fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Eyjan

Stjórnarandstaðan pirruð yfir að fá að halda málþófinu áfram fram á nótt – „Hvaða leikrit er í gangi?“

Eyjan
Föstudaginn 9. maí 2025 11:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allt bendir til þess að nú standi yfir málþóf á Alþingi, þó að stjórnarandstaðan þvertaki fyrir slíkar ásakanir. Fundað var fram á nótt á Alþingi þar sem stjórnarandstaðan stundaði það grimmt að barma sér yfir fundarstjórn forseta og með því að flytja ræður og stíga svo ítrekað fram við andsvör þar sem stjórnarandstaðan var í raun að skeggræða við sjálfa sig.

Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri þingflokks Flokks fólksins, skrifaði á Facebook skömmu eftir miðnætti:

„Stjórnarandstaðan hefur nú (kl. 00:30) rætt veiðigjaldafrumvarpið í 12 klukkustundir í dag, meira og minna við sjálfa sig og alfarið við sjálfa sig í um 7 klukkustundir. Þessar 12 klukkustundir bætast við um 16 klukkustundir sem málið hefur verið rætt í vikunni. Fyrsta umræða hefur því staðið í um 28 klukkustundir. 

Þetta vekur svo litla athygli að það hefur ekki einu sinni verið greint frá umræðunni á bloggsíðu Félags einsetumanna. Það er enginn að horfa eða hlusta nema kannski kvótagreifarnir sem vega og meta þingmannakvótann sinn í kílóum þingmanna. 

Það er mikið á sig lagt í vörnum fyrir fjölskyldurnar fjórar sem eiga ekki nema fimm hundruð þúsund milljónir aflögu eftir söluna á þorpunum sínum.“

Skúffaður minnihluti vildi komast heim

Þegar leið að miðnætti í gær fór stjórnarandstaðan þó að ókyrrast og sakaði meirihlutann um að hafa gengið á bak orða sinna. Samkomulag hefði náðst um að þingfundur stæði lengst til miðnættis. Stjórnarandstaðan taldi því ósanngjarnt að funda eftir miðnætti enda væru þá sumir þingmenn þeirra farnir heim og auk þess væru nefndarfundir um morguninn sem margir þurftu að undirbúa sig fyrir.

„Hvað sér virðulegur forseti fyrir sér að halda þingfundi gangandi hér langt inn í nóttina? Þetta er ekki ósanngjörn spurning,“ spurði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks. Hann bætti við að hann veigraði sér ekki við að funda eitthvað áfram, en slíkt þyrfti þá að liggja fyrir strax í upphafi þingfundar.

„Hvaða leikrit er í gangi að geta ekki sagt hversu lengi? Mér er alveg sama. Þetta er, ef ég sletti, unprofessional. Ég bara man ekki orðið núna. Ég skil ekki vandamálið,“ sagði Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, þingmaður Miðflokks sem tók því illa þegar stjórnarliðar hæddust að minnihlutanum fyrir að hafa heimtað að fá að nýta málfrelsi sitt um veiðigjaldafrumvarpið, en vilji svo láta slíta fundi til að komast heim í háttinn.

„Ég held að þessi stjórnarandstaða sé að fara í sögubækurnar sem einhver sú hörundssárasta sem setið hefur hér í þessum þingsal,“ sagði Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar og bætti við að það væri einmitt verið að standa vörð um málfrelsi stjórnarandstöðunnar að leyfa þeim að tala inn í nóttina. Hann tók þó fram að málflutningur stjórnarandstöðunnar um veiðigöldin einkenndist orðið af endurtekningum, en að það megi hann greinilega ekki segja upphátt án þess að móðga andstöðuliða. „Ég held að menn sem láta vaða hér á súðum yfir því hvað þessi ríkisstjórn er nú andstyggileg að vera að leggja fram þetta vondamál, hrökkvi svo einhvern veginn í baklás og verði hálffeimnir og farir litlir inn í sig af því að það kemur einhver stjórnarliði inn og segir að menn séu að endurtaka sig.“

Guðmundur Ari Sigurjónsson þingmaður Samfylkingar furðaði sig á því að þingmenn væru ýmist að fagna því að fá að ræða málið áfram inn í nóttina eða til að kvarta undan því að komast ekki heim að hvíla sig.
Þorsteinn B. Sæmundsson, þingmaður Miðflokks, sagði: „Frú forseti, nú er runninn nýr dagur. Hann gerði það núna fyrir fimm mínútum síðan þannig að það þegjandi samkomulag sem var framkvæmt hér í þingsal í dag án atkvæðagreiðslu um að þingfundur gæti staðið lengur í gær heldur en hefðbundið er, það er úr sögunni því dagurinn er liðinn“

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks sagði: „Ég kveinka mér ekki undan því að halda hér áfram inn í nóttina“ Jón bætti þó við að það væri lágmarkskurteisi að tilkynna þingmönnum hvort það standi til að funda fram á nótt, einkum þar sem fjölmargir þingmenn áttu að mæta á nefndarfundi morguninn eftir.

Jón svo hálfviðurkenndi að um málþóf væri að ræða þegar hann tók fram að stjórnarandstaðan þurfi að vita hvenær þingfundi lýkur til að skipuleggja þófið: „Ef einhverjir af þingmönnunum eru jafnvel farnir af svæðinu, það þarf að gera ráðstafanir til að kalla þá inn á þing aftur ef menn ætla að halda hér áfram eitthvað langt inn í nóttina, þannig að ég held að það sé alveg lágmark að forseti greini okkur frá því hvað hann hyggst fyrir í þeim efnum þannig að við getum gert okkar ráðstafanir til að halda umræðunni áfram.““

Hvernig virkar málþófið?

