fbpx
Mánudagur 12.maí 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Ísland og Rómarkirkjan

Eyjan
Sunnudaginn 11. maí 2025 16:30

Minnisvarði Píusar VII páfa í Péturskirkjunni í Róm. Myndina gerði dansk-íslenski listamaðurinn Bertel Thorvaldsen árið 1831. Píus varð páfi árið 1800 og „viðstaddur“ þegar Napóleon Bónaparte var krýndur keisari 2. desember 1804.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allt hafði annan róm

áður í páfadóm,

kærleikur manna í milli,

margt fór þá vel með snilli,

Ísland fékk lofið lengi,

ljótt hér þó margt til gengi.

Þessi vísuorð Bjarna Jónssonar Borgfirðingaskálds eru æði kunn sem táknmynd fyrir þá samfélagslegu hnignun sem varð hér á landi við brotthvarf Rómarkirkjunnar. Því hefur verið velt upp að Bjarni lýsi síðan persónulegri reynslu þegar hann yrkir í sama kvæði:

Lénsfénu ólust á

óríkra börnin smá,

nú eru þau öll á róli,

einu fæst varla skóli,

ef óðul að erfðum bæri,

öll þau til kennslu færi.

Sjálfur var hann af fátæku alþýðufólki kominn og átti þess ekki kost að sækja sér skólamenntun. Enginn fékk nú inngöngu í Skálholtsskóla nema hann legði með sér jörð til framfærslu. Þessu var á annan veg farið í kaþólskunni og Bjarni yrkir enn um horfinn heim: „Kirkjur og heilög hús / hver vildi byggja fús / gljáði á gullið hreina /grafnar bríkur og steina.“ Þetta minnir á elstu ákvæðin í núgildandi lagasafni sem eru úr Kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar frá árinu 1275. Þar stendur: „Landeigandi er skyldr at láta gera kirkju á bæ sínum, hverr sem fyrr lét gera.“

Kristinrétturinn var lögtekinn á dögum Gregoríusar X páfa og af því að nú er nýlokið páfakjöri má nefna að Gregoríus X var valinn páfi að loknu lengsta páfakjöri sem nokkru sinni hefur farið fram, en það stóð yfir í þrjú ár, frá 1268 til 1271. Í kjölfar þessa langvinna kjörfundar var reglunum breytt og kjörið skyldi eftirleiðis þannig haldið að kardinálar yrðu lokaðir inni á kjörfundi cum clave, þ.e. með lykli, og ekki heimilt að hverfa á braut fyrr en nýr páfi hefði verið valinn. Þaðan er komið alþjóðaorðið sem notað er um páfakjör, Konklave á þýsku og Norðurlandamálunum, conclave á frönsku og ensku.

Svo sem kunnugt er fer páfakjör nú fram í Sixtínsku kapellunni sem svo er nefnd en á latínu heitir hún Sacellum Sixtinum. Reyndar væri réttara að tala um Sixtusarkapelluna þar sem hún er kennd við Sixtus IV, sem mælti fyrir um að hún skyldi reist á síðari hluta fimmtándu aldar, en því verður varla breytt úr þessu.

Fornöldin er merkilega nærri

Ég sótti messu á páskadag, degi fyrir andlát Fransiskusar páfa, í klaustri heilags Honoratusar á eynni sem við hann er kennd, Île Saint-Honorat, úti fyrir ströndum Suður-Frakklands. Þar stofnaði hann til munklífis um árið 410 — á dögum Vestrómverska ríkisins. Þá var Innósentíus I páfi og Konstantínus III keisari. Ýmsar stofnanir Rómarkirkjunnar eiga sér þannig traustar rætur langt aftur í afar fjarlægri fortíð. Rómúlusi Ágústusi keisara var steypt af stóli 476. Hann var þá raunar aðeins um ellefu ára að aldri. Barbarar höfðu þar með lagt Vestrómverska ríkið að velli, 1200 ára ríki fallið. Rómarkirkjan stendur þó enn traustum fótum, 1615 árum síðar.

Og Rómarkirkjan er allt um kring, líka hér þrátt fyrir að við séum hálúterskt samfélag. Ég sótti messu í höfuðkirkju okkar, Dómkirkjunni í Reykjavík, síðastliðinn sunnudag. Séra Sveinn Valgeirsson þjónaði fyrir altari og vitnaði í prédikun sinni til Leós páfa V. Hann var páfi í fáeina mánuði árið 903, á tíma sem við köllum landnámsöld í okkar sögu. Það er raunar merkilegt að við skulum tala um messu líkt og við værum enn í páfadóm, guðsþjónustur mótmælenda eru sjaldnast kallaðar messur.

Nýr páfi hefur líka tekið sér nafn Leó og er hinn XIV. sem ber það nafn. Menn velta fyrir sér viðhorfum hans og hvaða áhrif hann muni hafa. Íslenskir miðlar hafa verið uppfullir af vangaveltum um hvort nýr páfi verði íhaldssamur eða frjálslyndur. Ágætur kaþólikki sem ég þekki benti á að kardinálarnir vissu sem væri að slík tvískipting væri hvort tveggja í senn villandi og stórhættuleg. Hún gæti jafnvel orðið til að „grafa undan heilbrigðu trúartrausti og greiða Djöflinum leið að hugum okkar og hjörtum,“ eins og hann orðaði það.

Kenning samt fögur

Veraldlegir mælikvarðar nútímans verða nefnilega ekki lagðir á jafnævafornar andlegar stofnanir og Rómarkirkjuna. Og af því að fjarlægir fyrri tímar eru hér til umfjöllunar þá gleymist stundum að fyrir forfeðrum okkar var tíminn ástand. Við sjáum enn í málinu hvað tímahugtök eru oft gildishlaðin; skálmöld, vargöld og skeggöld. Tímans rás var hringferð og tími nátengdur rúmi, orðið veröld merkti raunar fremur tíma en rúm.

Kvæði Bjarna Borgfirðingaskálds sem ég áður gat er æði langt og þeirri hnignun sem fylgdi brotthvarfi Rómarkirkjunnar lýst með ýmsum hætti og af næmni — en hann áréttar að þrátt fyrir allt hafi kristinn kenning staðist:

Allt skrif og ornamennt,

er nú rifið og brennt,

bílæti Kristí brotin

blöð og líkneski rotin,

klukkur kólflausar standa,

kenning samt fögur að vanda.

Þannig var það, þannig er það og verður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Óttaslegnir menn

Steinunn Ólína skrifar: Óttaslegnir menn
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón Skrifar: Um gagnsemi prófa

Björn Jón Skrifar: Um gagnsemi prófa
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Ótti íhaldsaflanna við vit og vísindi

Sigmundur Ernir skrifar: Ótti íhaldsaflanna við vit og vísindi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að vera kristið samfélag

Björn Jón skrifar: Að vera kristið samfélag
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Sendu nú vælubíl að sækja mig!

Svarthöfði skrifar: Sendu nú vælubíl að sækja mig!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist
EyjanFastir pennar
12.04.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Kaldalóns

Óttar Guðmundsson skrifar: Kaldalóns
EyjanFastir pennar
06.04.2025

Björn Jón skrifar: Hið dularfulla og ljóðræna

Björn Jón skrifar: Hið dularfulla og ljóðræna
EyjanFastir pennar
05.04.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks