fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Eyjan

Telja að tillaga Ingu myndi þýða brotthvarf frá núverandi lífeyrissjóðakerfi og samtryggingunni

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 4. apríl 2024 17:25

Inga og Þórey hafa ólíka sýn á lífeyrismálin.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landssamtök lífeyrissjóða segja að ef þingsályktunartillaga Ingu Sæland um eignarétt og erfðir lífeyris myndu ná fram að ganga myndi vera horfið frá núverandi samtryggingarkerfi sem hafi reynst mjög vel. Íslenska lífeyrissjóðskerfið sé á meðal þeirra fremstu í alþjóðlegum samanburði.

Inga Sæland og samflokksmenn hennar í Flokki fólksins hafa lagt tillöguna fram í fjórða skiptið. Samkvæmt tillögunni yrði Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur fjármálaráðherra gert að leggja fram lagafrumvarp fyrir árslok sem hefðu það að markmiði að tryggja eigna og ráðstöfunarrétt fólks á lífeyri og heimila að lífeyrisréttindin erfist, það er til maka og barna að fullu.

Frumvarpið yrði að tryggja að fólk gæti valið á milli þess að greiða skyldubundinn lífeyrissparnað í sjóð sem veitir hlutfallslega réttindaávinnslu eða greiða inn á sérgreindan reikning þar sem hægt er að velja hvernig lífeyrir er ávaxtaður.

„Fólk hefur almennt lítið val um það hvernig lífeyrissparnaður þess er ávaxtaður. Um það ráða stjórnir lífeyrissjóða mestu. Lífeyrissjóðir hafa gert mistök í fjárfestingum og stundum hafa þau mistök orðið dýrkeypt fyrir sjóðfélaga. Í slíkum tilvikum eru möguleikar sjóðfélaga til að krefjast breytinga eða hafa áhrif takmarkaðir,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Atvinnurekendur sitji í stjórnum

Bent er á að fulltrúar atvinnurekenda sitji oft á tíðum í stjórnum lífeyrissjóða. Gagnvart þeim hafi almennir sjóðsfélagar engin úrræði.

Þrátt fyrir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar falli lífeyrisréttindi sjóðsfélaga niður við andlát. Lífeyrissjóðir hafi heimild til að kveða á um rýmri rétt eftirlifenda en nýti það sjaldan meira en hið lögbundna lágmark. Minnihluti sjóða bjóði upp á erfanlegan lífeyrissparnað og fáir nýti heimild um skiptingu lífeyrisréttinda á milli hjóna.

„Í stað þess að lífeyrisréttindi erfist er eftirlifandi maka aðeins tryggður makalífeyrir í tvö ár og börnum er aðeins tryggður barnalífeyrir til 18 ára aldurs. Hvað verður þá um lífeyrissparnað hins látna? Hann dreifist á heildina. Aðrir sjóðfélagar græða nokkrar krónur á meðan fjölskylda hins látna verður fyrir verulegu tekjufalli,“ segir í greinargerð Ingu.

Öryggisnet til æviloka

Umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða, sem Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri skrifar, er neikvæð gagnvart tillögunni.

„Tillagan virðist fela í sér vilja til þess að hverfa frá núverandi lífeyrissjóðakerfi sem byggist að stórum hluta á samtryggingu og taka upp hreint séreignarfyrirkomulag,“ segir Þórey í umsögninni.

Vísar hún til þess að samtrygging og skylduaðild að lífeyrissjóðum eigi rætur að rekja til kjarasamnings á almennum vinnumarkaði vorið 1969. Að mati verkalýðshreyfingarinnar hafi þetta skref verið eitt hið merkasta í samanlagðri baráttusögu sinni á 20. öldinni.

„Grunngildi skylduaðildar eru að tryggja launafólki eftirlaun til æviloka og vera öryggisnet gagnvart skakkaföllum hvenær sem er á lífsleiðinni. Lífeyrisréttindi í samtryggingardeildum eru eign sjóðfélaganna og lögvarin sem slík. Lífeyrisréttindi í samtryggingardeildum veita réttindi sem fólk öðlast á vinnumarkaði og gengur síðan að eftir atvikum með greiðslu ævilangs lífeyris, örorkulífeyris, makalífeyris eða barnalífeyris,“ segir Þórey.

Bendir hún á að flestir lífeyrissjóðir bjóði sjóðsfélögum sínum að ráðstafa 15,5 prósentum af lágmarksiðgjaldi í séreign. Hvort þetta er tekið og hvaða ávöxtunarleið er farin sé val sjóðsfélaga. Þetta er ekki hluti af samtryggingunni og erfist því við fráfall sjóðsfélaga.

Næstbesta kerfið á Íslandi

Í alþjóðlegum samanburði komi íslenska lífeyriskerfið afar vel út, það er í lífeyrisvísitölu sem ráðgjafafyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa að. Á lista 40 ríkja er Ísland á meðal tveggja efstu.

„Ein helsta skýringin fyrir því að íslenska kerfið fær háa einkunn er að hér ríkir samtryggingarkerfi alls launafólks með hárri iðgjaldaprósentu auk tiltölulega ríflegs lífeyris frá ríkinu (Tryggingastofnun),“ segir í umsögninni.

Vissulega hafi komið fram veikleikar sem mikilvægt sé að greina og nú sé unnið að grænbók um íslenska lífeyrissjóðskerfið.

„Undanfarin ár hafa einkum heyrst óánægjuraddir sem beinast að samspili greiðslna úr lífeyrissjóðakerfinu gagnvart skerðingum á greiðslum almannatrygginga. Miklar tekjutengingar almannatrygginga hafa leitt til þess að almenningur telur ranglega að lífeyrisréttindi í samtryggingu séu ekki lögvernduð eign.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?