fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Eyjan
Laugardaginn 29. júní 2024 16:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það óvenjulega í íslenskum stjórnmálum nú um stundir er það kreppir að á báðum endum þeirra. Það er þvert á þá almennu tilhneigingu að fylgið sveiflist á milli ásanna, leiti á víxl til vinstri og hægri.

En nú ber nýrra við. Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið. Það er einsdæmi. Og það sem vekur enn fremur athygli er að ógöngur þeirra stjórnmálaafla sem hér um ræðir virðast engan endi ætla að taka.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur verið í frjálsu falli um alllangt skeið. Það mælist nú minna en nokkru sinni, innan við fimmtán prósent, svo vitnað sé til nýjustu mælinga.

Fylgi Vinstri grænna er við það að hverfa. Það hefur ítrekað mælst við mörk þess að hreyfingin komi manni að í þingkosningum. Fari fram sem horfir gæti hún hæglega þurrkast út.

Liðsmenn VG hafa ávallt frá því flokkurinn var stofnaður getað gengið að því vísu að eiga ágætlega bústinn þingflokk við Austurvöll, en saga hans reis undir aldamótin með þeirri einörðu forskrift að þar færi róttækur vinstriflokkur sem legði áherslu á jöfnuð og sjálfbærni.

Tíu árum eftir að hann lagði af stað í þessa vegferð sína stóð hann uppi með 21,7 prósenta fylgi, því mesta sem hann hefur nokkru sinni náð. Þá var hann ásamt Samfylkingunni, þáverandi samstarfsflokki sínum, með samtals 51,5 af kjörfylginu við ríkisstjórnarborðið. En annað eins hafði ekki þekkst, hvorki fyrr né síðar. Núna er rýrari en nokkru sinni, svo til allslaus hvað forystu og stefnu varðar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka úr ákaflega háum söðli að detta. Hrakfarir hans á þessari öld eru efni í sérstaka rannsókn á pólitískum óförum – og má raunar rekja raunir hans aftur á tíunda áratug síðustu aldar þegar sól hans gekk til viðar í Reykjavík, höfuðvígi hans frá stofnuninni 1929, réttum sjötíu árum áður en VG kom til sögunnar.

Þessi gamli valdaflokkur var meginstoðin í íslenskum stjórnmálum allan meginhluta síðustu aldar og hefur verið við völd í átta af hverjum tíu árum frá því Ísland varð lýðveldi. Hann hefur öðrum flokkum framar mótað íslensk samfélag. Það er honum að þakka, eða að kenna, hvernig umhorfs er til sjávar og sveita, svo og í öllu þjóðlífinu.

Í krafti stærðar sinnar hefur hann lengst af verið augljósasti kosturinn í stjórnarsamstarfi, oftast nær með Framsóknarflokki, en þó líka vinstrimönnum, svo sem dæmin sanna á núlíðandi öld. Aðrir flokkar hafa staðið í skugga Sjálfstæðisflokksins í góðan mannsaldur og öfundað hann löngum af traustu fastafylgi og einarðri forystu og stefnuskrá – og lengst af vestrænum gildum og frjálslyndum blæ.

En nú er hún Snorrabúð stekkur. Þessi mesti valdaflokkur landsins hefur tapað tiltrú langflestra landsmanna. Formaður hans, sem er sá eini í stjórnmálasögunni, jafnt heima og erlendis, sem hefur ratað í forsætisráðuneytið eftir að hafa sagt af sér embætti, reynist vera sá sem landsmenn bera minnst traust til – og það árum saman.

Einn af forverum hans, Davíð Oddsson kom eins og stormsveipur úr borgarstjórn og inn í landsmálin með 38,6 prósenta fylgi flokksins vorið 1991. Þá þótti það eðlilegt fylgi. Hann var á að giska fjörutíu prósenta samkunda fólks úr öllum stéttum samfélagsins. En það er liðin tíð.

Flokkar byggja fylgi sitt á trausti. Í tilviki þingflokkanna lengst til vinstri og hægri er það ekki lengur fyrir hendi. Þeir eru trausti rúnir. Og hafa séð til þess sjálfir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu
EyjanFastir pennar
20.06.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins
EyjanFastir pennar
19.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þarf alltaf að vera með leiðindi?

Svarthöfði skrifar: Þarf alltaf að vera með leiðindi?
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar