Frá Bakka við Húsavík berast þær fréttir að þunglega horfi enn einn ganginn með rekstur kísilverksmiðju PCC. Það var fyrirsjáanlegt.
Til upprifjunar gekkst þáverandi forystumaður Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs forðum fyrir því að verksmiðjan risi. Staðsetningin var engin tilviljun – kjördæmi sama forystumanns. Grímulaust gamaldags kjördæmapot sem tryggja átti atkvæði úr heimabyggð.
Síðar naut þessi uppbygging verksmiðjunnar stuðnings þeirra sem tóku við keflinu og leiddu flokkinn, sem ekki er lengur til. Frá upphafi hefur þessi verksmiðjurekstur við Skjálfanda verið bras og sendingin norður reynst hefndargjöf.
Landsvirkjun var knúin til að virkja Þeistareyki til að útvega orku til versins og leggja þurfti raflínur þaðan að verksmiðjunni. Allt fokdýrar framkvæmdir.
Nú hefur forstjóri PCC á Bakka sent erindi til stjórnvalda og krafist þess að gripið verði til ráðstafana til að vernda rekstur verksmiðjunnar fyrir, að mati félagsins, ófyrirleitinni verðlagningu á kísilmálmi, aðallega frá Kína.
Talið er að uppsetning verksmiðjunnar hafi kostað 30 milljarða króna og við hana starfa um 120 manns að sögn. Ekki liggur fyrir hvort það er fólk sem sérstaklega fluttist til landsins til að sinna þessum störfum eða hvort um heimamenn er að ræða. Það er svosem ekki neitt úrslitaatriði heldur miklu frekar það að rekstrargrundvöllur kísilversins er veikur.
Það hefur ítrekað komið í ljós allt frá því verksmiðjan hóf rekstur árið 2018. Niðurfærslur skuldbindinga og hlutafjár, hlutafjáraukningar, fjárhagsleg endurskipulagning og fjöldauppsagnir varða rekstrarsögu félagsins. Hluthafarnir hafa því oft þurft að koma því til bjargar en félagið er 65 prósent í eigu hins þýska PCC SE og 35 prósent í eigu innlendra lífeyrissjóða og Íslandsbanka. Og enn virðist komið að einhvers konar ögurstund í þessari harmsögu.
Atvinnuuppbygging á landsbyggðinni hefur ekki alltaf verið uppbyggileg og sérstakan varhug verður að gjalda við því þegar stjórvöld hlutast til um verkefnin sem ráðist er í. Mörg dæmi má rekja þar sem sjónarmið um atkvæðaöflun hafa ráðið för en ekki heilbrigður rekstur.
Auðvitað ráða hluthafar hvað þeir gera en vandséð er að stjórnvöld eigi að verða við ósk PCC á Bakka og taka upp verndartollakerfi fyrir félagið. Finnist ekki aðgengileg leið til að tryggja heilbrigðan rekstur þess gætu hluthafarnir þurft að taka erfiðar ákvarðanir.
Fari svo verður ferlíkið á Bakka minnisvarði um úrelt kjördæmapot og fallna stjórnmálamenn og forða því vonandi að sagan verði endurtekin.