Málþófið fer þannig fram að þingmaður úr stjórnarandstöðunni fer með stutta ræðu en svo stíga aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar upp í pontu með andsvör. Dæmi:

  • Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks fór með ræðu klukkan 22:20 sem lauk 22:25 og stigu eftirfarandi fram með andsvör, ítrekað. Þetta varð til þess að næsti ræðumaður á eftir komst ekki að fyrr en 23:19.
    • Þorsteinn B. Sæmundsson, Miðflokknum
    • Sigríður Á. Andersen, Miðflokknum
    • Jónína Brynjólfsdóttir, Framsókn
    • Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsókn
    • Jens Garðar Helgason, Sjálfstæðisflokknum
    • Ingibjörg Davíðsdóttir, Miðflokknum
  • Næst með ræðu var Ingibjörg Davíðsdóttir þingmaður Miðflokks klukkan 23:19. Andsvör gáfu eftirfarandi, en seinasta andsvari lauk klukkan 23:45:
    • Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokknum
    • Þorgrímur Sigmundsson, Miðflokknum
    • Jens Garðar Helgason, Sjálfstæðisflokknum
    • Sigurjón Þórðarson, Flokki fólksins
    • Jónína Brynjólfsdóttir, Framsókn
    • Karl Gauti Hjaltason, Miðflokknum

Eins kveður stjórnarandstaðan sér ítrekað hljóð undir sérstökum lið um fundarstjórn forseta. En frá því klukkan 18:00 í gær hóf stjórnarandstaðan umræðu um fundarstjórn sex sinnum og fóru fram alls 54 ræður um fundarstjórn á bilinu 18:00-01:07.

Hvað er til bragðs að taka?

Ef meirihlutinn vill stöðva málþófið þá má finna ákvæði í lögum um þingsköp sem hægt er að beita. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. laga um þingsköp Alþingis getur forseti Alþingis stungið upp á að umræðum sé hætt. Eins getur forseti lagt til að umræðum sé lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eina skilyrðið er að umræður hafi staðið yfir í minnst þrjár klukkustundir. Ef forseti Alþingis kemur með svona tillögu er hún borin strax undir atkvæði og nægir einfaldur meirihluti. Eins geta níu þingmenn tekið sig saman og krafist þess að greidd séu atkvæði um hvort umræðu skuli lokið eða hvort umræðutími sé takmarkaður eða ræðutími hvers þingmanns.

Meirihlutinn gæti svo reynt að semja við minnihlutann – að fara með veiðigjaldafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það yrði þó andstöðunni líklega ekki til framdráttar þar sem mikill meirihluti þjóðarinnar er hlynntur frumvarpinu samkvæmt skoðanakönnunum. Samkvæmt könnun Maskínu í apríl taldi 94 prósent svarenda að útgerðarfélög gætu greitt hærri veiðigjöld. Samkvæmt nýrri könnun Maskínu sem var kynnt í síðustu viku sögðust 69 prósent svarenda vera hlynntir frumvarpinu og aðeins 18 prósent voru andvígir.

Til gamans mætti rifja upp grein sem Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks skrifaði fyrir nokkrum árum síðan. Þar minnti hún á 71. gr. þingskapalaga og tók fram að málþóf eigi ekkert skylt við málfrelsi eða lýðræði.

„Þrátt fyrir að túlka megi þingsköp, sem skapa rammann um hvernig þinghaldi skuli háttað, með þeim hætti að þingmönnum sé frjálst að halda uppi umræðu endalaust þá er þar kveðið skýrt á um að andsvör séu aðeins heimiluð með leyfi forseta. Þá er einnig að finna heimild í 71. gr. þingskapalaga til þess að takmarka umræður.

Ég tel rétt og eðlilegt að þingheimur hugi að þessum heimildum til framtíðar. Núverandi fyrirkomulag, þar sem fámennur hópur stjórnarandstæðinga getur tekið þingið í gíslingu, gengur ekki til framtíðar.“

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Formaður Sjálfstæðisflokksins fór í vikulangt frí daginn áður en eitt stærsta mál þessa þings var tekið til fyrstu umræðu

Formaður Sjálfstæðisflokksins fór í vikulangt frí daginn áður en eitt stærsta mál þessa þings var tekið til fyrstu umræðu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Vilhjálmur brýnir sinn gamla flokk – Vill að meira verði gert fyrir Breiðholtið

Vilhjálmur brýnir sinn gamla flokk – Vill að meira verði gert fyrir Breiðholtið
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Diljá Mist Einarsdóttir: Trump hefur sértrúarsöfnuð í kringum sig – Ísland hefur sérstöðu

Diljá Mist Einarsdóttir: Trump hefur sértrúarsöfnuð í kringum sig – Ísland hefur sérstöðu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Heimur í höndum skemanns

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Heimur í höndum skemanns
Eyjan
Fyrir 1 viku

Musk er Bandaríkjunum dýrkeyptur – Kostar 17.000 milljarða

Musk er Bandaríkjunum dýrkeyptur – Kostar 17.000 milljarða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hæðast að stjórnarandstöðunni fyrir „vandræðalegan“ fund – „Hversu lengi ætlar íhaldið að halda þessum skrípaleik áfram?“

Hæðast að stjórnarandstöðunni fyrir „vandræðalegan“ fund – „Hversu lengi ætlar íhaldið að halda þessum skrípaleik áfram?“