Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks sleit fundi Alþingis án umboðs
Að lokum fór svo að Forseti Alþingis Þórunn Sveinbjörnsdóttir ávarpaði þingið í upphafi þingfundar á föstudag þar sem hún tilkynnti um beitingu 71. gr. laga um þingsköp Alþingis í veiðigjaldaumræðunni.
Forseti Alþingis tilkynnti að hún ætlaði ekki að aðhafast frekar vegna þess að Hildur sleit þingfundi með þessum hætti á miðvikudagskvöld. Hildur segir í viðtali í Spursmál að það sé ógeðslegt að sitja undir ásökunum vegna málsins.
Geturðu lýst fyrir mér atburðarásinni og já, tímanum sem þú ert í vöku að þessu loknu?
„Já, hún er nú svo sem ekkert mjög merkileg. Ég slít þarna á fundi og er ég átta mig fljótt á því að fulltrúar meirihlutans augljóslega höfðu væntingar um um annað og ég sagði sem satt væri að ég hefði ekki upplýsingar um það.“
Segist Hildur hafa átt samtal við Forseta Alþingis, Þórunni Sveinbjarnardóttur, þetta kvöld „þar sem ég útskýrði að þar sem ég hafði engar frekari upplýsingar um þetta og þingmaður með andsvararétt var næstur þá, sem hefði farið yfir miðnætti, þá taldi ég mig bara vera að gera rétt og hún var róleg sko, bara það sé sagt og fór bara að ræða aðra hluti meira að segja.“
Segist Hildur ekki ætla að vera að giska á hvað Þórunn n hugsaði en samtal þeirra hafi verið stutt og tilþrifalítið.
„Ég fór pollróleg að sofa og vaknaði um morguninn og áttaði mig á því að ég væri búin að taka völdin í landinu.“
Þáttastjórnandi Stefán Einar Stefánsson segir að ummæli hafi verið látin falla um valdaránstilraun, að þetta sé ógn við lýðræðið, að það sé búið að taka lýðræðið úr sambandi og aðspurð um hvort það sé þægilegt eða vont að sitja undir slíku svarar Hildur:
„Nei, það er auðvitað ógeðslegt að sitja undir slíku, Stefán. Það er þannig við erum öll manneskjur. En það sem er alvarlegt er að þetta er stef sem að hefur á einn hátt eða annan hátt verið mjög greinilegt hjá þessum glænýja stjórnarmeirihluta og nýrri ríkisstjórn að þar sem að þau unu þessar kosningar, eða ég meina, þau ákváðu að mynda þennan meirihluta að þá svona er þingið og allt sem því viðkemur, stjórnarandstaðan, hennar lýðræðislega hlutverk, allt þetta er fyrir þeim fyrir það fyrsta og maður sá þess merki mjög fljótt.
Og öll vinnan á þinginu hefur borið þess merki. Nefndavinnan er augljóslega svona stimpilpúðakennd, það er svona meira að vera að tikka í box heldur en í rauninni eiga þetta lýðræðislega samtal sem að þarf að eiga sér stað og hlusta á sjónarmið fólks í samfélaginu, hvort sem það eru hagsmunaaðilar eða sveitarfélögin eða bara fólk úti í bæ með sín sjónarmið. Þetta er allt eitthvað sem við eigum að taka til okkar.
Þannig að við erum búin að sjá lengi svona merki þess að þetta sé viðhorfið gagnvart Alþingi og okkur og það hefur verið mikið áhyggjuefni. Og svo stigmagnast þetta svona og brýst út með þessum hætti í gær. Og eins og ég segi væri bara of langt mál að fara yfir öll þessi dæmi hingað til, en það mætti kannski taka þetta saman sem er áhyggjuefni hvernig þau leyfa sér að stilla því upp að andstæðingar þeirra, sem er bara hlutverk stjórnarandstöðunnar á þingi, andstæðingar þeirra, þeir sem dirfast og voga sér að gera athugasemdir við þeirra störf, að þeir séu óvinir þjóðarinnar.“
Horfa má á viðtalið við Hildi í heild sinni hér.